Kostaríka sagan,
Flag of Costa Rica


KOSTARÍKA
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Árið 1502 var Kólumbus í fjórðu ferð sinni yfir Atlantshafið, þegar hann bar upp að ströndum Kostaríka.  Þar dvaldi hann í 18 daga til að sinna viðgerðum á skipum sínum.  Skipverjar áttu vinsamleg samskipti við innfædda, sem færðu þeim fjölda hluta úr skíragulli.  Líklega hefur gullið átt þátt í nafni landsins „Ríkaströnd”, þótt allir séu ekki sammála um það.  Önnur svæði í þessum heimshluta freistuðu Spánverja meira í upphafi, þannig að spænskir landnemar komu ekki til Kostaríka fyrr en tæplega 60 árum síðar.  Spænska stjórnin lét reisa Meseta Central sem fyrstu varanlegu byggð Evrópumanna í landinu.

Þessi byggð var á stjórnsýslusvæði aðallandstjórans í Gvatemala og biskupsins í León í Nígaragva en bæði veraldleg og andleg yfirvöld létu sem hún væri ekki til.  Hún var ekki nógu burðug til að greiða háa skatta, því þar voru engar auðugar námur.  Spánverjar lögðu því litið til uppbyggingar landnámsins í Kostaríka.  Þar var líka heldur fámennt og lítið vinnuafl, sem Spánverjar lögðu mikla áherzlu á á nýlendutímanum.  Indíánarnir í landinu voru fámennir, vörðust ánauð og hurfu inn í regnskóginn fremur en að láta beygja sig til þegnskylduvinnu.  Íbúarnir stunduðu aðallega sjálfsþurftarbúskap, því þeir höfðu fátt til að flytja úr landi nema lítið eitt af kakói og tóbaki.  Þarna voru því fleiri smáeignabændur, sem höfðu persónulegra hagsmuna að gæta, en annars staðar í nýlendunum.  Sagnfræðingar tengja þessar staðreyndir gjarnan við síðari lýðræðisþróun í landinu.  Því má ekki gleyma, að nokkrir bændanna urðu forríkir og voru leiðandi afl í sjálfstæðisbaráttunni.

Þegar Mexíkó lýsti yfir sjálfstæði frá Spáni árið 1821, fylgdi Kostaríka og önnur Miðameríkuríki í fótspor hins skammlífa mexíkóska keisaraveldis.  Árið 1823 tók Kostaríka þátt í stofnun Bandalags Miðameríkuríkja en hætti þátttöku árið 1838 vegna deilna innanlands í hinum ríkjunum fjórum.  Síðan hafa landsmenn gefið lítið fyrir tilraunir til að endurverkja þetta bandalag og kosið að vera sjálfum sér nægir.

Allt frá fimmta áratugi 19. aldar lá stöðugur straumur uxakerra með kaffi frá Meseta Central til hafnanna við Kyrrahafið og skipa, sem sigldu til Evrópu.  Þessi viðskipti löðuðu að sér brezka frjárfesta.  Smábændur gátu jafnvel lifað hófsömu lífi af þessari ræktun og smám saman þróaðist þjóðfélag, sem krafðist bættra samgangna og skóla og tók þátt í stjórnmálalífinu til að fylgja kröfum sínum eftir.

Einangrunarstefna landsmanna kom ekki alveg í veg fyrir áhrif erlendra vandamála.  Árið 1825 sagði Guanacaste-hérað sig frá Nigaragva og varð hluti af Kostaríka.  Deilur milli ríkjanna vegna þessa máls voru ekki til lykta leiddar fyrr en með landamærasamningunum árið 1896.  Bæði þessi lönd eiga San Juan-ána, sem skilur þau að.  Kostaríka komst ekki hjá því að taka nokkurn þátt í gerð skurðakerfis tengdu ánni og þeim fyrirgangi, sem var næstum búinn að koma efnahag Nigaragva á kné.

Stjórn Tomás Guardia, hershöfðingja, frá 1870-82 skerti frelsi landsmanna, jók erlendar lántökur og útflutning kaffis og sykurs, þannig að almenn velmegun varð meiri og skólar voru byggðir.  Ný stjórnarskrá (1871) var í gildi til 1949.  Áherzlan á aukinn útflutning landbúnaðarafurða jók álagið á samgöngukerfið og íbúar Meseta Central vonuðust til, að fá brezkt fjármagn til að leggja járnbraut til hafnarborganna.  Helzti talsmaður þessara framfara var Bandaríkjamaðurinn Minor C. Keith, sem varð flugríkur af rekstri járnbrautar milli Cartago og Limón.  Honum var síðan úthlutað stóru landi, þar sem hann hóf bananaræktun í stórum stíl.  Síðla á 19. öldinni var útflutningur banana orðinn næstum eins mikilvægur og kaffiútflutningurinn fyrir þjóðarbúið.  Árið 1899 var Sameinaða ávaxtasamsteypan hf. stofnuð og fyrirtæki Keiths varð aðili að henni.

Síðustu áratugi aldarinnar dró úr veraldlegum áhrifum og starfsemi katólsku kirkjunnar.  Jesúítar voru gerðir útlægir í nokkur ár og veraldleg yfirvöld tóku að sér kirkjugarða og juku hlut sinn í skólakerfinu.  Árið 1886 var komið á skólaskyldu og frírri skólagöngu með fjölgun almennra skóla og safn og Þjóðarbókhlaða voru stofnuð.  Þótt ríkið héldi áfram að styrkja katólsku kirkjuna, voru skýr ákvæði í stjórnarskránni frá 1871 um umburðarlyndi í trúmálum.  Sigur José Joaquín Rodríguez í forsetakosningunum árið 1890 skaut enn frekari stoðum undir lýðræðið í landinu, sem það var orðið frægt fyrir í þessum heimshluta.  Þessar kosningar voru hinar fyrstu, sem voru taldar heiðarlegar í Mið-Ameríku.

Árið 1916 gáfu Nikvaragvamenn Bandaríkjamönnum (Bryan-Chamorro-samningurinn 1916) leyfi til að nota San Juan-ána (landamærin) sem hluta skurðaleiðar milli heimshafanna tveggja án aðildar Kostaríka.  Þessu mótmælti stjórn Kostaríka og taldi að réttur landsins hefði verið sniðgenginn í samningunum.  Miðameríkudómstóllinn fékk málið til úrlausnar og niðurstaðan var sú, að Nikvaragva hefði brotið á Kostaríka.  Nikvaragva neitaði að lúta niðurstöðum dómsins og sagði sig frá honum.  Ári síðar var þessi dómstóll lagður niður.

Fyrir aldamótin 1900 áttu Kostaríka og Panama (fyrrum Kólumbía) í landamæradeilum.  Frakkar og Bandaríkjamenn reyndu að miðla málum árið 1900 og 1914 og voru tiltölulega hliðhollir Kostaríka en Panamamenn féllust ekki á niðurstöðurnar.  Árið 1921 gerðu Kostaríkamenn tilraun til að komast yfir umdeilda svæðið (á Kyrrahafsströndinni) með hervaldi.  Panamamenn fluttu sitt fólk frá svæðinu og eðlilegum samskiptum milli landanna var ekki komið á fyrr en sjö árum síðar.  Árið 1941 komust ríkisstjórnir landanna lokst að endanlegu samkomulagi um landamærin.

Þegar fyrstu almennu kosningarnar voru haldnar í landinu árið 1913, fékk enginn frambjóðendanna nægilegan atkvæðafjölda, þannig að þingið kaus Alfredo González Flores til embættis forseta.  Frederico Tionoco Granados, hershöfðingi, var mótfallinn endurbótatillögum Gonzálezar árið 1917 og velti honum úr sessi í einni hinna fáu byltinga, sem hafa verið gerðar í landinu.  Harðstjórn hans var óvinsæl og Bandaríkjamenn neituðu að viðurkenna stjórn hans.  Hann neyddist til að segja af sér, þegar Bandaríkjamenn hótuðu að grípa til sinna ráða.

Síðan þetta gerðist hefur enginn gert tilraun til að koma á einræðisstjórn í landinu og áfram var haldið á lýðræðisbraut.  Árið 1920 var tekið upp læsipróf fyrir kjósendur og leynilegar kosningar fimm árum síðar.  Hinn 8. desember 1941, daginn eftir að Japanar réðust á Pearl Harbor, lýsti Kostaríka yfir stríði gegn Japönum og þremur dögum síðar bættu þeir Þjóðverjum og Ítölum við.

Alvarlegast stjórnmálakreppan í landinu síðan 1917 reið yfir árið 1948.  Þá gerði pólitísk klíka, bendluð við kommúnista, tilraun til að hindra embættistöku nýkjörins forseta, Otilio Ulate.  José Figureres, sósíalískur landeigandi, barði uppreisnina niður og fékk Ulate völdin.  Samkvæmt nýrri stjórnarskrá ári síðar var bannað að stofna og reka her og hlutverk þjóðarhersins var falið borgaralegum her.  Figueres var kjörinn forseti 1953.  Hann þjóðnýtti bankana og ógnaði veldi Sameinaða ávaxtasambandsins og annarra fyrirtækja.  Árið 1955 stóðst hann innrás útlægra byltingarmanna frá Níkvaragva.  Hann var kjörinn aftur árið 1970 eftir að hann hafði komið PLN-flokknum í meirihlutastöðu á þingi. 

Árið 1974 tók Daniel Oduber við af Figueres.  Þeir voru flokksbræður en urðu ósáttir vegna tengsla Figueres við bandaríska auðjöfurinn Robert Vesco, sem hafði leitað hælis í Kostaríka vegna yfirvofandi samsærisákæru í New York.  Hann yfirgaf landið 1978.  Þessi Klofningur í flokknum gerði Rodrigo Carazo Odio kleift að sigra í forsetakosningunum sama ár.  Þegar uppreisn hófst gegn Somoza-stjórninni í Nikvaragva, flúðu þúsundir til Kostaríka, og næsta ár komst á ný stjórn þar en þá jókst straumur flóttamanna til landsins frá öðrum Mið-Ameríkuríkjum, þar sem mannréttindi voru fótum troðin.  Fjölda flóttamanna var vísað úr landi, þegar í ljós kom, að þeir misnotuðu hæli sitt í hernaðartilgangi.

Efnahagsvandinn í landinu var stöðugur.  Verðbólgudraugurinn var misbólginn og atvinnuleysi jókst.  Starfsfólk sjúkrahúsa, hafnar- og landbúnaðarverkamenn og starfsmenn járnbrautanna fengu dálitla launahækkun eftir lamandi verkföll.  Hagvöxtur varð að engu, þegar olíuverð hækkaði svo mikið, að öll kaffiuppskeran dugði tæpast til að standa undir innflutningi eldsneytis.  Áralangar lántökur, umframeyðsla ríkisins og óhagstæður viðskiptajöfnuður gerðu landið næstum gjaldþrota.  Carazo náði ekki samkomulagi við lánastofnanir og næsti forseti, Luis Alberto Monge Álvarez úr PLN-flokknum, tók við embætti 1982.  Alþjóðlegi gjaldeyrissjóðurinn og Heimsbankinn settu þau skilyrði fyrir framlengingu lána landsins, að hann gripi til sparnaðaraðgerða, m.a. að fella gengi gjaldmiðilsins, skera niður fjárlögin, lækka skatta og draga mjög úr niðurgreiðslum.

Árið 1986 tók flokksbróðir Monges, Oscar Arias Sánchez, við embætti forseta og flestum sömu vandamálunum.  Landið skuldaði 5 miljarðar dollara, flóttinn úr sveitunum magnaðist, húsnæði skorti, atvinnuleysi var mikið og aðlögun að einkarekstri í stað ríkisreksturs tók langan tíma.  Rúmlega þriðjungur tekna landsins voru upprunnar á alþjóðlegum lánamarkaði.  Borgarastyrjaldir í öðrum ríkjum Mið-Ameríku juku straum flóttamanna til landsins og magn ólöglegra fíkniefna jókst og skapaði nýja tegund spillingar.

Arias forseta varð ekki mikið ágengt, en tókst þó að lækka skuldir landsins lítillega.  Honum tókst þó að koma sér á framfæri á alþjóðavettvangi.  Hann var ríkur kaffiræktandi og pólitískur refur, sem notaði mestan hluta kjörtímabilsins til að stjórna friðarhreyfingu í Mið-Ameríku, sem hafði það markmið að binda enda á átökin í El Salvador, Nikvaragva og Gvatemala.  Honum varð nokkuð ágengt, þótt hann fengi lítinn stuðning frá Bandaríkjamönnum.  Árið 1987 fékk hann friðarverðlaun Nóbels fyrir viðleitni sína.  Árið 1990 hefði hann getað boðið sig fram á ný en tók við Rafael Angel Calderón Fournier úr PUSC-flokknum.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM