Malasía Austurströndin,
[Malaysia]


MALASÍA
AUSTURSTRÖNDIN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Austurstönd Vestur-Malasíu er mjög fallegt landsvæði.  Þar er sjaldgæft að rekast á kínverja og indverja, þannig að malæjar annast öll viðskipti.  Ríkisstjórnin stefnir að því, að efla áhrif malæja í viðskiptalífinu.

Íbúarnir á austurströndinni eru íhaldsamari en landar þeirra á vesturströndinni.  Islamtrúin á sér þar dýpri rætur,  hefðir og siðir fastari í sessi og þorpslífið að hætti forfeðranna.  Byggðin er aðallega meðfram ströndinni og í aðgengilegum dölum inni í landi.  Á nyrztu svæðum Kelantan-ríkisins, við Tælenzku landamærin, gætir verulegra áhrifa frá síamskri búddatrú.

Landslag og strendur eru fallegar.  Risaskjaldbökur koma upp á ströndina á milli Rantau Abang og Kuala Dungun (Terengganu-ríki) frá maí til september til að verpa.  Hinar stærstu eru allt að 2,5 m langar og rúmlega 100 ára.  Norðar, á ströndum Kelatan, verpa minni skjalbökutegundir.  Innfæddir eru sólgnir í skjaldbökueggin, sem þeir þeir segja auka kynhvötina.  Vegna þess, hve margir stunda þá ólöglegu iðju að ræna vörpin, eru skjaldbökurnar í alvarlegri útrýmingarhættu.  Ríkið rekur útungunarstöð fyrir skjaldbökur við Rantau Abang og sleppir ungunum í hafið.

Ein  64 eldfjallaeyja fyrir suðausturströndinni er *Tioman (Pulau Tioman).  Skógi vaxið fjalllendið Gunung Kajang (1.037 m) er umgirt pálmum skrýddum ströndum.  Eyan er 39 km löng og 12 km breið sólskinsparadís með alls konar aðstöðu til vatnaíþrótta.  Eyjarskeggjar láta ekki hjá líða að segja gestum frá því, að hið leyndardómsfulla svið söngsins Bali Hai í kvikmyndinni South Pacific hafi verið á eyjunni þeirra.  Samgöngur í lofti og á legi eru frá Mersing á meginlandinu.

Fyrir norðanverðri austurströndinni eru fallegu eyjarnar Redang og Perhentian, sem hægt er að komast til frá sjávarþorpinu Kuala Besut í Terengganu-ríki.

LEIÐIN KUALA LUMPUR TIL KUANTAN (275 km; vegur 2)
Það er mikil umferð á þessari leið, sem liggur þvert yfir skagann fram hjá Bentong og gegnum Temerloh (einnig hægt að fara um Frazer's Hill, norðan Kuala Lumpur).

Temerloh er líflegur, kínverskur bær (gott vegaveitingahús) með skemmtilegum markaði síðdegis á hverjum laugardegi.  Bærinn er við breiða Pahangána og stundum er hægt að komast með bátum til Pekan eða til strandar.  Allnokkru sunnar er Tasik Bera, stærsta stöðuvatn Malasíu.  Á bökkum þess eru fimm Orang Asli þorp og alls búa u.þ.b. 800 manns við vatnið.  Það er fyrirhafnarinnar virði að fá sérstakt leyfi í Temerloh til að heimsækja svæðið við vatnið.  Að leyfi fengnu er farið að huga að ferð þangað.  Bezt er að fara með áætlunarbíl eða deila leigubíl með öðrum til Triang og síðan með öðrum leigubíl þaðan til Kota Iskander, þar sem eru gistimöguleikar.

MERSING
er lítið fiskimannaþorp.  Þaðan er haldið uppi samgöngum við litlu eyjarnar fyrir ströndinni í Suður-Kínahafi.

KUANTAN
er höfuðborg Pahang-ríkis.  Hún er miðleiðis norður eftir austurströndinni frá Johor Bahru.  Þaðan teygjast endalausar sandstrendur alla leið til Kota Bahru.  Borgin er vel skipulögð og lífleg, þótt lítið sé við að vera fyrir ferðamenn.  Aðalaðdráttaraflið er utan borgarmarkanna.

Teluk Chempedak-ströndin, 4 km frá borginni, er vinsæll útivistarstaður á milli tveggja klettasnasa.  Það eru þó betri strendur á höfðanum og margar gönguleiðir í skemmtigarðinum.

CHERATING
er einn vinsælasti ferðamannastaðurinn á austurströndinni.  Nafnið þýðir 'sandkrabbi'.  Bærinn skiptist í tvennt, aðalþorpið og Pantai Cherating, sem er ferðamannastaðurinn 2 km norðar. Cherating er líka ágætur staður til að ferðast út frá.  Hægt er að fara í stuttar gönguferðir, bátaferðir á ánum, ferðir til Tasik Chini, Gua Charas, Sungai Lembing (og Pandanfossanna) og Pulau Ular.

RANTAU ABANG
er aðalskjaldbökunýlendan.  Bezt er að skoða skjaldbökurnar á varptímanum.  Gaman er að ganga eftir langri ströndinni, en varúðar er þörf, ef lagzt er til sunds, því að straumar eru þungir.  Upplýsingamiðstöðin um skjaldbökurnar er í grennd við gistipöntunarþjónustuna.  Þar eru sýndar kvikmyndir um skjaldbökurnar sex sinnum á dag.  Miðstöðin er einungis opin þann tíma árs, sem hægt er að vænta þess að sjá skjaldbökur og lokuð alla föstudaga.  Mestur fjöldi dýra kemur til að verpa í ágúst og bezt er að vera á ströndinni í fullu tungli og háflóði.  Íbúarnir vita, að varplok risa-skjaldbakanna eru í nánd, þegar litlu, grænu skjaldbökurnar fara að flykkjast að til að verpa.

Því miður hefur skjaldbökunum fækkað vegna allrar athyglinnar og aðgangshörku áhorfenda.  Þess vegna hafa verið sett ströng skilyrði fyrir skjaldbökuskoðun.  Margt, sem fólk leyfði sér að gera, eins og að toga í bægsli þeirra , lýsa með vasaljósum í augu þeirra og jafnvel að setjast á bakið á þeim, er bannað með lögum að viðlögðum háum sektum.  Það er bannað að lýsa  á dýrin og  að nota leifturljós og fólk verður að halda sig í hæfilegri fjarlægð.

Ströndinni hefur verið skipt í þrjú svæði: bannsvæði, skoðunarsvæði (aðgangseyrir) og frjálst svæði.

MARANG
er fallegt og fremur stórt fiskiþorp við ósa Marang-árinnar.  Það er vinsæll ferðamanna-staður og alveg tilvalinn til dvalar og afslöppunar.    Íbúar Marang eru siðavandir, einkum þeir, sem búa á árbakkanum gegnt miðbænum.  Því er ráðlegt að gæta islamsks siðgæðis í hegðun og fatnaði.

Þaðan eru samgöngur við Pulau Kapas, sem er lítið og fögur eyja 6 km fyrir ströndinni.  Þangað er gaman að fara til að synda, kafa og ganga um, nema um helgar eða á almennum frídögum, þegar ekki er hægt að þverfóta fyrir fólki.

KUALA TERENGGANU
höfuðborg Terengganu-ríkis, er á höfða, sem Suður-Kínahaf og breið Terengganuáin hafa mótað í landslagið.  Þar býr soldáninn.  Þrátt fyrir nýlegan olíuiðnað, hefur borgin haldið rólegu yfirbragði sínu, þegar aðalgöturnar eru frátaldar.  Þar er næg afþreying til stuttrar dvalar.

Kínahverfið, við Jalan Bandar, er skoðunarvert.  Aðalmarkaðurinn er litríkur og líflegur.  Handan hans er soldánshöllin Istana Maziah og Zainal Abidin-moskan.  Bæjarströndin heitir Paintai Batu Buruk'  Þar er tilvalið að fá sér kvöldgöngur, eftir að útiveitingahúsin hafa verið opnuð.  Við strandgötuna er menningarmiðstöðin, þar sem stundum eru einhver skemmtiatriði (Pencak silat og wayang á föstudögum kl. 17:00-18:30).

Frá bryggjunni bak við leigubílastöðina er hægt að sigla til bátasmiðaeyjunnar í mynni árinnar fyrir 40 sen og það er vel peninganna virði að kynna sér hana nánar.

MERANG
er syfjulegt, lítið fiskiþorp 14 km norðan Kuala Terengganu.  Þar er ekki gert ráð fyrir að hafa ofan af fyrir ferðamönnum en falleg ströndin er girt kókospálmum og sjórinn er kristaltær.  Þaðan sigla bátar til Pulau Redang og annarra nærliggjandi eyja.

KUALA BESUT
er á ströndinni sunnan Kota Bharu.  Það er lítið en athyglisvert fiskiþorp með fallegri strönd.  Flestir, sem þangað leggja leið sína, eru á leiðinni til Perhentian-eyjanna.  Ferð þangað tekur 2 klst.  Perhentian Besar og Perhentian Kecil eru u.þ.b. 21 km frá ströndinni.  Þær eru mjög fallegar en einungis ætlaðar þeim, sem koma til að slappa af og telja kókoshnetur, sem detta af pálmunum.  Strendurnar eru frábærar, köfunaraðstaða góð og það tekur 2½ tíma að ganga eftir eyjunni Besar endilangri á merktum göngustígum.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM