Kúveit efnahagslífið,
Flag of Kuwait


KÚVEIT
EFNAHAGSLÍFIÐ

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Auður landsins byggist að öllu leyti á olíuframleiðslunni, þótt fjárfestingar erlendis skili nú meiri arði en olíuvinnslan í landinu.  Olíuiðnaðurinn hefur aukizt stöðugt síðan 1970.  Um miðjan níunda áratuginn önnuðu olíuhreinsunarstöðvar landsins í kringum 80% af hráolíunni og afurðirnar voru seldar innanland og frá 08-benzinstöðvum Kúveita í markaðslöndunum í Evrópu (250.000 tunnur á dag).  Olíuauðurinn og arðurinn af fjárfestingunum erlendis gerðu landið að einu hinu auðugasta í heimi.  Persaflóastríðið og óstöðugt heimsmarkaðsverð olíunnar hafa dregið mjög úr tekjum landsins.  Miklu fé var ráðstafað til uppbyggingar velferðarríkis með ókeypis heilbrigðisþjónustu og menntun þegnanna.  Mikil uppbygging varð á öðrum sviðum en tiltölulega litlu var varið til uppbyggingar annars iðnaðar.  Þessi þróun leiddi til þess, að langflestir Kúveitar starfa hjá ríkinu, aðallega í menntakerfinu og tiltölulega fáir í olíuiðnaði.  Ríkis- og einkafyrirtæki byggja starfsemi sína að verulegu leyti á erlendu vinnuafli, þótt stefnt hafi verið að því að draga úr mikilvægi þess.

Auðæfi í jörðu.  Kringum 10% af olíubirgðum jarðar eru undir fótum Kúveita.  Talið er, að núverandi birgðir (2000) dugi næstu 150 árin miðað við óbreytta nýtingu.  Skemmdirnar, sem Írakar ollu, drógu verulega úr framleiðslugetu Kúveita fram á miðjan 10. áratuginn.  Talsvert náttúrugas er einnig unnið í landinu.  Önnur auðæfi í jörðu eru ekki til.  Náttúrulegt ferskvatn er lítið, þannig að mikið var flutt inn af því þar til verksmiðjur voru byggðar til að vinna það úr sjó eftir síðari heimsstyrjöldina.

Landbúnaður.  Tækifæri til þróunar landbúnaðar eru mjög takmörkuð.  Mjög lítill hluti landsins er ræktanlegur og aðrar hindranir eru skortur á vatni, ófrjósamur jarðvegur og skortur á menntuðu vinnuafli.  Því vegur landbúnaðurinn lítið á vogarskál efnahagslífs landsins.

Fiskveiðar.  Gnægð er af fiski í Persaflóa og fiskveiðar voru mikilsverðar í landinu þar til olían fannst.  Sameinaða útgerðarfélagið heldur enn þá uppi merkinu.  Unnin rækja var hið eina, sem Kúveitar fluttu út ásamt olíu eftir síðari heimsstyrjöldina.  Mengunin, sem innrás Íraka og Persaflóastríðið olli, eyðilagði rækjumiðin tímabundið, þannig að þau fóru ekki að gefa neitt af sér á ný fyrr en eftir miðjan 10. áratuginn.

Iðnaður.  Árið 1934 áttu BP (Bretland) og Gulf Oil Corporation (BNA) Kúveizka olíufélagið (KOC).  Þessi fyrirtæki fengu leyfi til olíuvinnslu í landinu öllu nema á hlutlausa svæðinu (Kúveit-Sádi-Arabía).  Olía fannst 1938 en síðari heimsstyrjöldin tafði frekari framkvæmdir til 1946 en þá hófst hraðfara þróunarskeið.  Árið 1953 fundu fyrirtækin American Independent Oil Company og Getty Oil Company olíu á hlutlausa svæðinu og tveimur árum síðar fannst olía í norðurhluta landsins.  Árið 1976 voru öll yfirráð yfir KOC komin í hendur Kúveita sjálfra og fyrri eigendur fengu einkarétt á olíukaupum með afslætti.  Ríkið eignaðist líka allt fyrirtækið Kuwait National Petroleum Company (KNPC), sem það stofnaði árið 1960 með einkaaðilum innanlands.  Það stjórnaði markaðsmálum erlendis og dreifingu olíunnar.  Á níunda áratugnum stofnaði ríkið Kuwait Petroleum Corporation til að hafa yfirumsjón með KOC og KNPC auk Olíuskipafyrirtækinu, olíuefnaiðnaðnum og fyrirtækinu, sem annaðist umsjón með olíuleit erlendra fyrirtækja á kúveizku landi.

Tiltölulega ódýr olíuvinnsla í landinu er fólgin í sérstökum og einstæðum kostum, s.s. mörgum mjög afkastamiklum borholum, sem hægt er að stjórna eftir aðstæðum, þannig að stórar birgðastöðvar eru ónauðsynlegar.  Flestir olíubirgðatankar landsins eru uppi á hæðarhrygg, nokkra kílómetra frá ströndinni í 90 m hæð, þannig að ekki þarf að pumpa olíunni um borð í flutningaskip.  Öll aðstaða í höfninni fyrir risaolíuskip er eins og bezt verður á kosið.  Þegar Írakar hörfuðu frá Kúveit í Persaflóastríðinu, kveiktu þeir í rúmlega 700 af 950 olíulindum landsins.  Eldarnir, sem nærðust á 6 miljónum tuna á dag, voru endanlega slökktir um haustið 1991 og smám saman tókst að færa framleiðsluna í samt lag.

Gífurlegt magn af náttúrugasi er aukaafurð hráolíunnar.  Það hefur ekki verið nýtt að ráði til útflutings, heldur dælt aftur niður í olíulindirnar til að viðhalda þrýstingi og brennt í orkuverum til að sjá vatnshreinsunar- og olíuvinnslustöðvum og áburðarverksmiðjum fyrir rafmagni.

Fyrrum urðu landsmenn að láta sér nægja fáar vatnsuppsprettur nægja.  Þar að auki var regnvatni safnað af húsþökum.  Seglskip fluttu líka vatn frá Shatt Al-Arab nærri Basra í Írak.  Vegna örrar íbúafjölgunar gripu yfirvöld til þess ráðs að byggja sjóeimingarstöðvar við Kúveitborg, Ash-ShuÅyabah og víðar.  Þrátt fyrir að meira ferskvatn hafi fundizt í áranna rás, sjá eimingarstöðvarnar landsmönnum fyrir mestum hluta neyzluvatnsins.  Raforkuframleiðslan í gasdrifnum orkuverum hefur aukizt stöðugt eftir þörfum.

Verzlun og viðskipti.  Olía og olíuvörur eru næstum einu útflutningsvörur landsins og helztu markaðirnir eru í Asíu og Evrópu.  Landsmenn flytja aðallega inn iðnvarning frá BNA, Japan og Evrópubandalagslöndum.

Auk seðlabanka landsins starfa bankar á ýmsum sviðum.  Engir erlendir bankar fá leyfi til að starfa í landinu nema Bahrain- og Kúveitbanki, sem bæði ríkin eiga að jöfnu og starfar í báðum.  Áður en landið fékk sjálfstæði var starfrækt kauphöll, sem stækkaði síðan ört og er meðal hinna stærstu í heimi.  Hrun hins óopinbera verðbréfamarkaðar, Suq Al-Manakh, árið 1982 olli smáefnahagslægð.  Í lok tíunda áratugarins var ríkisstjórnin enn þá að glíma við greiðslur skulda í tengslum við hana.

Samgöngur.  Járnbrautir eru engar í landinu.  Þjóðvegakerfið er nútímalegt og tengist nágrannalöndunum.  Flugsamgöngur eru góðar um millilandaflugvöll og ríkisflugfélagið Kuwait Airways flýgur til margra staða erlendis.  Hafnir landsins eru nútímalegar og stöðugt er verið að bæta flota olíu- og flutningaskipa.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM