Kólumbía landið I,
Flag of Colombia

LANDIÐ II

KÓLUMBÍA
LANDIÐ

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Fá lönd í heimi státa af svipaðri fjölbreytni í landslagi og Kólumbía.  Lega þess í grennd við miðbaug skapar einstaka fjölbreytni í loftslagi, gróðri, jarðvegi og uppskeru.  Andes Cordillera, einhver stórkostlegasti fjallgarður heims, gnæfir yfir vesturhlutanum, þar sem flestir landsmanna búa.  Norðan landamæranna að Ekvador klofnar fjallgarðurinn í þrjá samhliða og minni.  Milli þeirra eru árdalir Magndalena og Cauca, sem opnast í átt að Atlantshafi.  Forn eldvirkni stíflaði miðbik Cauca-árinnar og stórt stöðuvatn, sem fyllti fyrrum vesturlægð Andesfjalla 190 km sunnan Cartago.  Áin gróf sig síðan í gegnum þessa fyrirstöðu og skildi eftir sléttan dal í 900 m hæð yfir sjó, sem er nú eitthvert bezta landbúnaðarsvæði landsins.

Kólumbísku Cordilleras eru hluti Norður-Andesfjalla, sem teygjast meðfram Kyrrahafsströnd Suður-Ameríku.  Andesfjöll eru meðal yngstu og hæstu fjallgarða heims.  Jarðsaga norðurhluta þeirra er minna rannsakaður en miðbikið og suðurhlutinn.  Ljóst er, að Cordillera hefur þrýstst upp vegna sigs hins hrjúfa austurjaðars Nazca-flekans og í norðri hverfur Kyrrahafsflekinn undir vesturjaðar Atlantshafsflekans, sem gliðnunin á Mið-Atlantshafshryggnum ýtir til vesturs.  Þessi tektónísku kraftar eru stöðugt að verki og minna reglulega á sig með öflugum jarðskjálftum eða eldgosum allt í kringum Kyrrahafið.  Í Pasto-fjallarisanum við landamæri Ekvador skiptast fjöllin í Cordillera Occidental (Vesturfjallgarður), sem liggur meðfram Kyrrahafsströndinni, og Cordillera Central (Miðfjallgarður), sem er fjær ströndinni í Kólumbíu með aðalstefnuna suðvestur-norðaustur með fjölda eldfjalla.  Í Mikla Kólumbíufjalllendinu í Cordillera Central í grennd við San Agustín fornleifagarðinn, klofnar Cordillera Oriental (Austurfjallgarður) í afgerandi norðausturstefnu.

Cordillera Occidental, sem skilur á milli Cauca-dalsins og úrkomusamrar Kyrrahafsstrandarinnar, er ekki eldvirkur, lægstur og strjálbýlastur.  Tvö fjallaskörð lægri en 1500 m milli Cali og Buenaventura eru lægsti hluti fjallgarðsins.  Annars staðar eru eggjar hans mun hærri og ná allt að 3960 m í Paramillo-fjalli í Antioguiahéraði. Þaðan teygist Cordillera Occidental norður í fjöllin Abibe, San Jerónimo og Avapel, sem eru skógi vaxin og lækka smám saman niður á lágar slétturnar við Karíbahafið.  Baudó-fjöllin við Kyrrahafið eru ekki eins áberandi og aðskilin Cordillera Occidental um dal Atrato-árinnar, sem rennur til Urabó-flóa við Karíbahaf.  Baudó-fjöllin teygjast suður frá Panamaeiðinu.

Cordillera Central er hæsti hluti Andesfjalla í Kólumbíu, að meðaltali 3000 m hár.  Hann er framhald eldfjallanna í Ekvador.  Jarðlög með kristallamyndunum, sem eru sums staðar sýnileg á yfirborði, eru aðalfundarstaðir gulls og silfurs.  Sandsteinn og hellugrjót frá tertíertíma (fyrir 66,5-1,6 milljón árum) er hulið ösku og hraunum frá u.þ.b. 20 eldfjöllum, sem hafa gosið á síðustu 1,6 milljónum ára.  Sum þessara eldfjalla eru allt að 4600 m há með snævi prýdda tinda.  Hæst er Huila (5750m) suðaustan Cali og Ruiz-Tolima kerfið (5400m) milli Manizales og ibaqué.  Frjósöm askan hefur myndað háar og svalar hásléttur í Narinohéraði og þakið hlíðarnar í norðri, þar sem mest er ræktað af kaffi í landinu.  Ruiz-fjall gaus í nóvember 1985, bræddi snjóinn og ísinn og olli gífurlegum aurflóðum, sem lögðu borgina Amero í eyði og ollu dauða rúmlega 25.000 manns.

Norðan Ruiz-fjalls, í grennd við Sonsón í Antiogquiahéraði, taka við mikið veðruð granítinnskot við af eldvirka svæðinu í u.þ.b. 2500 m hæð yfir sjó.  Þetta svæði skiptist í tvennt um djúpt gljúfur Porce-árinnar, sem rennum síðan um U-lagaðan dalinn, þar sem næststærsta borg landsins er (Medellín).  Granítinnskotin innihalda kvartsæðar með gulli, sem var burðarás efnahags landsins á nýlenduárunum.  Handan Antioquiahéraðs eru lægri og fjarlægari San Lucas-fjöllin, sem teygjast norður í átt að ármótum Magdalena- og Cauca-ánna.

Cordillera Oriental eru á milli Magdalegadalsins og Llanos.  Þau eru aðallega úr setlagafellingum og gömlu hellugrjóti og gneiss.  Þessi fjallgarður er mjóstur nyrzt og breikkar til suðurs í háu Sumapaz-fjallarisanum (4000m).  Háar sléttur mynduðust á síðustu 1,6 milljónum ára, þegar set fyllti upp lægðir, sem voru fyrrum fylltar vatni.  Hin mikilvægasta þeirra er Sabana de Bogotá.  Norðaustar, handan djúpra gljúfra Chicamocha-árinnar og þveráa hennar, rísa Cordillera Oriental hæst í Cocuy-tindi (Sierra Nevada del Cocuy; 5493m).  Á þessu svæði í grennd við Pamplona klofnar fjallgarðurinn í tvo mjórri.  Annar þeirra teygist inn í Venesúela og hinn, Perijá-fjöll, myndar norðurmörkin milli Kólumbíu og Venesúela.  Perijás-fjöllum hallar síðan norðuraf í átt að þurrkasvæði Guajira-skagans, sem er nyrzti staður Kólumbíu við Karíbahaf.

Santa Marta-fjöllin eru mikilfenglegur granítrisi, sem rís hæst í tvítindunum Cristóbal Colón og Simón bolívar (5775m), sem er jafnframt hæsti staður landsins.  Þetta fjalllendi rís bratt upp af strönd Karíbahafsins og er hulið snjó og ís efst.  Það er ekki hluti Andesfjalla en sumir jarðfræðingar eru á þeirri skoðun, að það sé framhald Cordillera Central en aðskilið frá honum um Mompós-lægðina í neðanverðum Magdalenadalnum.

Brött og óregluleg Andesfjöllin og dalir þeirra teygja hliðar sínar niður að sléttum meðfram Karíbahafi og Kyrrahafi og yfir innland austurhlutans í átt til vatnakerfa Orinoco og Amasón.  Upp af Karíbaströndinni teygjast smáhæðóttar steppur, sem eru tíðast kallaðar Atlantsláglendið eða Karíbaláglendið og umlykja hluta Santa Marta-fjalla.  Þarna verða árviss flóð meðfram ánum Magdalena og Sinú.  Mun mjórri láglendissvæði teygist meðfram Kyrrahafsströndinni frá Corrientes-höfða suður að landamærum Ekvador.

Landslagið meðfram báðum höfunum er allfjölbreytt.  Kyrrahafsmegin eru firðir með sæbröttum hlíðum, víkur, höfðar og skagar.  Karíbamegin brotnar aldan við rætur Santa Marta-fjalla.  Báðum megin eru víða flatar sandstrendur inni á milli og lón.

Búseta handan Andesfjalla er ólík öðrum landshlutum.  Austurláglendið nær frá landamærum Venesúela meðfram ánum Arauca og Meta í norðri að landamæraánni Putumayo við landamæri Perú og Ekvador, u.þ.b. 1000 km sunnan Cordillera Oriental til austurs að Orinoco-Negro ánni (650 km).  Á þessu svæði er samræmi í landslaginu en um það liggja áberandi gróðurmörk.  Norðurmörk regnskóga Amasónsvæðisins (selva) teygjast inn í suðurhluta landsins.  Slétturnar milli Andesfjalla og Orinoco-árinnar eru að mestu grasi vaxnar og teljast stærsta steppusvæði Suður-Ameríku.  Þessi hluti láglendisins nefnist Llanos orientales (Austursléttur) eða bara Llanos.

Á sléttunum miðjum, milli Guaviare- og Caquetá-ánna, eru veðruð klettabelti hins forna Guiana-fleka, sem mynda slitróttan fjallgarð, sem fyssandi ár falla um.  Þarna eru vatnaskil milli ánna Amasón og Orinoco.  Ílöng og skógi vaxin Macarena-fjöllin, sem rísa 2500 m yfir umhverfið, eru u.þ.b. 100 km sunnan Villaviencio og mynda einangrað hitabeltissvæði.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM