Luxemburg sagan,
[Flag of Luxembourg]


LUXEMBURG
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Stórhertogadæmið Luxemburg var öldum saman peð í valdatafli stórvelda Evrópu, vettvangur óendanlegra, blóðugra átaka og virkið jókst að sama skapi aðumfangi.  Frakkar, Spánverjar, Austurríkismenn og Prússar börðust um það, unnu það og töpuðu því og unnu það aftur.  Virkið var umsetið og ofurselt eyðilegginu 20 sinnum á fjórum öldum.  Þrjátíuárastríðið (1618-1648) var sleitulaust tímabil hungurs og óaldar.  Þá galt þjóðin slíkt afhroð, að ¾ hlutar hennar týndu lífi.  Undir lok  18. aldar var virkið í Luxemburg orðið svo öflugt, að það gekk undir nafninu Gíbraltar norðursins.

Neðanjarðarbyrgi þess voru 25 km að lengd.  Þau voru höggvin í stein og gátu hýst þúsundir hermanna og hesta.  Þar voru og verkstæði, bakarí, sláturhús og önnur föng, sem tilheyra hernaði.  Þegar Luxemburg varð sjálfstætt og hlutlaust ríki árið 1867, var nauðsynlegt að rífa virkið.  Það tók 16 ár.  Af göngum þess neðanjarðar, sum 50 metra undir yfirborðinu, voru raunar aðeins 5 km eyðilagðir.  Frekari tortíming hefði jafngilt því að leggja borgina í rúst.  Í síðari heimsstyrjöld komu þessi göng í góðar þarfir sem loftvarnarbyrgi.  Þau gátu hýst allt að 35.000 manns.

1443.       Philip góði af Burgundy ræðst á Luxemburg og tekur landið herskildi.  Frakkar ráða síðan ríkjum í landinu til 1506.

1506        Spánverjar ná yfirráðum í landinu.

1684        Frakkinn Vauban hertekur landið og það kemst undir yfirráð Lúðvíks 14.

1697        Frakkar skila Spáni landinu samkvæmt friðarsamningnum í Ryswich og síðara spænska tímabilið hefst.
1713        Filip 5., Frakkakonungur, afsalar Karli 6., keisara af Austurríki, réttinum til Luxemburg og Hollands.  Tímabilið, sem hófst þá, hefur verið kallað 'gullöld Luxemburg'.

1794        Franskt umsátur.  Austurríska setuliðið svelt út úr virkisborginni og Frakkar ná hertogadæminu á sitt vald.

1795        Upphaf sennna yfirráðatímabils Frakka, sem gerðu landið að héraði í Frakklandi (Dèpartement des forêt = Skógarhérað).

1798        Uppreisn í landinu gegn franskri herskyldu.  Rúmlega 200 innfæddir falla í hinu svokallaða 'Bareflastríði' (Klöppelkrieg).

1814        Ósigur Napóleons Bonaparte fyrir Wellington við Waterloo, úrslitaorrustunni um yfirráð í Evrópu.  Franska setuliðið yfirgefur Luxemburg.

1815        Friðarráðstefna stórvelda Evrópu í Vínarborg.  Luxemburg þvinguð til að afsala sér landsvæðum sínum austan Mósel, Sore og Our í hendur Prússa og landið var samtímis gert að persónulegri eign hollenzku krúnunnar.  Það á þó að heita fullvalda ríki og þjónar þeim tilgangi að vera stuðpúði gegn franskri útþenslustefnu.  Vilhjálmur I fer með yfirstjórn landsins sem héraðs í ríkjabandalagi Niðurlanda.  Prússar hertaka virkisborgina í krafti aðildar Luxemburg að þýzka ríkjabandalaginu.  Luxemburg verður stórhertogadæmi.

1839        Samkvæmt sáttmálanum í London er frönskumælandi hluti hertogadæmisins lagður undir Belgíu og verður belgískt hérað.

1842                Luxemburg styrkir tengsl sín við Þýzkaland með því að gera tollabandalag við það. Á þessu bandalagi hvílir síðari tíma efnahagsleg velgengni Luxemburg.

1848        Síðari stjórnarskrá landsins með aukinni áherzlu á lýðræðislega stjórnskipun.

1867        Nýjar ófriðarblikur á lofti í Evrópu.  Prússar yfirgefa virkisborgina til að friða Napóleon III en hið öfluga virki hafði lengi verið Frökkum þyrnir í augum og þeir töldu það raska valda-jafnvæginu.  Virkið er rifið og Luxemburg gerð að hlutlausu ríki undir vernd stórveldanna og landamæri endanlega ákvörðuð.  Luxemburg getur nú kallast sjálfstætt ríki.

1890        Vilhjálmur III fellur frá án niðja.  Aldolf I af ætt Nassau gerist stórhertogi í Luxemburg og þar með upphafsmaður hertogaættarinnar, sem hefur síðan farið með völdin.

1914        Þýzkar herdeildir hertaka Luxemburg.

1919                Luxemburg segir sig úr þýzka tollabandalaginu.

1940        Þýzkar herdeildir hernema og innlima landið í Þriðja ríkið og koma á þýzkri herskyldu þar. Hertogaættin og ríkisstjórnin flýr til Bretlands og Bandaríkjanna.

'44-45     Bandarískar hersveitir hrekja Þjóðverja frá Luxemburg.  Hin óvænta gagnsókn von Rundstedt í Ardennafjöllum.  Skriðdrekasveitir hans og Pattons heyja mannskæðar orrustur í norðanverðu landinu og valda gífurlegu tjóni á mannvirkjum og ræktuðu landi.  Hinn æva-forni bær, Vianden, er talinn hinn fegursti í Luxemburg, er á þessu landsvæði.  Þar var að finna rústir merkasta kastala landsins, sem var reistur á hæðardragi á 11. öld og gnæfa yfir bæinn.  Vianden varð fyrir stórskotaárás, sem lagði hluta bæjarins í rúst.  Borgarstjórinn þar sendi þetta kaldranalega skeyti til höfuðborgarinnar í kjölfar eyðileggingarinnar:  „Alles in Ordnung.  Stadt in Ruinen.  Ruinen gerettet!”.   Lengi hafði staðið til að endurreisa kast-alann úr rústunum.

1948                Luxemburg segir skilið við hlutleysi sitt og tekur upp sjálfstæða utanríkisstefnu innan og utan Evrópu.

1949                Luxemburg gerist aðili að NATO.

1952        Robert Schuman, fæddur og uppalinn í Luxemburg, síðar utanríkisráðherra Frakka, var hvatamaður að stofnun Kola- og stálbandalags Evrópu (Schuman-áætlunin; sameiginlegur Evrópumarkaður fyrir stál og kol).  Þegar bandalagið var formlega stofnað í Luxemburg árið 1952, varð Jean Monnet, forseta að orði:  „Dömur mínar og herrar, ný Evrópa er fædd”Hann hafði lög að mæla.  Efnahagsbandalag Evrópu var stofnað sex árum síðar.

1958        Aðild að EBE.

1966        Opnun Evrópumiðstöðvarinnar á Kirchberg í Luxemburg.

Sagan af Boch:  Skilningur ráðamanna í Luxemburg á arðsemi erlends fjármagns á sér langa sögu og hann er enn þá við lýði.  Til hans má rekja velmegunina, sem einkennir stórhertogadæmið.

Fyrir tæpum tveimur öldum var maður að nafni Boch, franskur að ætt, á hrakhólum með aðstöðu fyrir postulínsverksmiðju, sem hann hafði á prjónunum.  Hann bar árangurslaust niður víða í nágrannalöndunum unz hann þreifaði fyrir sér í Luxemburg.  Þar mætti hann góðvild og skilningi og stofnaði fyrirtæki sitt við Sjöbrunna (Septfontaines), rétt utan við virkismúrana, en vatnsþörf hans var mikil vegna leirbrennslunnar.

Verksmiðja hans var lögð í rúst í umsátri Frakka árið 1794 og hann flúði til Belgíu.  Tæpu ári síðar kom hann til baka og endurreisti fyrirtæki sitt með dæmafárri þrautseigju.  Starfsemi hans var ómetanleg fyrir bæinn Rollingergrund í nágrenni verksmiðjunnar.  Boch lánaði starfsmönnum sínum fé til búsbygginga og kom á fót sjúkrasamlagi og sparisjóði fyriri byggðarlagið.  Hann reisti einnig skóla, sem stendur enn þá.  Fyrirtækið er enn þá í fullu fjöri, eitt af hinum tíu stærstu í landinu.

Klaustrið Clervaux var byggt árið 1910 og hefur skotið skjólshúsi yfir marga nafnkunna menn, s.s. franska rithöfundinn François Mauriac, Robert Schuman, Halldór KiljanLaxnes  o.fl.

Halldór Kiljan Laxnes dvaldi í 18 mánuði á þriðja áratugnum hjá munkunum og gaf þá skýringu á dvöl sinni, „að hann hefði viljað sjá sig um bekki hjá þeim”.  Til er mynd af Halldóri í skrúða, sem sýnir, að hann hafi tekið skírn hjá munkunum, annaðhvort í klaustrinu í Clervaux eða í London, þar sem hann leit einnig við hjá munkum af sömu reglu.  Slík skírn er samkvæmt reglum Benediktínaklaustra skilgreind sem undanfari prestvígslu.  Til skírnarinnar má rekja dýrlingsnafnið Kiljan, sem Halldór lagði af fyrir löngu, en tók upp aftur skömmu fyrir andlátið í febrúar 1998.

Fleiri íslenzkir listamenn, margir hverjir búsettir í Kaupmannahöfn, nutu forðum daga gestrisni í Clervaux.  Íslenzkur málari kom þaðan eitt sinn, forframaður og með stóran kross á brjósti og enn þá í svo þungum guðspekilegum þönkum, að hann gekk á og mölvaði tvo skilveggi úr gleri við komuna til Kaupmannahafnar.  Fleiri hafa misst jarðsambandið eftir dvöl í Clervaux.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM