Taman Negara Malasía,
[Malaysia]


TAMAN NEGARA
MALASÍA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Þótt Taman Negara-þjóðgarðurinn, sem er 4.343 km², sé í austurhluta Vestur-Malasíu, í ríkjunum Pahang, Terengganu og Kelantan, er aðeins hægt að komast að honum vestan frá um bæinn Kuala Lipis.  Á náttúruverndarsvæðinu lifa margar tegundir villtra dýra, villinautgripir (gaur eða seladang), fílar, sambarhirtir (þrígreinótt horn; fax), villisvín, tígrar og nokkrar apategundir.

Flestir skoða aðeins Pahanghluta þjóðgarðsins og árangur heimsóknar þar er algerlega undir því kominn, hve mikið fólk vill leggja á sig.  Sumir sjá fjöldann allan af villtum dýrum og eru í sjöunda himni en aðrir fátt annað en blóðsugur (iglur) og moskítóflugur og finnst lítið til koma.

Aðalstöðvar þjóðgarðsins eru í Kuala Tahan.  Þaðan liggja margir göngustígar að fylgsnum og stöðum, þar sem saltsteinum hefur verið komið fyrir til að laða dýrin að.  Til að komast sem lengst frá fjölförnum slóðum þarf að ganga a.m.k. í heilan dag eða sigla upp ána með bát.  Sé gist yfir nótt í einhverju þessara svokölluðu fylgsna, þarf að hafa gott vasaljós, vatn og svefnpoka eða ábreiðu meðferðis.  Jafnvel þótt engin dýr sjáist, er það mikil lífsreynsla að fylgjast með hljóðum frumskógarins, einkum þegar rökkva tekur og í dagrenningu.

Það verður að undirbúa ferð í þjóðgarðinn vel.  Fyrst er að hafa samband við Upplýsingaskrifstofu ferðamála (TIC; 03-243 4929), 109 Jalan Ampang, Kuala Lumpur.  Þar verður að panta far með bátum og gistingu í Kuala Tahan og venjulega þarf að greiða M$ 30.- inn á.  Aðgangseyrir að garðinum er M$ 1.-, myndavélarleyfi kostar M$ 5,- og stangaveiðileyfi M$ 10.-.

Í aðalstöðvum garðsins er móttökumiðstöð, nokkur veitingahús, gistiheimili, nokkrir gistikofar og tvær verzlanir, sem selja lítið úrval af dósamat, snyrtivörur, rafhlöður, kökur og snarl.  Hægt er að leigja viðlegubúnað í búðinni við móttökuna.  Á hverju kvöldi kl. 20:45 fer fram frí litskyggnusýning og jafnframt er fríum kortum af þjóðgarðinum dreift.

Bezt er að heimsækja garðinn á tímabilinu frá marz til september.  Hann er lokaður um regntímann frá miðjum nóvember til miðs janúar og í eina viku á meðan múslimar fagna nýju ári.

Þótt hversdagsföt séu ágæt í Kuala Tahan, þarf frumskógarbúning, sé ætlunin að ná árangri í dýraskoðunarferðum.  Það getur orðið býsna svalt í bátsferðum snemma á morgnana.  Moskítóflugurnar geta orðið allágengar og bezt er að bera flugafælandi efni á alla hluta líkamans, sem eru ekki huldir klæðum.

Iglurnar eru tíðast lítið vandamál, þótt þær færist allar í aukana eftir mikla rigningu.  Hægt er að beita ýmsum ráðum til að halda þeim frá sér, s.s. flugnafælandi efni, tóbak, salt, tannkrem og sápu, en ekkert er 100% árangursríkt.  Það, sem virkar bezt, er að úða Baygon flugnafælu ríkulega á skó og sokka.

Búðin næst móttökunni leigir út tjöld, bakpoka, vatnsflöskur, litla prímusa, potta og jafnvel létt stígvél.  Veiðarfæri er hægt að fá lánuð gegn M$ 50.- innborgun, sem fæst endurgreidd, ef ekkert hefur komið fyrir þau, þegar þeim er skilað.  Veiðistöng fæst leigð fyrir M$ 10.- á dag.

Nokkuð margir frumbyggjar, orang asli, búa í grennd við aðalstöðvar þjóðgarðsins og sagt er að þeir fái fría fæðu til að þeir flytji sig ekki úr stað.

Jenut Tahan er fylgsni í nokkurra mínútna göngufjarlægð frá móttökunni, þar sem saltsteinum hefur verið komið fyrir í grasi vöxnu rjóðri í næsta nágrenni við vatnsból.  Átta manns geta setið þar og fylgzt með, en ekki er gert ráð fyrir næturgistingu.  Þar eru oft saman komnir margir, hávaðasamir innfæddir, sem finnst þetta upplagður staður fyrir næturteiti.  Það eru engar líkur til að sjá villidýr þar.

Jenut Tabing er annað fylgsni í klukkustundar göngufjarlægð frá móttökunni.  Þar eru átta rúm og salerni með 'mandi' (stórt trog með þvottavatni).  Jenut Belu er í 1½ tíma fjarlægð frá móttökunni.  Þar er ekkert vatn að hafa.

Jenut Kumbang.  Það tekur 5 klst. að ganga þangað frá Kuala Tahan.  Kostur er á að sigla með bát kl. 09:00 (M$ 10.-) upp Tembeling-ána til Kuala Terenggan.  Í þessu fylgsni eru 6 kojur, salerni, þvottaaðstaða og hreinn lækur rétt hjá.

Jenut Cegar Anging er saltfylgsni, sem laðar til sín villta nautgripi og hirti.  Það er í 1½ tíma fjarlægð frá Kuala Tahan.

Árnar og sportveiði.  Þjóðgarðurinn er paradís fyrir stangveiðimenn.  Þar er urmull af fiski í ánum, m.a. kelasa, sem er mjög skemmtilegur að glíma við.  Aðalveiðiárnar eru Sungai Tahan, Sungai kenyam og Sungai Sepia.  Beztu veiðitímabilin eru febrúar, marz, júlí og ágúst.  Veiðistangarleiga kostar M$ 10.- á dag og veiðileyfi M$ 5.-.

Hægt er að leigja báta í þjóðgarðinum en þeir eru fremur dýrir.  Stytzta ferð með fjögurra sæta bát kostar ekki undir M$ 60.-.

Fjöllin og gönguferðir.  Stígarnir umhverfis aðalmiðstöð þjóðgarðsins eru vel merktir, þótt sumir þeirra séu erfiðir yfirferðar.  Á skiltum meðfram þeim stendur hvert þeir liggja og áætlaður göngutími.  Þjóðgarðsverðirnir standa fyrir tveggja daga gönguferðum, sem kosta í kringum M$ 40.- á mann og lágmarks-þátttakenda er fjórir.  Lagt er af stað kl. 09:00 báða dagana og gengið til kl. 15:00.

Gunung Tahan er hæsta fjallið í Vestur-Malasíu, 2.187 m.  Það tekur 2½ dag að ganga að rótum þess og 2½ dag að klífa það.

Matsölustaðir.  Það eru tvö veitingahús í aðalmiðstöðinni í Kuala Tahan með líka matseðla og verðlag.  Maturinn er venjulegur en þau bjóða vestrænan morgunverð fyrir þá, sem geta ekki hugsað sér að byrja daginn með svínakjöti og fiskigraut.  Á kvöldin eru litlir veitingavagnar opnaðir.  Þar er hægt að fá ljúffenga mee-súpu og verðin eru miklu lægri en í veitingahúsunum.  Óhætt er að mæla með es kacang í veitingavögnunum.  Í verzlununum tveimur er hægt að fá nauðsynlegustu vörur.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM