Kólumbía náttúran,
Flag of Colombia


KÓLUMBÍA
NÁTTÚRAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Flóran.  Allt frá dögum þýzka landkönnuðarins Alexander von Humboldt hefur lífríki landsins vakið mikla athygli og hrifningu.  Margbreytilegt loftslag, jarðvegur og landslag hefur alið af sér ótrúlegan fjölda jurta og jurtasamfélaga, bæði innan jafnhæðarsvæða og í mismunandi hæð yfir sjó.  Fjölbreytnin nær yfir fenjagróðurinn á ströndum landsins, runnana í La Guajira, steppugróðurinn og lífríkin í stöllóttu landslaginu Atlantshafsmegin og á Llanos-svæðinu, regnskógana á Amasón og Chocó-svæðinu og flókin lífríki fjallanna í hlíðum Andesfjalla.

Búseta
á Atlantshafsláglendinu og í Andesfjöllum hefur breytt gróðursamfélaginu þar gífurlega.  Líklega voru þessir landshlutar skógi vaxnir nema hæstu og þurrustu svæðin.  Nú vex skógur einungis í bröttustu og illaðgengilegustu hlíðunum og þar sem úrkoman er mest í Innri-Andesfjöllum.  Annars staðar hefur upprunalegur gróður vikið fyrir beitilöndum og ökrum og runnar og graslendi tekið við á svæðum, þar sem skógur hefur verið ruddur.  Fyrstu heimildir lýsa takmörkuðu skóglendi í Andesfjöllum vegna þess, að Indíánarnir stunduðu landbúnað og ruddu skóg.  Á síðari tímum hefur nautgripum fjölgað mjög, þannig að skógar hafa orðið að víkja fyrir beitilöndum, bæði í fjöllunum og á Atlantsláglendinu.  Þar eru ýmsar afrískar grastegundir áberandi.

Greinilegar búsetuminjar sjást enn þá á þrifalegustu skógarsvæðinum, s.s. meðfram austur- og vestur fjallgörðunum.  Þessi röku fjallaskógar einkennast af vafningsviði, mosa, orkideum, brómplöntum, hinni verðmætu kínínplöntu, balata (latexplanta), hnetutrjám og risabambusi.  Skógarhögg hefur ekki verið stundað þar að ráði vegna þess, hve erfitt er að koma því við og þarna vaxa fáar trjátegundir, sem eru verðmætar á markaði.  Með nútímatækni er auðveldara að nýta skóga á aðgengilegum svæðum í Atrato-dalnum og á Kyrrahafsströndinni í grennd við Buenaventura.

Hinn einkennandi heiðagróður í háfjöllunum við miðbaug er mest þróaðastur í Kólumbíu.  Þarna er aðallega um að ræða grashnoðra, púðaplöntur og 50 tegundir trjálíkra loðlaufunga.  Á heiðum neðan 3650 m er skörunarsvæði með dreifðum trjálundum.  Þrátt fyrir hráslagalegt og fráhrindandi loftslag, hafa íbúarnir breytt þessu umhverfi með skógarhöggi og eldi til að auka beitilönd.  Landbúnaðurinn hefur færzt inn á lægstu heiðasvæðin en allstór svæði eru enn þá ósnortin.


Fánan.  Dýralífið í regnskógum Amasón og Chocó-héruðunum á Kyrrahafsströndinni er auðugt af tegundum og þessi svæði hafa staðið undir talsverðum útflutningi til dýragarða í Norður-Ameríku og Evrópu.  Helztu dýrategundirnar eru mauraætur, letidýr, nokkrar apategundir, tapírar, villisvín, gleraugnabirnir, dádýr og stór nagdýr.  Meðal kjötætna eru fjallaljón og jagúar, sem var í útrýmingarhættu á 9. áratugi 20. aldar, og þvottabirnir.

Tegundir fugla fara eftir hæð yfir sjó og margar þeirra finnast aðeins á mjóum beltum.  Talið er, að rúmlega 1500 tegundir finnist í landinu, þ.á.m. hornnefir, kólibrífuglar og farfuglar frá Norður-Ameríku.

Skriðdýr:  Mikill fjöldi er af skjaldbökum, eðlum, snákum og krókódílategundum.  Ormarnir í moldinni geta tæplega tveggja metra langir.  Fjöldi ferskvatnsfiska er í vötnum og ám, þ.m.t. rafmagnsálar.  Miklar fiskveiðar voru stundaðar í ánum Magdalena og Cauca fyrrum, en mengun og ofveiði hafa dregið mjög úr þeim.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM