Sarawak Malasía,
[Malaysia]


SARAWAK
MALASÍA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Sarawakríkið á norðvesturhluta Borneó er 124.449 km².  Stærst ríkja Malaysíu, að mestu óræktað og óaðgengilegt með mýrlendum ströndum, frumskógum og fjalllendi og afskekktum ám og lækjum.  Líkamlega hraust fólk í ævintýraleit finnur þar eitthvað við sitt hæfi.  Vegna hættu, sem stafaði af skæruliðum, þurfti alltaf að kynna sér stöðu mála áður en haldið var á vit ævintýranna.

Íbúarnir, 1,3 milljónir, eru ákaflega sundurleitir:  malajar, kínverjar, ibanar, bidayuhar, melanesar, kayanar, kenyahar og fleiri innfæddir þjóðflokkar.

Saga Sarawak líkist fremur viktorísku melódrama en beinhörðum staðreyndum.  Árið 1838 kom James Brooke, brezkur ævintýramaður, siglandi til Borneó á einmöstruðu, vopnuðu skútunni sinni, Royalist.  Þegar hann kom, höfðu óánægðir þjóðflokkar inni í landi gert uppreisn gegn aðlinum í Brunei.  Hann lægði öldurnar og fékk í staðinn yfirráð yfir landsvæðinu, sem nú er Sarawak.  Hann nefndi sig Rajah Brooke' friðaði stríðandi þjóðflokka og fékk þá til að láta af hausaveiðum, sem voru orðnar að manndómsmerki og hluti af blóðhefndum milli þeirra.  Honum tókst að ráða niðurlögum hinna skelfilegu sjóræningja og ætt hans réði ríkjum fram yfir síðari heimsstyrjöld.  Brooke-fjölskyldan, hinir 'hvítu rajahar', héldu áfram að auka við ríki sitt þar til Japanar tóku þar völd.

Núna er Sarawak efnahagslega veigamikill hluti Malasíu vegna útflutnings olíu, timburs, pipars, gúmmís og pálmaolíu.  Skæruliðar kommúnista höfðu sig mikið og lengi frammi í ríkinu (hið svokallaða 'neyðarástand') en nú er allt með friði og spekt.  Foringjar skæruliðanna sömdu við ríkisstjórnina upp úr 1980 um að búa í afgirtum búðum næstu 30 árin án þess að yfirgefa þær og hafa staðið við það.

Skoðunarverðustu staðir ríkisins eru langhúsin og þorp hinna mismunandi ættkvísla dajaka  og hinn undraverði regnskógur.  Því miður hefur ríkisstjórn Malasíu ekki dregið nægilega úr ofnýtingu skóganna og eðalviðartré eru felld miskunnarlaust til útflutnings.  Áætlað er, að enginn frumskógur verði eftir um aldamótin, ef haldið verður áfram á sömu braut.  Það er unnið við skógarhögg alla daga og allar nætur við flóðljós, svo að það er hver að verða síðastur að njóta upp-runalegu skóganna í ríkinu.

Sarawak og Sabah hafa bæði takmarkaða heimastjórn, þannig að ríkin hafa eigin tollgæzlu og útlendingaeftirlit, sem þýðir, að framvísa verður vegabréfum á báðum endum, hvaðan sem er komið til þeirra og hvert sem er farið þaðan.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM