Mexíkó landslag og lega,


MEXÍKÓ
Landslag og lega

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Landslag og lega.  Óvíða annars staðar í heiminum er jarðskorpan óstöðugri og eldvirkni meiri en í Mexíkó.  Landið er hluti af keðju virkra eldfjalla kringum Kyrrahafið og gífurlegra jarðhræringa.  Eldfjöllin Citlaltépetl (líka nefnt Orizaba; 5700m) og Popocatépetl (5452m) eru jarðfræðilega mjög ung (frá síðtertíer) eru skír dæmi um eldvirknina, sem hlóð upp mið- og suðurhluta landsins.  Landið er á vesturjaðri Norður-Ameríkuflekans, sem er í snertingu við fleka Kyrrahafsins og Karíbahafsins auk Kókosflekann.  Jarðskorpuhreyfingarnar hafa fram að þessu mótað og munu enn um hríð móta landslag Mexíkó.  Óvíða á jörðinni er að finna jafnmikla óreiðu í jarðlögunum og í suðurhluta landsins, þar sem allir þessir flekar ráða landmótuninni.  Íbúarnir búa við mun meiri hættu á stærri jarðskjálftum en Íslendingar og mikilli eldvirkni. 

Það er hægt að skipta landinu í átta svæði, sem landslag og jarðsaga gerir ólík.  Stærst þeirra, og mikilvægast fyrir búsetu manna, er Mexíkóhásléttan, sem nær frá Tehuantepeceiðinu norður að landamærunum við BNA.  Þetta stóra landsvæði skiptist í miðhlutann og svæðin umhverfis.  Sléttunni hallar lítillega frá norðri (1200m) til suðurs (2400m).  Víða á sléttunni eru fjöllum girtir dalir og skvompur.  Miðhlutinn skiptist í Mesa del Norte, sem nær næstum frá BNA-landamærunum suður að San Luis Potosí.  Á þessu þurra svæði stemma engin vatnsföll til sjávar og fáar ár eru sýnilegar allt árið.  Syðri hlutinn, Mesa Central, nær frá San Luis Potosí rétt suður fyrir Mexíkóborg.  Þetta eldvirka svæði teygist upp í rúmlega 2700 m hæð yfir sjó og er rakara og sléttara en Mesa del Norte.  Suðurhlutinn skiptist fjölda dala milli veðraðra eldfjalla.  Þeir ná fæstir 260 km², s.s. Mexíkódalurinn, Puebla og Gadalajara, og flestir eru miklu minni.  Dalirnir eru víðast frjósamir og eru matforðabúr landsins.  Víða í þessum dölum voru mismunandi stór stöðuvötn, sem voru þurrkuð til að stuðla að búsetu Evrópumanna.  Svæðið, sem Mexíkóborg stendur á, er mjög óstöðugt vegna vatnssósa jarðvegs og margar byggingar síga og hallast eða sökkva smám saman í jörð. 

Mexíkósléttan er umkringd skörðóttum fjallgörðum.  Í vestri eru eldvirk Sierra Madre Occidental fjöllin, sem eru rúmlega 2700 m há.  Ár, sem falla til vesturs, hafa grafið fjölda djúpra gljúfra og gilja í gegnum þau.  Hið tilkomumesta er Kopargljúfur  (Barranca del Cobre), sem er „Miklagljúfur Mexíkó”.  Sierra Madre Oriental er fellingafjallgarður úr leir- og kalklögum austan Mexíkósléttunnar.  Hann er nokkuð jafnhár Sierra Madre Occidental en hæstu tindar eru hærri, rúmlega 3600 m.  Neo-Volcánica Cordillera, líka kölluð Þverfjöll, státa af snævi þöktum tindum eins og Popocatépetl, Iztaccihuatl (5286m) og Tocula (4558m) eru á suðurmörkum sléttunnar.

