Kólumbía íbúarnir,
Flag of Colombia


KÓLUMBÍA
ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Kólumbíu má skipta í fimm landfræðilega hluta:  Atlantsláglendið, Kyrrahafsströndina, Andesfjöll, Llanos og regnskógasvæði Amasón.

Andesfjöll og Atlantsláglendið eru búsetu- og efnahagslega mikilvægustu landshlutarnir.  Nú býr u.þ.b. fimmtungur íbúanna á hinu síðarnefnda og mestu þéttbýlissvæðin þar eru Barranquilla, Cartagena og Santa Marta, aðalhafnarborgirnar á Karíbaströndinni..  Ræktun nautgripa og blandaður landbúnaður eru hefðbundnar atvinnugreinar en stórbúskapur, sem byggist á ræktun hrísgrjóna, baðmullar og banana, hefur náð góðri fótfestu.  Áveitum fjölgaði verulega á síðari hluta 20. aldar, einkum í dölum ánna Sinú og Cesar.  Bananar eru ræktaðir til útflutnings á Urabá-svæðinu.

Kyrrahafsströndin er strjálbýl, enda eru þar víða regnskógar og jarðvegurinn er ekki nógu frjósamur.  Flest fólkið, sem býr þar, er afkomendur afrískra þræla, sem settust að í skógarrjóðrum meðfram ánum til að stunda sjálfsþurftarbúskap.  Þessi landshluti er ekki ýkja mikilvægur efnahagslega.  Eina hafnarborgin og mesta þéttbýlið er Buenaventura.

Andesfjöllin eru aðalmiðstöð stjórnsýslu og efnahagsmála.  Þar búa flestir og þar eru stærstu borgirnar, s.s. Bogotá, Medellín og Cali, sem eru stærstar í þessari röð.  Cauca-dalurinn, Sabana de Bogotá og Antioquia-hálendið eru efnahagslega mikilvægustu svæðin og þar er þróunin mest.

Llanos og regnskógar Amasón ná yfir u.þ.b. tvo þriðjunga Kólumbíu en þar er mjög strjálbýlt.  Þriðjungur íbúanna á þessum svæðum býr í Meta-héraði í Llanos, þar sem nautgriparækt hefur löngum verið hefðbundin atvinnugrein.  Bættar vegasamgöngur frá Andessvæðinu og olíufundir hafa ýtt undir frekari búsetu í útjöðrum beggja þessara landshluta.  Afskekktari svæði í Amasón voru mjög strjálbýl.  Þar bjuggu fámennir hópar indíána í samfélögum fram yfir 1990, þegar kókeinræktendur og skæruliðahópar settust að meðal þeirra.


Tungumál.  Kólumbíumenn hafa lagt mikla áherzlu á að halda kastilísku spænskunni hreinni.  Hún er opinbert tungumál landsins og tengslin milli spænskra og kólumbískra tungumálastofnana eru náin.  Spænska Kólumbíumanna er vissulega skotin ýmsum séreinkennum landsins, sem þessar stofnanir báðum megin Atlantshafsins sætta sig við.  Auk spænskunnar eru töluð rúmlega 180 tungumál og mállýzkur innfæddra.  Helztu slík tungumál eru arawakan, chibchan, cariban, tupi-guaraní og yurumanguí.

Uppruni.  Mestizo, kynblendingar hvítra og indíána, eru u.þ.b. 60% þjóðarinnar.  Negrar og múlattar (blendingar hvítra og negra) eru nálega 20% og búa aðallega í strandhéruðum og á hefðbundum sykurræktarsvæðum (Cauca-dalur og víðar).  Hvítu íbúunum, sem eru flestir af spænsku bergi brotnir, hefur fækkað í u.þ.b. 20%.  Hlutur hreinna indíána er aðeins 1%, sem er mun minna en í öðrum Andeslöndum.  Lítil áherzla hefur verið lögð á innflutning fólks til Kólumbíu, ólíkt flestum öðrum löndum Suður-Ameríku.  Samt sem áður eru þar smáir hópar innflytjenda frá Austur-Asíu, Miðausturlöndum og öðrum Evrópulöndum.

Trúarbrögð.  Rómversk-katólsk trú er ríkistrú og næstum allir landsmenn aðhyllast hana.  Kirkjan á djúpar rætur í þjóðfélaginu og tekur oftast af skarið í veigamiklum málum og hefur mikil áhrif á stjórn landsins.  Katólska kirkjan í landinu hefur ekki verið umbótasinnuð en þó gætti einhvers sveigjanleika síðla á 20. öldinni.  Trúfrelsi er tryggt í stjórnarskránni en áhrif mótmælenda eru lítil og sama á við um gyðinga.  Nokkrir ættbálkar indíána á afskekktum svæðum eru enn þá trúir hefðum forfeðranna.

Mikil fjölgun íbúa eftir síðari heimsstyrjöldina náði hámarki á sjöunda áratugnum.  Síðan dró verulega úr henni, jafnvel niður fyrir þróunina í öðrum ríkjum Latnesku-Ameríku, þótt hún væri enn þá mikil miðað við heimsmeðaltal.  Samdrátturinn virðist hafa orðið sumpart vegna áætlana og aðgerða ríkisstjórnarinnar til að draga úr frjósemi, áróðurs um áætlanagerð fjölskyldna og umbóta í menntamálum.  Talsvert hefur verið um brottflutning, einkum til Venesúela og BNA.  Kólumbíumenn hafa haft áhyggjur af brottflutningnum vegna atgervisflóttans og réttindaleysis ólöglegra innflytjenda í löndunum, sem fólkið flytur til.  Flóttinn af landsbyggðinni er enn þá vandamál í landinu.  Sveitafólkið er að leita að betri lífskjörum, flýja skæruliða og ofbeldi tengt eiturlyfjaviðskiptunum.  Seint á 20. öldinni lá talsverður straumur fólks til svæða í Llanos og á Karíbaströndinni frá hærra liggjandi svæðum.  Ör vöxtur borganna hefur haft aukið atvinnuleysi í för með sér.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM