Lettland sagan,
Flag of Latvia


LETTLAND
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Lettar eru grein af fornþjóðinni böltum.  Fyrstu sögulegu heimildir um tengslin milli balta og þjóða við Miðjarðarhafið geta um viðskipti með raf.  Rómverski sagnfræðingurinn Tacitus (1. öld f.Kr.) getur um viðskipti balta og Aestii-þjóðarinnar, sem Prússar eru komnir af, við rómverska heimsveldið.  Á 10. og 11. öld stóðu spjótin á löndum Letta úr austri (slavar) og vestri (Svíar).

Germönsk yfirráð.  Á tímum krossferðanna náðu landvinningar germana, eða öllu heldur saxa, alla leið að ströndum Eystrasaltsins.  Germönsku innrásarmennirnir kölluðu strönd Lettlands Lívland vegna þess að íbúarnir voru kallaðir livar.  Latneska nafnið var Lívónía.  Um miðja 12. öldina sigldu þýzkir kaupmenn frá Lübeck og Bremen inn í ósa Dvínu og trúboðar komu í kjölfarið.  Meinhvar munkur frá Holstein kom á þessar slóðir árið 1180 og var gerður að biskupi í Üxküll (Ikskile) sex árum síðar.  Þriðji biskupinn, Albert frá Buxhoevden, stofnaði Bræðrareglu sverðsins með leyfi Innósentíusar III páfa árið 1202.  Áður en þessi regal sameinaðist Germönsku reglunni 1237, hafði hún lagt undir sig öll smákonungsdæmi Lettlands.

Eftir þessa sigra stofnuðu germanarnir Lívóníska sambandið, sem var við lýði í rúmlega þrjár aldir.  Þetta lénskipulag var ekki friðsamlegt, því að hinar þrjár uppistöður þess, Germanska reglan, erkibskupinn í Riga og sjálfstæða borgin Riga stóðu í stöðugum deilum innbyrðis.  Auk þess var erfitt að verja landamæri ríkisins gegn innrásum.  Lettar nutu góðs af þátttöku Riga í Hansabandalaginu frá 1282, því að verzlunin færði þeim hagsæld.  Engu að síður voru þeir undirsátar undir stjórn Þjóðverja.  Innlendi aðallinn var bældur niður nema hinir fáu, sem studdu Þjóðverja.  Dreifbýlisfólkið var neytt til að greiða tíund og skatta og stunda þegnskylduvinnu.

Pólland-Litháen, Svíþjóð og ágangur Rússa.  Árið 1561 var Lettlandi skipt.  Kúrland, sunnan Dvínu, varð að sjálfstæðu hertogadæmi í umdæmi yfirlénsherra Litháens.  Lívónía, norðan Dvínu, var innlimað í Litháen.  Riga var líka innlimuð í Pólsk-Litháíska ríkið árið 1581 en Lívónía var afhent Svíum (Gústaf Adolf II) árið 1621.  Vidzeme, mestur hluti Lívóníu norðan Dvínu, komst undir sænsk yfirráð við vopnahléssamingana í Altmark 1629 en Latgale, syðri hluti landsins, var áfram undir stjórn Litháa.

Stjórnendum Muscovy hafði ekki enn þá tekizt að komast til sjávar við Eystrasalt á ströndum Lettlands, þótt Ívan III og Ívan IV hefðu reynt það.  Rússneski keisarinn Alexis reyndi á ný án árangurs í styrjöldum sínum við Svía og Pólverja 1653-67.  Pétri I, hinum mikla, keisara Rússa, tókst loks að „opna glugga til Eystrasalts”.  Hann náði Riga frá Svíum árið 1710 og í lok stríðsins fékk hann Vidzeme frá Svíum í friðarsamningunum í Nystad 1721.  Latgale var innimað í Rússland við fyrstu skiptingu Póllands 1772 og Kúrland við hina þriðju 1795.  Í lok 18. aldar var allt Lettland orðið rússneskt yfirráðasvæði.


Rússnesk yfirráð.  Strax eftir Napóleonsstríðin var Alexander I, keisari Rússa, hvattur til að veita bændum í Kúrlandi frelsi, sem hann gerði 1817, og síðan í Vidzeme árið 1819.  Með þessu nýfengna frelsi fengu þeir þó ekki leyfi til að kaupa landið, sem forfeður þeirra höfðu erjað öldum saman.  Þetta leiddi til óeirða í Lettlandi þar til losað var um átthagafjötra í öllu keisaradæminu 1861 og smábændunum var leyft að kaupa landið af lénsherrunum, sem voru flestir þýzkir.

Þjóðerniskenndin óx meðal hinna frjálsu bænda í hlutfalli við bætt kjör þeirra.  Möguleikar til menntunar jukust og fyrstu opinberu hugmyndir um frjálst Lettland komu fram í rússnesku byltingunni árið 1905.  Þessi bylting, sem byggðist bæði á þjóðfélagshópum og helium samfélögum, var gerð vegna viðbragða Letta gegn fjármálalegum og stjórnmálalegum þrýstingi frá Þjóðverjum og Rússum.

Sjálfstæði.  Eftir rússnesku byltinguna í marz 1917 var stjórnmálaleg ráðstefna þjóðarinnar haldin í Riga og niðurstaðan var krafa um algera sjálfstjórn í júlí sama ár.  Hinn 3. sept. réðist þýzki herinn inn í Riga og hernam borgina.  Eftir hallarbyltingu bolsevika í Petrograd í nóvember lýsti þjóðarráð Letta yfir sjálfstæði hinn 18. nóvember 1918.  Formaður Bændasamtakanna, Karlis Ulmanis, myndaði ríkisstjórn.  Rússneska stjórnin myndaði kommúnistastjórn fyrir Lettland í Valmiera undir stjórn Peteris Stucka.  Rauði herinn, sem réði lettneskum herdeildum, tók Riga 3. janúar 1919 og ríkisstjórn Ulmanis færði sig til Liepaja, þar sem hún naut verndar deildar úr brezka sjóhernum.  Liepaja var enn þá í höndum Þjóðverja, sem bandamenn báðu að verja Austur-Prússland og Kúrland gegn framsókn Rauða hersins.  Stjórnandi þeirra, Rüdiger hershöfðingi frá Goltz, hafði í hyggju að koma á fót þýzku Lettlandi og gera landið að miðstöð hernaðar Þjóðverja gegn Sovétríkjunum.  Þessar fyrirætlanir ollu árekstrum við ríkisstjórn hins óháða Lettlands, sem bandamenn studdu.  Hinn 22. marz 1919 tók Rüdiger hershöfðingi Riga.  Þjóðverjar héldu sókn sinni áfram í norðurátt, þar sem eistneski herinn stöðvaði framrás þeirra við Cesis.  Í her Eistlendinga voru 2000 Lettar.  Bretar neyddu Þjóðverja til að yfirgefa Riga og ríkisstjórn Ulmanis snéri þangað í júlí.  Rauði herinn varð fyrir árásum Eistlendinga úr norðri og hörfaði frá Lettlandi.

Í júlí kröfðust Bretar þess, að þýzkar herdeildir hörfuðu til Austur-Prússlands.  Rüdiger hershöfðingi safnaði saman vesturrússneskum her, sem var styrktur með deildum þýzkra sjálfboðaliða.  Æfintýramaðurinn Pavel Bermondt-Avalov, ofursti, leiddi þennan her, sem átti að berjast við Rauða herinn í samvinnu við her Hvítrússa frá Kolchak, Denikin og Yudenich og með stuðningi bandamanna.  Hinn 8. október réðist Bermond-Avalov lettneskar herdeildir og náði undir sig úthverfum Riga sunnan ár.  Hinn 10. nóvember sigruðu lettneskar heri Rüdigers hershöfðingja og Bermondt-Avalovs með aðstoð eistneskra herja og ensk-franska sjóhersins.  Litháar komu til skjalanna í lok orrustunnar og settu punktinn yfir I-ið.  Í desember 1919 voru allir þýzkir herir farnir frá Lettlandi og Litháen en Latgale var enn þá í höndum Rauða hersins.  Skömmu síðar var honum stuggað frá héraðinu.

Lettneskt stjórnlagaþing, sem var kosið í apríl 1920, kom saman í Riga hinn 1. maí og hinn 11. ágúst var undirritaður friðarsamningur milli Letta og Sovétríkjanna í Riga.  Rússar létu af öllum kröfum til Lettlands.  Lettneska stjórnarskráin var samþykkt 15. febrúar 1922.  Samkvæmt henni var kosið til einnar deildar þings (Saeima) og til forsetaembættisins.  Þingmennirnir voru 100 og kjörnir til þriggja ára í senn.  Fjöldi flokkanna á þinginu (22 árið 1922 og 24 árið 1931) gerði myndun styrkrar ríkisstjórnar ómögulega.  Árið 1934 lagði Ulmanis forsætisráðherra (í fjórða skipti) fram frumvarp um breytingu á stjórnarskránni.  Sósíaldemókratar, kommúnistar og aðrir smáflokkar reiddust og höfnuðu því.  Þýzki minnihlutinn snérist á sveif með nasistum og Ulmanis varð að berjast gegn áformum Baltneska bræðralagsins um innlimun Lettlands í Þriðja ríkið.  Lettneskur fasistahópur, perkonkrust (Þrumukrossinn) beitti gífurlegum áróðri.  Hinn 15. maí 1934 undirritaði Ulmanis tilskipun um umsátursástand.  Þingið var leyst frá störfum og allir stjórnmálaflokkar voru bannaðir.  Hinn 11. apríl 1936, þegar síðara kjörtímabili Albers Kviesis lauk, tók Ulmanis við forsetaembættinu.  Efnahagsástandið í landinu batnaði verulega í kjölfarið.

Sovézkt hernám og innlimun í Sovétríkin.  Í upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar 1939 var þegar búið að ákveða örlög Lettlands í samningi Þjóverja og Rússa um gagnkvæmt afskiptaleysi af hernaðaraðgerðum hins (23. ágúst).  Í október varð ríkisstjórn Lettlands að undirrita samning við Rússa um gagnkvæma aðstoð, sem gerði Rússum kleift að hreiðra um sig í herstöðvum í Lettlandi.  Hinn 17. júní 1940 réðist Rauði herinn inn í landið.  Þremur dögum síðar var mynduð rússnesk leppstjórn og daginn eftir samþykkti þingið innlimun landsins í Sovétríkin.  Hinn 5. ágúst samþykkti rússneska þingið þessa innlimun.  Eftir að Þjóðverjar náðu Eystrasaltsríkjunum undir sig í júlí 1941 var Lettland hluti af héraðinu Austurland ásamt Eistlandi, Lithaen og Hvíta-Rússlandi til október 1944.  Rússar náðu tveimur þriðjungum landsins undir sig árið 1944 og Þjóðverjar börðust áfram í Kurzeme til loka stríðsins.  Áður en rússneski herinn lagði allt landið undir sig flýðu u.þ.b. 100 þúsund Lettar til Svíþjóðar og Þýzkalands.

Fyrsti áratugurinn eftir stríðið var erfiður.  Miskunnarlausar aðferðir stjórnarinnar við að gera landið að leppríki Sovétríkjanna gerðu landsmönnum lífið mjög erfitt samhliða tjóninu, sem stríðið olli.  Stjórnmálaleg kúgun og efnahagslegar breytingar í anda kommúnismans bættu ekki úr skák.  Menningarlífð koðnaði niður í Rússlandsvæðingunni.  Fjöldi fólks var fluttur nauðugur til Norður-Rússlands og Síberíu.  Mikill fjöldi Rússa og borgara annarra Sovétlýðvelda fluttist til landsins.  Á 40 ára tímabili minnkaði hlutfall Letta úr u.þ.b. 75% í tæplega 50% þjóðarinnar.

Hinn ráðandi kommúnistaflokkur var skipaður ójöfnum fjölda innflytjenda.  Tilraunir til að gera hann að hreinum lettneskum flokki urðu til þess, að árið 1959 voru æðstu embættismenn landsins flestir Lettar.  Samt sem áður héldu fulltrúar innflytjenda, aðalritarinn Arvids Pelse, eftirmenn hans, Augusts Voss og Boriss Pugo, völdum sínum næstu 30 árin.  Síðla á níunda áratugnum fór að gæta breytinga í flokknum samtímis „glasnost og perestroika” Gorbashevs.  Fyrstu mótmælaaðgerðir eftirstríðsáranna fóru fram árið 1987.

Sjálfstæði endurvakið.  Lettneskur þjóðarflokkur leit dagsins ljós 1988 og vann sigur í kosningunum 1990.  Hinn 4. maí lýsti þingið yfir sjálfstæði að liðnum aðlögunartíma.  Tilraunir Sovétmanna til að koma á fyrra skipulagi ollu blóðugum óeirðum í Riga í janúar 1991.  Eftir misheppnaða hallarbyltingu í Moskvu í ágúst lýsti lettneska þingið yfir fullu sjálfstæði, sem Sovétríkin viðurkenndu 6. sept.  Í fyrstu kosningum eftirstríðsáranna í júní 1993 fengu aðeins borgarar frá 1940 og afkomendur þeirra að kjósa.  Nýja þingið endurvakti strax stjórnarskrána frá 1922.  Meðal aðalverkefna þingsins var meðferð mála innflytjenda, einkum Rússa, og  skilyrði þeirra til borgararéttinda.  Þessi mál voru rædd fram og til baka mestallan áratuginn.  Lettland leitaði nánari tengsla við Vesturlönd og undirritaði samninga við ESB, NATO og Evrópuráðið og sóttist eftir fullri aðild að ESB og NATO.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM