Kúveit sagan,
Flag of Kuwait


KÚVEIT
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

vestiges.JPG (206602 bytes)Upphaf Kúveitborgar og þar með ríkisins er rakið til fyrri hluta 18. aldar, þegar BanY Åut”b, hópur fjölskyldna af ÅAnizah-ætt, sem bjó inni í landi á Arabíuskaga, fluttist til svæðisins, sem er nú Kúveit.  Stofnun sérstaks ríkis er rakin til 1756, þegar landnemarnir ákváðu að tilnefna ættarhöfðingja af “aba R-ætt.  Alla 19. öldina þróaðist Kúveit og viðskipti blómstruðu.  Í lok aldarinnar hallaði ættarhöfðinginn ÅAbd Allah II(1866-92) sér æ meir að Ottómanaveldinu, þótt hann afsalaði aldrei völdum til þess.  Eftirmaður hans, Mubarak hinn mikli, snéri þessari þróun við eftir að hafa komið bróður sínum ÅAbd Allah fyrir kattarnef.  Þetta morð var illa séð og óvenjulegt í Kúveit.  Hótanir Ottómana um innlimun Kúveits leiddu til þess, að Mubarak tók að rækta samband við Breta.  Árið 1899 var undirritaður samningur, sem fékk Bretum í hendur yfirráð utanríkismála landsins.

Í upphafi fyrri heimsstyrjaldarinnar varð Kúveit að brezku verndarsvæði.  Á ráðstefnunni í Al-ÅUgayr, sömdu Bretar um landamærin milli Kúveit og Sádi-Arabíu, þannig að Kúveit varð að sjá af talsverðu landi.  Samkvæmt minnisblaði frá 1923 voru landamærin að Írak sett í samræmi við óstaðfesta niðurstöðu ráðstefnu árið 1913.  Fyrstu kröfur Íraka um yfirráð yfir Kúveit litu dagsins ljós árið 1938, þegar olían fannst í landinu.  Írak vísaði til óljósrar, sögulegrar hefðar, þótt hvorki Írak né Ottómanaveldið hefðu nokkurn náð yfirráðum í Kúveit.  Sama ár buðu Írakar aðstoð sína gegn kaupmönnum, sem höfðu gert uppreisn gegn emírnum í Kúveit.  Byltingin mistókst og Írakar héldu uppi kröfum sínum til yfirráða en drógu svolítið í land og vildu fá a.m.k. eyjarnar B”biyan og Al-Warbah.

Hinn 19. júní 1961 viðurkenndi Bretland sjálfstæði Kúveit.  Sex dögum síðar endurnýjaði Írak kröfur sínar, sem Bretar og síðar Arababandalagið vísuðu til föðurhúsanna.  Tveimur árum síðar viðurkenndi íraksstjórn sjálfstæði Kúveits og landamæri þess en hélt uppi kröfunum um eyjarnar.

Írak-Íranstríðið.  Stríðið milli Íraks og Írans stóð yfir frá 1980 til 1988.  Það hófst, þegar Íranar réðust inn í Írak 22. september 1980 í kjölfar langvarandi deilna og ögrana milli ríkjanna.  Írak hafði krafizt breytinga á samkomulagi frá 1975 um landamærin milli þeirra við ána Shatt Al-Arab.  Þar að auki óttaðist stjórn Íraks stöðugan áróður hinnar nýju stjórnar Írans, sem beindist að trúbræðrum Írana í landinu og gegn Bath-flokknum.  Aðalástæðan fyrir stríðinu var þó sú, að Saddam Hussein hélt að hernaðarstyrkur Írans væri í lágmarki eftir byltinguna gegn keisaranum 1979 og hann þyrfti ekki mikið að hafa fyrir að sigra Írana. 

Honum skjátlaðist hrapallega.  Honum tókst vel upp í byrjun en Íranar voru fljótir að koma sér upp nýjum hersveitum og gerðu gagnárásir.  Árið 1982 höfðu þeir hrakið flestar hersveitir Íraka úr landi.  Þegar svo var komið höfnuðu Íranar öllum umleitunum um frið og héldu stríðinu áfram á nokkurs markmiðs annars en að refsa Írökum.  Á árunum 1982 til 1987 héldu Íranar uppi stöðugum árásum meðfram landamærunum endilöngum, einkum þó syðst, þar sem aðalmarkmiðið var að taka hafnarborgina Al Basrah.  Þessar aðgerðir kröfðust mikilla mannfórna, þegar Íranar sendu hverja hersveitina á fætur annarri í opinn dauðann gegn víglínu Íraka, þar sem þeim var m.a. mætt með eitruðu gasi. 

Írakar héldu stríðinu til streitu með lánum frá arabaríkjunum við Persaflóa og miklum stuðningi frá Sovétríkjunum og Frakklandi.  Flugher landsins hélt uppi loftárásum á íranskar borgir, olíusvæði, olíuhreinsistöðvar og olíuskip á Arabíuflóa.  Íranar svöruðu fyrir sig með því að ráðast á flutingaskip ríkja, sem studdu Íraka.  Með þessu móti vonuðust Írakar eftir íhlutun erlendra ríkja í átökunum og árið 1987 tóku Bandaríkjamenn og fleiri ríki að sér að vernda flutningaleiðir skipa í Persaflóa.  Árið 1988 skorti Írana orðið móðinn til að halda áfram.  Írakskar hersveitir héldu ótrauðar áfram og 20. júlí 1987 samþykkti Íran friðartillögu Sameinuðu þjóðanna.  Friðarsamingar voru loks undirritaðir 20. ágúst 1990.  Alls kostaði þessi styrjöld 1 miljón mannslífa (60% Íranar), 1,7 miljónir særðra og ekki minna en 200 miljarða Bandaríkjadala í beinum kostnaði og 1 miljarð óbeint.

Persaflóastríðið.  Flóabardagi var háður í Kuveit og Írak í janúar og febrúar 1991.  Upphaf þessa skamma stríðs var innrás Íraka í Kuveit undir stjórn Saddam Hussein á þeim forsendum, að Kuveit væri sögulegur hluti Íraks og Kuveitar væru að stela olíu af umdeildu olíusvæði við landamærin.  Tilgangurinn var augljóslega að ná valdi yfir olíubirgðum Kuveit.  Herafli Kuveit stóðst Írökum ekki snúning og landið var sett undir harðhenta setuliðsstjórn.  Írak innlimaði Kuveit opinberlega 8. ágúst.  Á tímabilinu ágúst til nóvember samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fjölda ályktana, sem náðu hámarki í kröfunni um brottför Íraka frá Kuveit fyrir 15. janúar 1991.  Fjölþjóðlegur her á vegum Sameinuðu þjóðanna, alls 500.000 manna land-, sjó- og flugher var kvaddur saman gegn 540.000 manna her Íraka.  Fjölþjóðlegi herinn var aðallega frá BNA, Sádi-Arabíu, Englandi, Egyptalandi, Sýrlandi og Frakklandi.  Hernaðaraðgerðin var kölluð „Eyðimerkurskjöldur” og var ætlað að hindra frekari árásir á Sádi-Arabíu.

Yfirmaður heraflans var bandaríski hershöfðinginn H. Norman Schwarzkopf.  Bandamenn hófu gríðarlegar loftárásir á hernaðarmannvirki í Írak og Kuveit innan 24 klst frá því, að frestur Sameinuðu þjóðanna rann út.  Bandamenn notuðu hátæknivorp, s.s. leysistýrðar sprengjur og eldflaugar, auk hinna hefðbundnu.  Þessi hernaðaraðgerð var kölluð „Eyðimerkurstormur”.  Eftir að bandamenn höfðu náð yfirburðastöðu eyðilögðu þeir stjórnstöðvar Íraka, einkum í Baghdad og Al Basrah, samgönguleiðir og fjarskiptanetið milli Baghdad og hersveita landsins og héldu uppi stöðugum árásum á landher Íraka, sem var í skotgröfum meðfram landamærum Sádi-Arabíu og 125.000 manna sérsveitir landsins í suðausturhluta þess og í norðurhluta Kuveit.  Mannfall í liði bandamanna var tiltölulega lítið.  Nokkrar írakskar flugvélar voru skotnar niður og miklu fleiri voru eyðilagðar í byrgjum eða komust undan á flótta.  Írakar reyndu að hefna ófaranna með því að nota færanlega skotpalla til að skjóta eldflaugum (scud) inn í Sádi-Arabíu og Ísrael, sem studdi stríðsreksturinn án þess að taka þátt í hernaðinum, í þeirri von að arabar sameinuðust gegn bandamönnum.  Bandamenn svöruðu þessum aðgerðum með gagneldflaugum og árásum á færanlegu skotpallana.

Eftir mikið og sívaxandi mannfall, bæði borgara og hermanna, samþykktu Írakar um miðjan febrúar að flytja herafla sinn frá Kuveit.  Bandamenn höfnuðu fjölda skilyrtra tilboða frá Írökum, sem barst fyrir milligöngu fyrrum Sovétríkjanna.  Bandamenn hófu skipulagðar loftárásir og kölluðu aðgerðina „Eyðimerkursverð”.  Þeim tókst að rjúfa varnarlínur Íraka við landamæri Sádi-Arabíu og fóru eins og eldur í sinu í gegnum Suður-Írak og komust að baki aðalher Íraka og komu í veg fyrir að sérsveitir Íraka gætu flúið eftir aðalleiðum.  Innan 100 klst var Kuveitborg tekin af Írökum og tugir þúsunda írakskra hermanna gerðust liðhlaupar, gáfust upp eða voru teknir höndum eða drepnir.  Mannfall bandamanna var ótrúlega lítið.  Hinn 28. febrúar lágu 149 þeirra í valnum og 513 voru særðir.  Eyðileggingin í Kuveit var gífurleg, því að írakskir hermenn á flótta rændu og rupluðu í Kuveitborg og kveiktu í flestum olíulindum landsins. 

Fulltrúar Íraka féllust á skilyrði bandamanna um bráðabirgðavopnahlé 3. marz og stöðvun bardaga 6. apríl.  Írakar samþykktu að greiða Kuveit stríðsskaðabætur, gefa upp geymslustaði efna- og sýklavopna og að eyða gjöreyðingarvopnum sínum.  Í kjölfarið bar sífellt meira á kvörtunum eftirlitssveita Sameinuðu þjóðanna, sem áttu að fylgjast með því, að Írakar stæðu við þennan samnging, vegna tregðu og blekkingaleiks Íraka, þegar þeir áttu að sýna fram á framkvæmdina.  Þessi þróun olli því, að Sameinuðu þjóðirnar afléttu ekki viðskiptabanni sínu á Írak.  Shíta-múslimar í suðurhluta landsins og kúrdar í norðurhlutanum gerðu misheppnaðar uppreisnir, sem var mætt með mikilli hörku.  Bandamenn afmörkuðu verndarsvæði fyrir kúrdana og shítana með flugbanni írakskra flugvéla yfir þessum landshlutum.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM