Lettland landið náttúran,
Flag of Latvia


LETTLAND
LANDIÐ

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Lettland er að mestu hæðótt láglendisslétta.  Austurhlutinn liggur hærra yfir sjó og mest áberandi hlutinn er Vidzeme-hálendið, sem rís hæst 311 m.y.s.  Hæsti hluti suðausturlandsins liggur í 287 m.y.s.  Áin Venta skiptir Kurzeme-hálendinu í vesturhlutanum.  Milli Mið-Vidzeme og Latgale-hálendisins er austurlettneska láglendið með jökulölduhryggjum, sem hindra framræslu og mynda fjölda mómýra.

Fjöldi vatnsfalla fellur til Eystrasalts.  Stærst ánna er Vestur-Dvína (Daugava), alls 367 km löng, þar sem hún fellur um Lettland, og næstar koma árnar Gauja, Venta og Lielupe.  Milli hæða landsins, sem eru víða skógi klæddar, er aðallega ófrjósamur, ísúr jarðvegur og á Zemgale-sléttunni er hann kalkríkur.  Mýrar og fen eru víða, einkum á austurláglendinu.  Jarðvegseyðing er vandamál á hæðasvæðunum, sem eru mest ræktuð.

Loftslagið byggist aðallega á veðrakerfum, sem koma úr vestri yfir Atlantshafið.  Loftraki er hár og oftast er skýjað.  Sólskinsdagar eru einungis 30-40 og alskýjaðir dagar 150-180.  Meðalársúrkoman er milli 550-600 mm á láglendissvæðum og 700-775 mm í upplöndunum.  Suðvest- og suðlægir vindar eru ríkjandi.  Frostlausi tíminn er 125-150 dagar á ári.  Sumir eru oft svöl og úrkomusöm.  Meðalhiti í júní er 17°C (getur hoppað upp í 34°C).  Veturinn færist rólega yfir frá miðjum desember til miðs marz.  Meðalhitinn í janúar er frá –2°C til –7°C í austurhlutanum.  Einstaka sinnum getur frostið orðið –40°C.

Flóran.  Rúmlega helmingur landsin er þakinn skógi, engjum, beitilandi, mýrum og óbyggðum.  Skógarnir, sem þekja u.þ.b. þriðjung landsins, eru áberandi einkenni landslagsins.  Í kringum 10% skóganna eru ræktuð.  Stór skóglendi eru á norðurhluta Kurzeme-skagans, meðfram Dvínu og í norðausturhlutanum.  Barrskógar (fura og greni) eru ríkjandi.  Meðal lauftrjáa, sem vaxa í landinu, eru birki, aspir og elri algengust.  Engjar eru í árdölunum og milli hæðanna.

Dýralífið er einkennist af umhverfinu, skógum og auðum svæðum.  Þar eru íkornar, refir, hérar, gaupur og greifingjar.  Meðal óalgengari tegunda eru hreysikettir.  Verndunaraðgerðir hafa leitt til fjölgunar dádýra og elgja og bjórinn er farinn að láta sjá sig aftur.  Meðal fjölda fuglategunda eru næturgalar, svartþresir, spætur, uglur, orrar, akurhænur, finkur, igður, lynghænur og lævirkjar.  Storkar og hegrar halda sig í mýrum og á engjasvæðum.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM