Cali
er höfuðborg Valle del Cauca-héraðs í Vestur-Kólumbíu á báðum
bökkum Cali-árinnar í 1014 m hæð yfir sjó.
Hún er í jaðri hitabeltisins í Cauca-dalnum suðvesturhluta
landsins og var stofnuð 25. júlí 1536.
Þar var að verki Sebastián de Belalcázar.
Cali fór ekki að vaxa og dafna að ráði fyrr en á sjötta áratugi
20. aldar vegna samgönguleysis.
Hún er nú þriðja stærsta borga landsins á eftir Bogotá og
Medellín.
Fyrirtækið
CVC (Cauca Valley Corporation) hóf starfsemi í dalnum árið 1954 og
fljótlega lifnaði yfir landbúnaði og iðnaði.
Fyrirtækið stíflaði Efri-Cauca-ána til raforkuframleiðslu,
til að draga úr flóðahættu og áveitna þar sem áður var varla hægt
að draga fram lífið með jarðrækt.
Það stóð líka fyrir vélvæðingu í landbúnaðnum.
Cali er aðalmiðstöð dreifingar afurða dalsins og iðnaðurinn
er kominn á svipað stig og í borgunum Bogotá, Barranquilla og Medellín.
Meðal þess, sem er ræktað í ábataskyni í dalnum er
sykurreyr og kaffi og nýlega bættust við baðmull og soyjabaunir.
Nautgriparækt er mikilvæg vegna mjólkur- og kjötframleiðslu
og mikið er ræktað af kjúklingum.
Pappír (úr sykurreyr), lyf og efnavara eru meðal mikilvægrar
framleiðslu borgarinnar.
Cali
hefur verið mikilvæg miðstöð fyrir flutning og dreifingu í u.þ.b.
fjórar aldir og er í járnbrauta- og vegasambandi við allar helztu
borgir í norðausturhlutanum og við Kyrrahaf.
Þar er alþjóðaflugvöllur og herflugvöllur.
Borgin er vinsæll ferðamannastaður og laðar æ fleiri gesti að
sér á uppskerutíma sykurreyrsins og kjötkveðjuhátíðina.
Meðal menningar- og menntastofnana eru Forngripasafnið, Trúarlega
listasafnið, Borgarleikhúsið, Tónlistarhöllin, Menningarhöllin
o.fl. Vesturheimsíþróttaleikarnir,
sem eru haldnir á fjögurra ára fresti, voru haldnir þar 1971.
Áætlaður íbúafjöldi 1985 var rúmlega 1,3 milljónir. |