Kúveit stjórnsýsla,
Flag of Kuwait


KÚVEIT
 STJÓRNSÝSLA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Landið hefur verið undir stjórn emírs síðan það fékk sjálfstæði frá Bretum 1961.  Hann stjórnar með aðstoð þings, sem fullorðnir, kúveizkir karlmenn kjósa til starfa.  Í stað stjórnmálaflokka, sem eru bannaðir í landinu, starfa nokkrar klíkur, sem bjóða fram til þingkosninga.  Þetta þing var leyst upp 1976, 1985 og 1999.  Í kjölfar upplausnarinnar 1999 var efnt til nýrra kosninga í júlí og ermírinn lýsti því þá yfir, að konur fengju að kjósa í framtíðarkosningum.

Réttarkerfið
er margþætt.  Íslömsk lög gilda aðallega fyrir borgaralega dómstóla (fjölskyldu- og erfðaréttur).  Dómstólar, sem fjalla um viðskipti og glæpi eru einnig undir áhrifum islam en þar ráða þó mestu lög í anda Ottómana og Evrópumanna.  Nokkur lægri dómstig og áfrýjunarréttir starfa einnig í landinu.  Emírinn hefur oft úrslitavald í áfrýjunarmálum.

Heilbrigðismál.  Velferðarmál eru velskipulögð í landinu.  Fátæklingar fá aðstoð,  margir fá lán til að hefja viðskipti, bæklaðir fá læknisþjónustu og endurhæfingu og ólæst, fullorðið fólk fær menntun.  Félagsmálaráðuneytið býður lágtekjufólki fullbúið, félagslegt húsnæði, sem það hefur efni á.  Heilbrigðiskerfið er háþróað og ókeypis.  Árið 1976 stofnaði ríkið sjóð fyrir framtíðarkynslóðir og hefur lagt til hans 10% af tekjum sínum árlega.  Ríkið varð að taka af þessum sjóði á meðan hernám Íraka stóð yfir.

Menntun.  Nálega 80% íbúanna eru læsir.  Almenn grunnmenntun er háð skólaskyldu fyrir ríkisborgara á aldrinum 6-14 ára.  Skólakerfið er ókeypis með máltíðum, bókum, skólabúningum, samgöngum og heilbrigðisþjónustu.  Erlendir nemendur stunda einkaskóla.  Háskóli landsins var stofnaður 1964.  Langflestir stúdentar við skólann eru Kúveitar og nærri 60% konur.  Nokkur þúsund stúdenta stunda nám við háskóla erlendis, aðallega í BNA, Bretlandi og Egyptalandi og fá flestir námsstyrki frá ríkinu.

Daglegt líf.  Íþróttamenning landsins nær til íþróttagreina hirðingjanna og vestrænna íþrótta.  Veðreiðar á hestum og drómedörum eru vinsælar og fálkaveiðar meðal ríka fólksins, þótt lítið sé orðið eftir til að veiða.  Þessar veiðar liðu að mestu undir lok eftir 1990 vegna jarðsprengjuhættu á veiðisvæðunum.  Vinsælusut íþróttagreinarnar eru knattspyrna og golf.  Ríkið hefur haft tök á að styrkja íþróttaiðkun veglega en þátttaka íþróttafélaga landsins í alþjóðlegum mótum er háð ýmsum pólitískum skilyrðum, s.s. að þeim er bannað að keppa við írakska mótherja.

Upplýsingaráðuneytið annast útgáfu dagblaða ríkisins og rekstur útvarps- og sjónvarpsstöðva.  Flestir prentmiðlar eru ríkiseign en þeir njóta talsverðs frjálsræðis í efnistökum. 

Eins og víðast í Miðausturlöndum fóru kúveizkar konur að bera höfuðbúnað (hijab) á áttunda og níunda áratugnum, þegar islamskir öfgamenn létu sem verst.  Á tíunda áratugnum fóru fyrirætlanir ríkisins um aðskilnað kynjanna í háskólanum út um þúfur.  Réttur kvenna til að aka bílum og vinna á almennum markaði hefur valdið deilum meðal almennings og þegar þær fengu kosningarétt olli það klofningi meðal múslima.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM