Níkaragva efnahagur,
Flag of Nicaragua


NÍKARAGVA
EFNAHAGUR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Níkaragva hefur verið meðal fátækustu landa Latnesku-Ameríku í gegnum tíðina.  Stríðið milli kontra og sandinista, viðskiptaþvinganir BNA á níunda áratugnum, mistök sandinista og íhaldsmanna, sem tóku við af þeim gerðu illt verra.  Stefna sandinista í átt að blönduðu hagkerfi (60% einkarekstur og 40% ríkisrekstur) olli auknum hagvexti frá 1980-83 en þá fór ofangreindra atriða að gæta af fullum þunga og erlendar skuldir hlóðust upp.  Síðla á níunda áratugnum gripu þeir til mikils niðurskurðar í opinberum rekstri, sem olli miklu atvinnuleysi, og hvöttu til meiri einkaframtaks.  Íhaldsstjórnin hélt þessari stefnu á tíunda áratugnum.  Einkavæðingu var hraðað og dregið úr ríkisútgjöldum til stuðnings fátæks meirihlutans.  Fjárstuðningur frá BNA og alþjóðastofnunum gerði kleift að ná tökum á verðbólgunni.  Samtímis jókst fátæktin enn og efnahagslífið staðnaði.

Náttúruauðlindir landsins eru mikil og víðast ónýtt.  Efnahagslífið byggist aðallega á landbúnaði og iðnaði á frumstigi.  Jarðefni eru m.a. gull, silfur, sink, kopar, járngrýti, blý og gips.  Í frumskógunum er mikið af eðalviði og mjúkum viði og mikið er af matfiski við strendur landsins og í stöðuvötnum.  Virkjanamöguleikar eru víða og bíða nýtingar.
Atvinnuvegir.  Landbúnaður, skógarhögg og fiskveiðar krefjast u.þ.b. 40% vinnuafls landsins, sem standa undir 25% heildarþjóðartekna. 

Landbúnaður.  Á miðjum tíunda áratugnum voru aðalútflutningsvörurnar kaffi, sjávarafurðir, nautakjöt og sykur og dregið hafði úr útflutningi banana og baðmullar.  Landbúnaðarafurðir eru aðallega maís, baunir, hrísgrjón, sorghum, sterkja og cassavarót.  Margs konar ávextir eru líka ræktaðir fyrir innanlandsmarkaðinn.

Mikið er ræktað af nautgripum vegna húða, kjöts og mjólkurafurða í vesturhlutanum en aðalleg til kjötframleiðslu í austurhlutanum.  Mikill vöxtur var í þessari grein frá lokum síðari heimsstyrjaldar fram á síðari hluta áttunda áratugarins, þegar bændur urðu að draga úr framleiðslunni eða flýja land með hjarðir sínar vegna stríðsástandsins.  Talsvert er líka ræktað af geitum, svínum, hestum og sauðfé.

Skógarhögg var vaxandi atvinnugrein, sem stríðið dró máttinn úr, þegar flestar sögunarmyllur voru lagðar í rúst. 

Rækjuveiðar eru mikilvægasti sjávarútvegurinn.  Aflinn í höfunum báðum megin landsins er að mestu fluttur út.  Humar er líka útflutningsvara í litlum mæli.  Aðrir stofnar eru lítt nýttir vegna fjárskorts og slíkar veiðar eru enn þá aðallega hluti af sjálfsþurftarbúskapnum. 

Iðnaður.  Eina jarðefnið, sem var nýtt í einhverjum mæli, var gull.  Fjármagn hefur skort til að nýta verðmætin í jörðu fram að þessu.  Iðnaðurinn í landinu byggist á framleiðslu neyzluvöru, sem krefst oft innflutnings hráefna.  Á síðari hluta 20. aldar studdu stjórnvöld aukningu fjölbreytni framleiðslunnar og nýtingu innlendra hráefna.  Komið var upp olíuhreinsunarstöðvum, framleiðslu eldspýtna, skófatnaðar, sápu og jurtaolíu, sements, áfengis og vefnaðarvöru.

Fjármál.  Seðlabanki Níkaragva var stofnaður árið 1961.  Hann hefur einkarétt á peningaútgáfu.  Ríkisstofnanir bera ægishjálm yfir fjármálamarkaðnum.  Landið var að mestu leyti háð BNA með útflutning, en sandinistastjórnin leitaði markaða víðar, s.s. í fyrrum Austantjaldslöndum og á Kúbu. Viðskipti við þessi lönd urðu samt aldrei ríkjandi, þótt BNA samþykktu viðskiptabann á landið 1985. Eftir 1990 voru viðskipti milli landanna tekin upp á ný.  Allt frá áttunda áratugnum og fram á hinn tíunda var mikill viðskiptahalli í landinu.

Samgöngur.  Aðalvegakerfi landsins er í vesturhlutanum, þar sem eru hraðbrautir og aðrir vegir, sem eru ófærir á regntímanum.  Þar er 410 km kafli Pan-American hraðbrautarinnar frá Hondúras í 40 km fjarlægð frá höfuðborginni Managua til Kostaríka.  Mikilvægur hliðarvegur liggur til austur til Port Esperanza við Rama.  Annar vegur tengir Managua við Puerto Cabezas við Karíbahaf.

Járnbrautir eru nokkur hundruð km langar.  Aðalbrautin liggur frá Granada í norðvestur til Coninto á Kyrrahafsströndinni.  Hliðarspor liggur norður frá León til kaffiræktarsvæðisins í Carazo.

Mestur hluti utanríkisviðskipta landsins fer um hafnirnar Puerto Sandino og San Juan del Sur í Corinto Kyrrahafsmegin.  Karíbamegin eru Puerto Cabezas og Bluefields aðalhafnirnar.  Stuttar árnar í vesturhlutanum eru gengar litlum skipum og í vesturhlutanum er Cocoáin geng skipum af miðlungsstærð. 

Aðalflugvöllur landsins er tæplega 12 km frá Managua.  Annar stór flugvöllur er við Puerto Cabezas.  Áætlunarflug innanlands er stundað til annarra flugvalla.  Einkarekið flugfélag, Nica, og nokkur bandarísk og önnur erlend flugfélög bjóða millilandaflug til Nikvaragva.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM