Kota
Kinabalu er höfuðborg
Sabah, hét Jesseltown til 1963. Þar
búa 120.000 manns. Borgin
var jöfnuð við jörðu í síðari heimsstyrjöldinni til að Japanar
gætu ekki notað hana sem bækistöð.
Þess vegna er hún nútímaleg og skortir hana hina sögulegu töfra,
sem Kuching í Sarawak hefur. Hvað sem því líður er borgin græn og þægileg og
loftslagið við sjávarsíðuna notalegt.
Þjóðarmoskan,
*Masjid Sabah, setur
svip sinn á borgina og við Jalan Gaya er lítið þjóðminjasafn.
Sunnan flugvallarins teygist hin fallega, 5 km langa strönd *Tanjong
Aru.
Fisk-
og grænmetis- og ávaxtamarkaðirnir eru niðri við höfn en í næsta
nágrenni er filipíski markaðurinn, þar sem seldar eru filipískar
handiðnaðarvörur.
Kinabalufjall
er
norðaustan Kota Kinabalu í 60 km fjarlægð í loftlínu.
Hæsti hluti fjallsins er í 4.011 m hæð yfir sjó.
Það er hæsta fjall Malasíu og reyndar allrar Sa-Asíu.
Kadazan ættflokkurinn lítur á fjallið sem dvalarstað
brottkallaðra sálna ættingja sinna og tignar það sem slíkt.
Svæðið umhverfis fjallið er nú þjóðgarður. Þar vaxa rúmlega 800 tegundir orkidea og dýra- og fuglalíf
er mjög skrautlegt.
Fjallgangan
hefst við aðalbækistöðvar þjóðgarðsins.
Hún krefst ekki mikillar reynslu í fjallamennsku, miklu fremur
góðs úthalds, hlýs fatnaðar, vettlinga og góðs fótabúnaðar.
Gistimöguleikar á leiðinni upp eru fáir og fábreyttir en
gista verður eina nótt á leiðinni upp.
Hægt er að leigja svefnpoka á gististaðnum, þannig að ekki
þarf að burðast með slíkt. Krafizt
er M$ 10.- fyrir leyfi til fjallgöngunnar.
Göngumenn eru skyldaðir til að taka með sér innlendan leiðsögumann
en margir koma sér hjá því. Leiðsögumaður
kostar M$ 25.- á dag fyrir 1-3 þátttakendur, M$ 28.- fyrir sex og M$
30.- fyrir átta, sem er hámarksfjöldi.
Sofið er í 3.300 m hæð nóttina fyrir síðari hlutann.
Lagt er af stað í bítið til að vera kominn upp á tindinn
áður en skýin hylja sýn um miðjan morgun.
Gangan niður að aðalbækistöðvunum tekur það, sem eftir
lifir dags.
Gistiaðstaðan
og matsalan í aðalstöðvum þjóðgarðsins er ágæt og velskipulögð.
Þaðan er frábært útsýni til Mt. Kinabalu, þegar skýin
hylja ekki sýn.
Merktir
göngustígar liggja frá bækistöðinni að hinum 300 m háa fossi
Kambarangoh, að Kiau-gjánni og að hverunum við Poring (43 km).
Á hverjum degi kl. 11:15 er farið í skipulagðar gönguferðir
um þjóðgarðinn.
Skógarmenn
(orangutan) lifa þarna í skóginum. |