Kuala Lumpur skoðunarvert Malasía,
[Malaysia]


KUALA LUMPUR
SKOÐUNARVERÐIR STAÐIR
MALASÍA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Malaysia - Kuala Lumpur -  KL / KUL: the Petronas towers II (photo by J.Kaman)Kínahverfið, iðandi af lífi, er rétt sunnan við þjóðarmoskuna (Masjid Jame).  Mörk þess eru Jalan Sultan, Jalan cheng Lock og Jalan Sultan Mohammed.  Þetta er litríkt hverfi með urmul af verzlun-um og ys og þys.  Á kvöldin er hluti af Jalan Petaling lokaður bílaumferð og þar er fjörugur markaður, 'Pasar Malam'.

Masjid Negara, þjóðarmoskan, er í 7 ha landslagsgarði og er mjög nýtízkuleg.  Hún er meðal stærstu moskna í Sa-Asíu.  Þar stenur 73 m há mínaretta í tjörn og aðalkúpullinn er löguð eins og 18 arma stjarna og táknar hin 13 ríki Malasíu og hinar fimm burðarstoðir islam.

Masjid Jame
(föstudagsmoskan; 1909) er við ármót Kelang og Gombak, rétt við Merdeka-torgið.  Þarna lentu fyrstu landnemarnir í Kuala Lumpur og birgðum fyrir tinnámurnar var landað þar.

Söfn og sýningarsalir
Muzium Negara (þjóðminjasafnið) er sunnan við Lake Gardens við Jalan Damansara, u.þ.b. 1 km frá brautarstöðinni.  Þar er margt óvenjulegra gripa, s.s. hauskúpa af fíl, sem setti járnbrautarlest út af sporinu og gaddagildra, sem notuð var til að fanga og geyma í fólk, sem gekk berserksgang.  Aðgangur að safninu er frír og það er opið alla daga frá kl. 09:00 - 18:00, nema að það er lokað milli 12:00 og 14:45 á föstudögum.

Þjóðlistasafnið er í fyrrum Majestic hótelinu andspænis brautarstöðinni.  Þar eru skiptisýningar, stundum nýtízkulegar og alls staðar að úr heiminum.

Lake Gardens, 60 ha, eru hluti af hinum mörgu grænu svæðum í borginni.  Þar er hægt að leigja báta fyrir M$ 4.- á tímann.

Jalan Ampang.  Meðfram þessari götu eru hrífandi, stór íbúðarhús, sem tinmilljónamæringarnir reistu sér.  Nú eru mörg húsanna sendiráð og ræðismannaskrifstofur.  Gatan er líka kölluð Ambassadors' Row.

Markaðir eru margir í borginni.  Aðalmarkaðurinn í Kínahverfinu var fyrrum afurðamarkaður en nú ber mest á handiðnaði og listmunum.  Kvöldmarkaðurinn á Jalan Petaling í Kínahverfinu er mjög fjögugur.  Sunnudagsmarkaðurinn er í Kampung Bahru-hverfinu, norðaustur af miðborginni.  Þar er haldinn markaður hvert laugardagskvöld og fram á sunnudagsnótt (ergó nafnið).  Hann er afurða- og handiðnaðarmarkaður og þar er hægt að bragða á margs konar malæískum mat.

*Batu-hellarnir tveir eru í kalkklettum við veginn til Ipoh, 13 km norðan höfuðborgarinnar.  Lítið var um þá vitað þar til fyrir rúmlega einni öld og nokkru síðar var lítið hindúahof byggt í stærri hellinum.  Það var miðstöð pílagríma á árlegri hátíð (Thaipusam), sem þar er haldin í janúar og febrúar og hundruð þúsunda sækja.  Þar láta þeir stinga sig með nálum og krókum til að sanna trúfestu sína.  Stærri hellirinn er gríðarstór.  Hann er kallaður 'dómkirkjuhellirinn' og upp í hann liggja 272 þrep.  'Myrkrahellirinn' er langur og hlykkjóttur.  Hann hefur verið lokaður um tíma vegna þess að kalknám í næsta nágrenni hefur gert hann óöruggan.  Fjöldi annarra hella hefur myndast þarna á sama tíma.  Smáhellir neðan við og vinstra megin við þrepin var gerður að safni með styttum af fjölmörgum guðum hindúa (aðgangseyrir 50 sen).

Þjóðardýragarðurinn og sædýrasafnið eru á 62 ha svæði 13 km austan Kuala Lumpur við þjóðveginn til Ulu Kelang.  Í dýragarðinum miðjum er vatn og þar er lögð áherzla á að sýna villt dýr Malasíu.  Þar er hægt að fá að ríða fílum og margt til afþreyingar fyrir börn (á öllum aldri).  Garð-urinn er opinn alla daga frá kl. 09:00 til 18:00 gegn M$ 4.- aðgangseyri auk M$ 1.-, ef fólk vill taka myndir.

Orang Asli-safnið er við Genting þjóðveginn, 19 km frá Kuala Lumpur.  Það er vel þess virði að kynnast þar menningu og lifnaðarháttum hinna 70.000 innfæddra, sem enn þá búa á Malakkaskaganum.

Templer Park er 1200 ha skógarverndarsvæði við þjóðveginn til Ipoh, 22 km norðan Kuala Lumpur.  Hann var stofnaður á nýlendutímanum af yfirmanni brezka heraflans í landinu, Sir Gerald Templer.  Hann er innan seilingar fyrir höfuðborgarbúa og þar er fjöldi göngustíga, baðlón og nokkrir fossar.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM