Búseta.
Allt frá landnámi Evrópumanna hefur Miðhásléttan verið
aðalbúsvæðið. Á 19.
öld dreifðist byggðin út frá Cartago og San José í vesturátt í
dalnum. Þessi útþensla
byggðist á kaffirækt smábænda, sem eru enn þá við lýði, því
að meðalstærð kaffibýla er u.þ.b. 4 hektarar.
Alla
20. öldina hélt útvíkkun landnámsins áfram þar til búið var að
leggja allt hentugt land undir ræktun og ekki varð lengra komizt. Á láglendissvæðunum blómstraði bananaræktin frá 1880
til 1920, þegar plöntusjúkdómur kom upp og plantekrunum var lokað.
Nýjar tegundir banana, sem höfðu meiri mótstöðu gegn sjúkdómum,
voru teknar til ræktunar við Karíbahafið á sjötta áratugnum og
efnahagurinn batnaði. Árið
1938 var hafið landnám á Kyrrahafsströndinni og margar plantekrur
fyrir bananarækt voru settar á fót í kringum Parrita og Golfito.
Eftir síðari heimsstyrjöldina dró úr þessari starfsemi þar
til rekstri síðustu plantekrunnar var hætt 1985.
Sunnar stækkaði byggðin í Valle del General í tengslum við
lagningu samamerísku hraðbrautarinnar á sjötta áratugnum.
San Carlossléttan
er hluti norðurláglendisins.
Þar hófst landnám aðallega eftir 1945, þegar vegasamband
komst á við Meseta Central. Á
áttunda og níunda áratugnum gerðu bættar samgöngur aukin umsvif í
landbúnaði möguleg á þessu frjósama svæði.
Guanacastehérað í norðvesturhlutanum var eitt sinn hluti af
Nicaragua eins og menningaráhrifin bera enn þá með sér.
Þar vinnur fólk á stórum nautgripabúgörðum eða stundar
eigin búskap á litlum skikum lands.
San José
er eina stórborgin í landinu.
Í miðborginni eru aðalverzlanirnar, stjórnsýslubyggingar og
skrifstofur margra fyrirtækja. Háhýsi
eru fá og öll í miðbænum. Í
kringum hann hefur borgin vaxið í allar áttir og tengzt nágrannabæjum.
Á Stór-San Josésvæðinu, sem nær milli Alajuela í vestry og
Cartago í austri, býr u.þ.b. helmingur þjóðarinnar.
Íbúarnir
og trúarbrögð.
Hvergi í öðrum löndum Mið-Ameríku er fleira fólk af spænskum
uppruna en í Kostaríka og spænskir siðir og hefðir eru í hávegum
hafðar. Kostaríkaspænska
hefur sín sérkenni í framburði og notkun.
Íbúarnir eru gjarnan kallaðir „Ticos” vegna þess, að þeir
nota „-tico” í stað spænsku smækkunarendingarinnar „-tito”,
sem er reyndar notuð annars staðar líka en er ekki algeng í Mið-Ameríku.
Spænskan, sem er töluð í Guanacastehéraði, þar sem íbúarnir
(8% þjóðarinnar) eru blendingjar Spánverja, indíána og negra, líkist
meira Nicaraguaspænsku en Kostaríkaspænsku.
Fólk af afrískum uppruna býr flest á láglendishéraðinu Limón
við Karíbahafið (u.þ.b. 7% íbúa landsins búa þar).
Það er afkomendur verkafólks frá Vestur-Indíum, sem kom til
landsins til að vinna við lagningu járnbrauta og bananarækt og talar
flest bæði spænsku og Jamaíkaensku.
Talsvert er um afkomendur kínverja, sem komu í sama skyni til
landsins.
Amerískir indíánar
eru fámennur hluti þjóðarinnar, innan við 1%.
Bribrí og Cabécar eru fjölmennastir og búa einkum í dölum
Cordillera de Talamanca. Boruca
og Térrabafólkið býr í hæðunum í kringum dalinn Valle del
General. Nokkur hundruð
manns af Guatusoættbálki búa á norðursléttunum í Alajuelahéraði.
Indíánarnir blandast öðrum íbúum Kostaríka hratt en þeir,
sem búa í Suður-Talamancafjöllum Karíbamegin, halda siðum sínum,
hefðum og andatrú. Lögum
samkvæmt búa indíánarnir á verndarsvæðum og lifa af sjálfsþurftarbúskap.
Þeir eru meðal hinna fátækustu í landinu.
Rómversk-katólsk trú
er opinber trúarbrögð landsins og nær til
rúmlega 90% þjóðarinnar.
Þjóðkirkjan fær opinbera styrki.
Aðrir íbúar eru að mestu mótmælendur, flestir í Limónhéraði.
Í San José er lítið gyðingasamfélag.
Um
miðja tuttugustu öldina var íbúafjölgun meiri í Kostaríka en víðast
annars staðar í heiminum. Þegar
almennrar velmegunar fór að gæta og borgir stækkuðu, fór að draga
úr honum, þrátt fyrir meira langlífi og minnkandi barnadauða.
Lífslíkur í Kostaríka eru talsvert meiri en annars staðar í
Mið-Ameríku. Evrópskir
landnemar og siðir þeirra hafa mótað sögu landsins og haft áhrif
á einkenni þess. Straumur flóttamanna, mestizo (Spánv.+indíánar) frá
Nicaragua og öðrum Mið-Ameríkuríkjum og frá Kúbu, hefur sett
svipmót á þjóðina. Kostaríka
er orðinn vinsæll dvalarstaður eldri
borgara frá BNA, sem búa þar svo tugþúsundum skiptir. |