Skopje Makedónía,
Flag of Macedonia, The Former Yugoslav Republic of


SKOPJE
MAKEDÓNÍA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Skopje er höfuðborg Makedóníu.  Hún heitir Shkup á albönsku, Skoplje á serbókróatísku og Usküb á tyrknesku.  Hún er á bökkum Vardarárinnar í fallegum fjallaramma.  Upprunalega hét hún Scupi, þegar illýrar áttu þar miðstöð.  Síðar varð hún höfuðborg héraðsins Dardania, sem er nú að mestu hluti rúmenska héraðsins Moesia Superior, þegar Diocletian var keisari á 4. öld.  Árið 518 hrundi bærinn í jarðskjálfta.  Á sjöundu öld var hann undir slavneskum yfirráðum um hríð og á 9. og 10 öld óx hann hröðum skrefum.  Serbar lögðu Skopje fyrst undir sig árið 1189 og Tyrkir gerðu hana að héraðshöfuðborg og mikilvægri verzlunarmiðstöð 1392.  Austurríkismenn brenndu borgina til grunna árið 1689 til að stöðva kólerufaraldur.  Ekki kvað mikið að borginni fram á 19. öld en hún lifnaði við, þegar járnbrautin milli Belgrad og Þessalóníku var lögð.  Hún var innlimuð í Serbíu árið 1913 og fimm árum síðar varð hún hluti af Júgóslavíu.  Þjóðverjar hernámu hana í apríl 1941 og síðan setin búlgörskum her.  Árið 1944 var öxulveldunum stuggað brott og Skopje varð höfuðborg Makedóníu 1945.

Gamli borgarhlutinn er á stöllóttum bakka árinnar og yfir trónir gamalt virki.  Norðan þess er rómverskur vatnsveitustokkur.  Meðal miðaldaklaustra í grenndinni er Nerezi (1164), prýtt freskum frá 12. öld.  Aðrar markverðar byggingar eru tyrkneska kráin, Kursumli Han, og nokkrar moskur.  Yfirbragð borgarinnar var tyrkneskt fram að jarðskjálftunum 1963, sem skildu 80% hennar eftir í rústum, bönuðu 1070 og 120.000 urðu heimilislaus.  Alls veittu 78 lönd aðstoð í formi fjárframlaga, læknishjálp, verkfræðiþekkingar og byggingargengja.  Eftir þessi miklu hjálparviðbrögð var borgin kölluð „borg samstöðunnar”.  Ný borg varð til á teikniborðunum.  Húsin voru hönnuð með tillite til náttúruaflanna og íbúðar- og iðnaðarsvæði risu. 

Á vinstri bakka árinnar eru opinberar byggingar, menntastofnanir, bókasafn, tónlistarhús, útvarps- og sjónvarpsstöðvar.  Hægra megin er viðskiptahverfið.  Skopje er iðnaðar- og verzlunarborg og stjórnsýslusetur.  Þar rísa hæst efnaiðnaður, framleiðsla sements, landbúnaðarvéla og tækja, rafmagnstækja, múrsteina, leirmuna, glers, bjórs og áfengis, niðursoðinna ávaxta og grænmetis og tóbaks.  Leðurvinnsla, krómhreinsun, trésmíðar og stáliðnaður eru líka mikilvægir þættir iðnaðarins.  Borgin er einnig mikilvæg miðstöð samgangna, sem járnbrautir og vegakerfi tengja öðrum landshlutum og löndum, og flugvöllurinn er nútímalegur.  Háskóli borgarinnar var stofnaður árið 1949 og Vísinda- og listaakademía Makedóníu er líka þar.  Áætlaður íbúafjöldi 1981 var 408.143.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM