Króatía íbúarnir,
Flag of Croatia


KRÓATÍA
ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Flóra þjóðerna er talsverð í landinu, þótt rúmlega 95% íbúanna séu slavar.  Auk króatanna, sem eru rúmlega 75% þjóðarinnar, og serbanna, sem eru í kringum 12%, er slavneskir múslimar, Unverjar, Slóvenar, Ítalar, Albanar, Austurríkismenn, Búlgarar, Tékkar, Þjóðverjar og fleiri þjóðerni í þessari deiglu.  Menningareinkenni slava í Króatíu byggjast aðallega á trúarbrögðunum.  Króatar eru rómversk-katólskir og vestrænni en serbar, sem eru rétttrúaðir.  Í flestum tilfellum eru mikil tengsl milli þjóðernis og trúarbragða meðal þessara mismunandi þjóðerna.

Búsetuþróun
eftir síðari heimsstyrjöldina varð í þá átt, að þéttbýli mynduðust og stækkuðu og íbúar rýrustu landshlutanna, s.s.karsthéraðanna og miðhálendisins, flykktust brott.  Vinnuafl í landbúnaði minnkaði úr 66% í 15% á árunum milli 1948 og 1988.  Samtímis þessari öru þéttbýlismyndun dró mjög úr náttúrulegri fjölgun íbúanna, eða úr 22,2 af hverjum 1000 árið 1947 í 12,8 árið 1988.  Tíðni barnadauða við fæðingu miðað við 1000 íbúa minnkaði úr 112 árið 1949 í 12,4 árið 1988.  Þetta þýðir, að fólksfjölgunin hélt áfram, þótt mikið drægi úr henni.  Mesta grózkan hefur verið í borgunum, einkum Zagreb, þar sem Íbúafjöldinn rúmlega tvöfaldaðist á árunum milli 1948 og 1991.

Flestir serbanna búa í borgum en u.þ.b. fjórðungur þeirra á heima vítt og breitt í þorpum á strálbýlli svæðum í fjalllendinu, s.s. í Lika, Banija og Norður-Dalmatíu.  Auk þess býr lítill hópur þeirra í Slavoníu.  Margir króatísku serbanna eru afkomendur fólks, sem settist að við landamæri Austurríska keisaradæmisins tímabilinu frá 15. til 18. aldar, í kjölfar innrása Ottomana í Serbíu og Bosníu.  Þessir serbar voru útverðir gegn frekari framrás Ottomana og bjuggu við fátækt og landfræðilega einangrun, sem gerði þeim illkleift að menntast.  Þeir voru betur vopnum búnir og grimmari en aðrir íbúar þessa landsvæðis.


Við núverandi skipulag býr u.þ.b. fimmtungur króata utan landamæra landsins, flestir í Bosníu-Herzegovínu, þar sem þeir hafa búið síðan slavar birtust fyrst á Balkanskaga á 6. og 7. öld.  Króatar í nágrenni Dalmatíu í Herzegovínu hafa löngum alið þá von, að sameinast Króatíu.  Króatar í Bosníu og Króatíu eru yfirleitt ekki sama sinnis.


Tungumálið.  Króatar, serbar og bosníar tala serbo-króatísku, sem er suðurslavnesk tunga og tilheyrir indóevrópska málastofninum.  Eftir skiptingu fyrrum Júgóslavíu heitir þetta sama mál króatíska, serbneska og bosníska eftir þjóðernunum.  Aðalmunurinn milli króatísku og serbísku er ritmálið, því króatar nota latneska stafrófið en serbar hið kyrillíska.  Það má finna örlítinn mun í málfræði, framburði og orðaforða, sem stafar aðallega af löngum erlendum yfirráðum í þessum heimshluta.  Þýzka, ungverska og ítalska hafa haft áhrif á tungu króata en serbar hafa orðið fyrir tyrkneskum og rússneskum áhrifum. 

Auk framangreinds blæbrigðamunar lifa nokkrar sígildar, sögu- og landfræðilegar mállýzkur góðu lífi.  Hið staðlaða ritmál, sem byggist á Shtokavian-mállýzku serbó-króata, kom fram á síðari hluta 19. aldar sem áfangi í tilraunum til sameiningar allra suður-slava.  Þessi mállýzka var og er meðal hinna þriggja mest töluðu mállýzkna (shtokavian, chakavian og kajkavian), en var útbreiddust í króatísku hlutum Austur-Slavoníu, í strandhéruðunum milli Makarska til Dubrovnik, Herzegovínu, Svartfjallalandi og Serbíu.  Fremstu bókmenntafrömuðir 19. aldar kusu hana því fremur öðrum.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM