Kuching Malasía,
[Malaysia]


KUCHING
BORNEÓ - SARAWAK
MALASÍA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Heildaríbúafjöldi: 250.000.  Höfuðborg Sarawak.  Falleg borg á báðum bökkum Sarawakárinnar og eina stóra borgin í ríkinu, sem er áhugaverð fyrir ferðamenn.  Þótt brú liggi yfir ána, kjósa innfæddir fremur að nota báta sína til að fara yfir hana.  Á síðustu tímum hefur borgin vaxið ört frá því að vera lítill, rólegur og ævintýralegur verzlunarbær.  Orsökin er einkum nýting jarðolíu við Bintulu.

Í Kuching er upplagt að kaupa alls konar gripi, sem ættflokkarnir framleiða.  Þeir eru falboðnir í fjölda verzlana um alla borgina en verðlagið er allt of hátt.  Sé ekki hægt að prútta um verðið  er bezt að hætta við og reyna annars staðar.  Beztu möguleikarnir eru á aðalmarkaðnum við endann á Jalan Wayang.  Leirker frá Borneó eru vinsæl (verksmiðja í grennd við flugvöllinn).

Hæstaréttarhúsið var byggt á nýlendutímanum árið 1874 á hægri bakka Sarawakárinnar.  Beint á móti því á vinstri bakkanum stendur

Istana-höllin, sem annar Raja Sarawak, Sir Charles Brooke,  lét reisa árið 1870.  Skammt ofar við ána stendur.

Margheritavirkið, sem nefnt var eftir eiginkonu Sir Charles, Ranee Margaret, lét Charles Brooke reisa um miðja 19.öld.  Því var ætlað að vernda Kuching gegn árásum sjóræningja, sem voru eins og flugur á mykjuskán á þeim dögum.  Þar er nú áhugavert lögreglusafn.

Mesjid Negeri Sarawak (héraðsmoskan) teygir gullkúpla sína yfir vesturhluta gamla borgarhlutans.

Sarawak-safnið  er eitt hið bezta sinnar tegundar í Malasíu. Því er skipt í tvo hluta, gamli tíminn og hinn nýi, og hlutarnir eru tengdir með göngubrú yfir götuna Jalan Tun Haji Openg.  Gamli hlutinn var opnaður árið 1891 í húsi í stíl normandískra borgarhúsa.  Mannfræðingurinn Sir Alfred Russel, samtíðarmaður Darwins, var tvö ár í Kuching í borði Charles Brooke og hafði mikil áhrif á uppbyggingu safnsins.  Þar er að finna frábæra og veluppsetta muni og minjar, sem tengdar eru náttúru- og menningarsögu landsins.  Við safnið er verzlun listaráðs Sarawak, þar sem seldir eru vandaðir listmunir og bækur.  Fala listmuni er einnig að finna í Uma Ulu-byggingunni og mörgum verzlunum við Khoo Hun Yeang-götu.  Tíminn flýgur frá fólki í safninu og hægt er að eyða mörgum klukkustundum þar auk þess sem aðgangur er frír.  Safnið er opið alla daga nema föstu-daga kl. 09:15-18:00 (lokað í hádeginu kl. 12:00-13:00).

Masjid Negara (ríkismoskan).  Byggingu hennar var lokið árið 1968.  Hún lætur mikið yfir sér í borgarmyndinni en er að öðru leyti ekki áhugaverð.

Semenggok Wildlife Rehabilitation er verndar- og uppeldismiðstöð fyrir orang utan, apa, hunangsbirni og hornnefi 32 km sunnan Kuching.  Þangað er safnað „munaðarlausum" dýrum af þessum tegundum eða dýrum, sem innfæddir hafa tekið í fóstur.  Það er gaman að skoða hana en Sepilok miðstöðin í Sabah-ríkinu er mun athyglisverðari.  Sérstakt leyfi, sem auðvelt er að fá á skrifstofu National Parks and Wildlife, þarf til að heimsækja miðstöðina.

Langhús hinna innfæddu dayaka eru athyglisverðustu byggingarnar í Sarawak.  Þau eru allt að 100 m löng hús á staurum og þar búa margar fjölskyldur.  Hálfsdagsferð er til næsta dayakaþorps og til baka til Kuching, en skemmtilegra er að skoða upprunaleg þorp og sigla lengra upp árnar til þess.  Siglingin upp árnar er upplifun í sjálfu sér.  Hraðskreiðir bátar sigla einungis á ánni Rejang milli Sibu, Kapit og Belaga, en annars staðar er siglt með "tampans" eða minni bátum með utanborðsmótor.  Þegar langhús er heimsótt, er um að gera að hafa nægan tíma og taka með sér gjafir til íbúanna.  Þeir kunna bezt að meta áfengi og tóbak og í stað sætinda fyrir börnin er betra að gefa þeim eitthvað nýtilegt eins og blýanta og stílabækur fyrir skólanámið eða eitthvað sérstakt frá heimalandi gestanna.  Fyrst er beðið um 'tuai rumah' (höfðingjann), sem býður gesti velkomna og býður þeim jafnvel gistingu og mat.  Það er allt í lagi að gauka smápeningaupphæðum að höfðingjanum fyrir hönd fólksins fyrir gestrisnina.  Sé gist hjá innfæddum er nauðsynlegt að hafa vasaljós, flugnanet, flugnafælandi efni og sjúkrakassa (nóg af aspiríni og panodil og imodium) í farteskinu.

