Kota Bahru Malasía,
[Malaysia]


KOTA BHARU
MALASÍA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Kota Bharu er í norðausturhorni Malakkaskagans, þar sem austurstrandarvegurinn endar og stutt er að landamærum Tælands.  Hún er höfuðborg Kelantan-ríkis og malæískust allra borga í landinu, miðstöð menningar, lista og trúarbragða malæja.  Þar er upplagt að fylgjast með flugdrekakeppnum, skoða batik og tréskurð, taka myndir á líflegum mörkuðum og dást að handbragði songket-vefara og silfursmiða.

Kota Bharu er upplagður staður til að kynnast menningu malæja, en hinn sanni malæíski andi svífur yfir vötnunum í þorpunum í Kelantanríki og borgin er góð miðstöð til skoðunarferða  um nágrennið.  Sé tíminn takmarkaður, er hægt að fá sér eins til tveggja tíma göngutúr um Padang Merdeka svæðið að morgni til, þegar það er svalara.  Markaðirnir og frammistaða Gelanggang Seni er þess virði að leggja gönguna á sig.

Það getur verið erfitt að átta sig í borginni, því að sömu göturnar skipta stöðugt um nöfn og alger óreiða er á húsnúmerum.  Miðbærinn er iðandi af lífi.  Hann er norðan klukkuturnsins á milli Jalan kebun Sultan, Jalan Mahmud, Jalan Pintu Pong, Jalan Temenggong og Jalan Hospital

Upplýsingamiðstöðin (s.09-78 5534) er við Jalan Sultan Ibrahim, rétt sunnan klukkuturns-ins.  Opinberar skrifstofur og bankar eru lokaðir síðdegis á fimmtudögum og alla föstudaga en opnir á laugardögum og sunnudögum.  Bankar eru opnir frá kl. 10:00- 15:00 laugard.- miðvd. og 09:30-11:30 á fimmtudögum.

Padang Merdeka (Sjálfstæðistorgið) var gert sem minnismerki að lokinni fyrri heims-styrjöldinni.  Þar er Istana Balai Besar (Stóra móttökuhöllin; byggð að mestu úr timbri 1844), Konunglega safnið í Istana Jahar frá 1887 (falleg blanda malæísks- og viktoríustíls), Ríkismoskan (líkist helzt portúgalskri kirkju) og Trúarbyggingin (í svipuðum stíl og Istana Jahar).

Lengra frá torginu er Karyaneka listiðnaðarmiðstöðin, sem er elzta múrsteinabygging borg-arinnar.  Listmunirnir og verðin eru ekki ýkja áhugaverð en sýning á hefðbundinni list uppi á lofti er mjög áhugaverð.

Við hinn enda torgsins, niðri við á, eru margir góðir útiveitingastaðir og gangi maður suður með ánni birtast flekahúsin, sem enn þá eru í notkun og ögra nútímanum.  Ekki er úr vegi að kíkja á Jalan Pasar Lama, fallega götu, sem iðaði af lífi, þegar mestir flutningar voru á ánni.

Handan við hornið, við Jalan Post Office Lama, er forngripaverzlun CK Lam's, full af alls konar gripum frá fagurlega útskornum fuglabúrum til hljóðfæra.

Aðalmarkaðurinn er einhver líflegasti markaður Malasíu.  Hann er í átthyrndri, nútíma byggingu.  Á jarðhæð eru seldar ferskar afurðir og uppi er selt krydd og alls konar varningur.  Í næsta nágrenni er Buluh Kububasarinn, þar sem er gott að kaupa listiðnað.

Einn kostanna við Kota Bharu er að geta séð ýmislegt þjóðlegt, s.s. dramatíska dansa, wayang kulit o.fl., í Gelanggang Seni við Jalan Sultan Mahmud á móti Hótel Perdana.  Þessar sýningar fara fram frá febrúar til oktober, nema um föstuna (Ramadan).

Kota Bharu er líka miðstöð listiðnaðar, batik, songket, silfursmíði og tréskurðar.  Víða er flugdrekaframleiðsla og sala.  Bezt er að skoða listiðnað við veginn til Pantai Cinta Berahi og kaupa gripi á mörkuðunum, ef maður hefur tilfinningu fyrir verðinu og prúttar.  Það er ágætt að huga að batikvörum í Wisma Batik við Jalan Che Su, rétt hjá Hótel Murni.

Það eru margar baðstrendur umhverfis Kota Bharu en engin þeirra er sérstök.

Pantai Desar Sabak er á milli Kota Bharu og flugvallarins.  Þar lentu Japanar í desember 1941 í síðari heimsstyrjöldinni, 1½ tíma áður en þeir réðust á Pearl Harbour.

Fossarnir í Pasir Puteh og fjöldi tælenzkra hofa (Wat Phothivihan í Kampung Jambu; 40 m liggjandi Búdda) eru í nágrenni Kota Bharu.  Einnig er hægt að fara í ýmsar áhugaverðar ferðir um ána.

Í Kuala Krai, 65 km sunnan Kota Bharu, er lítill dýragarður, þar sem er lögð áherzla á villt dýr í umhverfinu.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM