Viðskipti.
Mikill fólksfjöldi Möltu leiddi til viðskiptaerfiðleika og
verulegs atvinnuleysis árum saman.
Þessi vandamál hafa aukizt eftir að landið varð sjálfstætt,
því að 29% vinnuaflsins voru bundin í störfum fyrir brezku nýlenduherrana
árið 1955. Mikill fjöldi
fólks fór úr landi til Kanada, Bretlands og BNA og mikið dró úr fæðingartíðni
áratugum saman. Ástandið
batnaði smám saman og atvinnuleysið minnkaði í 2%.
Margir snéru heim aftur frá öðrum Evrópulöndum en þá
fluttu Bretar leifar setuliðs sín heim 1979 og skildu 6000 manns eftir
án atvinnu, þannig að vandamálið jókst á ný.
Þeir yfirgáfu m.a. skipasmíðastöð, sem hélt áfram rekstri
í höndum einkaaðila, þannig að áfallið varð ekki eins mikið og
ella og önnur starfsemi var efld eins og kostur var til að taka við
vinnuaflinu.
Stærsti vinnuveitandinn er
slippurinn í Fort Ricasoli, sem býður m.a. beztu aðstöðu til
hreinsunar tankskipa í heimi. Mikil
erlend fjárfesting hefur stuðlað að uppbyggingu margs konar iðnaðar,
s.s. framleiðslu matvæla, vefnaðar, efnavöru og smíði véla, sem
veitti tugþúsundum atvinnu. List-
og heimilisiðnaður hefur líka aukizt verulega, því að ferðamenn
kaupa í auknum mæli alls konar listvefnað og silfurmuni.
Ríkið veitir mörgum hinna atvinnulausu tímabundna vinnu við
alls konar störf í þágu hins opinbera.
Landbúnaður
er stundaður á u.þ.b. 15.000 hektörum lands.
Á vesturhluta Möltu og á Gozo var kalkjarðvegurinn gerður nýtilegur
með mold og áveitum (u.þ.b. 660 ha).
Lokuð áveitusvæði (u.þ.b. 100 ha) er að finna í Il-Ghadira-
og Pwalesdölunum og þar er uppskeran a.m.k. tvöföld á við náttúrulegu
ræktunarsvæðin og bændur geta skorið þrisvar upp á ári.
Það er þó langt í frá, að nægileg uppskera fáist til að
brauðfæða þjóðina, bæði vegna úreltra aðferða og skorts á
vatni til áveitna. Möltubúar
verða að flytja inn u.þ.b. 75% matvæla.
Aðalafurðir landbúnaðarins eru hveiti, bygg, matarolía, grænmeti,
tómatar, tóbak, fíkjur og sítrusávextir.
Nokkuð er flutt út af kartöflum, vínberjum og ávöxtum. |