Bakoþjóðgarðurinn er þess virði að leggja lykkju á leið sína fyrir.  Hann er vestast í fylkinu á skaga við ósa Bakoárinnar.  Hann er 27 km² af ósnortnum regnskógi með mjög vel merktum göngustígum.  Það er nauðsynlegt að fá leyfi hjá 'National Parks and Wildlife' og panta gistingu fyrirfram til að heimsækja garðinn.  Þjóðgarðurinn er 37 km frá Kuching.  Einungis er hægt að komast eftir ánum um regnskógana til Bako og Santubong.

Niahþjóðgarðurinn er u.þ.b. 110 km vestan Miri.  Þar er fjöldi dropasteinahella með forsögulegum veggmyndum (hafa með sér vasaljós).  Heimsókn í Niah-hellana er einhver eftirminnanlegasta reynslan í Austur-Malasíu.  Stórihellir, einhver hinn stærsti í heimi, er í miðjum þjóðgarðinum, sem kalkrisinn 'Gunung Subis' (394 m) gnæfir yfir.  Á sjötta áratugnum fannst þar 35.000 ára gömul hauskúpa af manni og merki um mannvist síðan þá og allt fram á 15.öld.  Hinn frægi kínverski réttur, fuglahreiðurssúpa, á uppruna sinn í þessum hellum.  Múrsvölurnar gera hreiður sín úr lím-kenndum munnvökva á syllum og í skorum og söfnun þeirra er hættuspil eins og sjá má, þegar komið er í hellana.  Gúanó (fugla- og leðurblökudrit), sem safnast á hellisgólfin, er notað sem áburður.  Það er stórkostleg sjón að sjá múrsvölurnar flykkjast heim fyrir myrkur og leðurblökurnar í gagnstæða átt í rökkrinu.  Sérstakt leyfi þarf til að skoða veggmyndahellinn en það fæst umyrðalaust í móttökunni við komuna.  Móttakan er 4 km frá þorpinu Batu Niah og þaðan er þriggja km (1 klst.) ganga til hellanna á tréstíg, sem nær alla leið inni þá.  Hellana er hægt að skoða í fylgd reyndra leiðsögumanna.

Sibu stendur í 130 km fjarlægð frá sjó við upphaf Rajangóshólmanna.  Hún er mikilvæg fyrir viðskipti með timbur, hrágúmmí og pipar.  Skipaferðir eru milli Sibu og Kuching fjórum sinnum í viku.  Tólf klst. tekur að sigla þangað upp ána en fimm til baka.

Rejangáin er aðalsamgönguæð Mið- og Suður-Sarawak og mestur hluti verzlunar við staði inni í landi fer um hana.  Timbri er líka fleytt eftir henni og þverám hennar (Balleh, Belaga og Balui) til Sibu til frekari vinnslu og útflutnings.  Fjöldi pramma á ánni, hlöðnum timbri, er hreint ótrúlegur.  Bezt er að ferðast um ána síðla í maí og snemma í júní, því að þá halda dayakar uppskeruhátíðir.  Þá er líf og fjör á ánni og allir eru velkomnir í heimsókn í langhúsin (eins og reyndar alltaf).  Á hátíðum hella dayakar talsverðu í sig af 'arak' og 'tuak' (hrísgrjónavíni).

Miri er vestar og við ströndina.   Þar eru olíulindir, sem hafa æ minni þýðingu.

Bandar Sri Aman (Simanggang) og Limbang eru markaðir fyrir dayaka, sem búa inni í landi.

Gunungþjóðgarðurinn.  Síðan þjóðgarðurinn var opnaður á ný árið 1985 hefur hann verið meðal vinsælustu áfangastaða í Sarawak.  Til allrar óhamingju er hann meðal dýrustu staða ríkisins.  Hann er stærsti þjóðgarðurinn í ríkinu, 529 km² af mýrlendi, sandsteini, kalki og skógi.  Hæstu fjöll eru Gunung Mulu, 2.377 m (sandsteinn) og Gunung Api, 1.750 m (kalksteinn).

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM