Santa
Marta er höfuðborg Magdalenahéraðs við lítinn fjörð við Karíbahaf
í Norður-Kólumbíu, u.þ.b. 64 km austnorðaustan ósa Magdalenaárinnar.
Borgin var stofnuð árið 1525 og er hin elzta í landinu.
Hún er tengd Magdalenaánni um mýrlent svæði með skurðum og
vötnum og varð hafnarborg Nýja-Granada.
Sjálfstæðishetjan Simón Bolívar dó á herragarði í jaðri
borgarinnar árið 1830.
Santa
Marta tók við viðskiptahlutverki hafnarborgarinnar Cartagena um miðja
19. öldina en síðan hallaði undan fæti vegna þess, að skipaskurðirnir
voru ekki nógu stórir fyrir gufuskip.
Eftir 1880 hófst útflutningur banana frá landbúnaðarhéruðunum
í suðri. Atlantshafsbrautin,
sem var lokið við að leggja árið 1961, opnaði fyrstu leiðina til
Bogotá. Borgin er í vega-
og flugsambandi. Tækniháskólinn
var stofnaður 1966. Áætlaður
íbúafjöldi árið 1982 var 234 þúsund. |