Bekaadalurinn
(Al-Biqa) er í Líbanon. Hann
er 112 km langur og allt að 26 km breiður, 30 km austan Beirút.
Þessi dalur er norðaustasti armur Sigdalsins mikla, sem teygist
suður um Rauðahaf inn í Afríku.
Meðfram honum eru Líbanonsfjallgarðurinn að vestanverðu og
Anti-Líbanon fjallgarðurinn að austanverðu.
Þarna ríkir Miðjarðarhafsloftslag með mildum og rökum
vetrum og þurrum og heitum sumrum.
Hann er í regnskugga Líbanonsfjalla, sem veldur takmarkaðri úrkomu,
einkum í norðurhluta
hans, þar sem meðalársúrkoman er aðeins 230 mm en 610 mm um miðbikið. Tvær
ár spretta upp í dalnum, Orontes-áin, sem streymir til norðurs og
Litani-áin til suðurs. Zahla
er aðalborgin, rétt norðan aðalveginum milli Beirút og Damaskus.
Íbúar hennar eru aðallega kristið fólk (rómversk katólskt,
marónítar og rétttrúaðir) en í sveitunum umhverfis hana búa shíta-múslimar
(einkum að norðanverðu).
Á
rómverskum tímum var Bekaadalurinn matarforðabúr skattlandsins Sýrlands.
Þar eru nú u.þ.b. 40% ræktanlegs lands í Líbanon.
Hirðingjar með kvikfé sitt halda sig norðurenda hans, þar
sem minnst rignir og jarðvegur er ófrjósamastur.
Sunnar er ræktað hveiti, maís, baðmull og grænmeti og
umhverfis Zahla ávextir og vínviður. Þarna er líka ræktað mikið af hassi og ræktun ópíumvalmúa
fer vaxandi. Áveituframkvæmdir
við Litani-ána (Qirawn) hafa bætt ræktunarskilyrði í sunnanverðum
dalnum.
Baalbek
er merkasti sögustaðurinn í Dalnum.
Þar eru miklar, rómverskar rústir hofa Venus og Júppíters
o.fl. Baalbek-hátíðin,
sem laðaði að listamenn úr öllum heimshornum, var löngum haldin á
þessu rústasvæði. Þessi
borg hefur verið aðalmiðstöð herflokks guðs (Shíta-Hezbollah),
sem Íranar styrkja. Sýrlenzkir
herflokkar hafa verið í dalnum síðan borgarastyrjöldin í Líbanon
brauzt út árið 1975. Árið
1982 reyndi flugher Ísraela án árangurs að hrekja Sýrlendinga úr
dalnum með því að gera árásir á loftvarnarflaugar þeirra. |