Austan og vestan hásléttunnar eru láglendissvæðinn við ströndina.  Ströndin við Mexíkóflóa nær frá Texas til Yucatánskaga, u.þ.b. 1500 km löng og þakin lónum og fenjum austan brattra Sierra Madre Oriental.  Norðurhlutinn er líkur þríhyrningi í laginu, allt að 170 km breiður nyrzt en mjókkar til suðurs.  Norðan Tampico teygja Sierra Madre Oriental sig út í sjó og kljúfa strandlengjuna.  Sunnan þeirra er ströndin mjó og óregluleg og breikkar við norðurenda Tehuantepeceiðið og sameinast síðan flötum kalklögum Yucatánskagans.  Kyrrahafsmegin er strandlengjan mun mjórri og teygist frá Maxicalidalnum í norðri og endar nærri Tuxpan u.þ.b. 1500 km sunnar.  Hún liggur að mestu að Kaliforníuflóa með hlíðarbrött Sierra Madre Occidental fjöllin að baki og skiptist í stöllótt landsvæði með skvompum, áreyrar og illaðgengilegar víkur.  Hluti þessa svæðis hefur verið ræktað með áveitum.  Þurr og kargalegur Kaliforníuskaginn er u.þ.b. 1320 km langur og óvíða breiðari en 165 km.  Miðhluti hans er risavaxið granítmisgengi, sem nær allt að 2750 m hæð yfir sjó í San Pedro Martír og Sierra de Juárez.  Vesturhlíðar þessara fjallgarða eru aflíðandi en austurhlutinn er snarbrattur illaðgengilegur.  Balsaslægðin, sem dregur nafn af aðalánni á svæðinu, er beint sunnan Mexíkóhásléttunnar.  Um hana liggja garðar af hæðum og hólum, sem gefa þessu þurrlenda svæði sérstakt yfirbragð.

Á suðurhálendinu eru nokkrir klasar af skörðóttum fjallahryggjum og sléttum.  Á því suðvestanverðu eru fjallgarðar með samheitið Sierra Madre del Sur, allt að 2400 m háir, sem teygja sig sumstaðar til sjávar og mynda klettótta og úfna strandlengju.  Hluti hennar er kölluð Mexíkóska rívíeran.  Þar eru vinsælir ferðamannastaðir, s.s. Ixtapa-Zihuatanejo, Acapulco og Puerto Escondido, en innar í landinu eru dalir, sem eru erfiðir til ræktunar.  Lengra til norðausturs er Mesa del Sur, sundurskorin af misstórum vatnsrásum og dalbotnum, sem liggja í 1200-1500 m hæð yfir sjó.  Oaxacadalurinn er stærstur og þéttbýlastur og íbúarnir eru flestir indíánar.  Þessi landshluti er meðal hinna fegurstu í landinu en jafnframt hinn fátækasti.

Tehuantepec-eiðið er mjótt og tiltölulega láglent, hvergi hærra en u.þ.b. 270 m.  Beggja vegna hæðótts miðhluta þess eru mjóar strandlengjur.

Chiapas-hálendið er framhald fjallgarða Mið-Ameríku.  Þar eru klasar fellingafjalla umhverfis misgengislægð.  Sierra de Soconusco fjallgarðurinn stendur meðfram Kyrrahafsströndinni.  Sigdalur Grijalvaárinnar er norðvestar og samhliða ströndinni.  Á milli hans og Tabascosléttunnar eru sundurskorin fellinga- og misgengisfjöll.  Norðaustan Tabascosléttunnar, allt að Mexíkóflóa, er Yucatánskaginn.  Hann er þakinn kalklögum, hæðóttur og nær óvíða meira en 150 m hæð yfir sjó.  Lítið vatn rennur á yfirborðinu en víða hefur það grafið sér farvegi neðanjarðar og sums staðar hafa þök þessara hella hrunið og skilið eftir merki á yfirborðinu.  Eyjarnar Cozumel og Mujeres eru við norðausturenda skagans.

.

ELDGOS á ÍSLANDI

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM