Yunnan Kína,
Flag of China


YUNNAN
KÍNA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Kunming (fyrrum Yünnan; 1,8 millj. íb.) er kölluð Borg hins eilífa vors vegna milds loftslags og grózkumikils gróðurs.  Hún er miðstöð stjórnmála, viðskipta og menningar í héraðinu Yunnan, þar sem rúmlega 20 þjóðarbrot (Miao, Dai, Bai, Loio, Hani, Naxi, Tíbetar o.fl.) búa.  Kunming er í u.þ.b. 1900 m hæð yfir sjó og umkringd fjöllum.

Þessi mismunandi þjóðarbrot ljá borginni sérstakt yfirbragð, sem kemur m.a. fram í framboði minjagripa.  Þarna er hægt að kaupa skrítnar tedósir úr silfri eða tini, skartgripi, belti, veggborða, pyngjur, hliðartöskur, fóðruð þjóð-búningastígvél, skinnhúfur, blússur, kjóla o.m.fl.  Yunnan-skinka og deigvörur (núðlur) eru meðal sérrétta héraðsins.  Þarna er 120 ára sérréttabúð, Guo Chao, sem selur núðlur.


Cui Hu Gongyuan-garðurinn
(Garður Grænavatns), dýragarðurinn og  héraðssafnið eru skoðunarverðir staðir auk margra fleiri í og umhverfis borgina.

*Dian Chi eða Kunging Hu-vatnið (300 km²) við suðvesturjaðar borgarinnar er ákaflega fallegt og vel þess virði að sigla um það.  Frá Long Men (Drekahliði) í vesturfjöllunum (Xi Shan; 15 km suðvestan Kunming) er stórkostlegt *útsýni yfir vatnið.

Á fjallinu Minfeng Shan, 7 km norðaustan Kunming er *Jindian (Gullna hofið).  Aðalbygging þess var steypt í bronz árið 1671.

Heilong Tan (Tjörn svarta drekans) er 15 km norðan Kunming í fallegum lystigarði.

Það er heilmikið ævintýri að skoða þorp hinna mismunandi þjóðarbrota í nágrenninu og sjá hina mismunandi þjóðbúninga þeirra.

Laugarnar ('Biyu Quan' = Jaðelaugar) í Anning, 40 km suðvestan Kunming, hafa verið þekktar öldum saman.  Þær eru 42°-45°C heitar.

**Steinskógurinn Shilin er 125 km suðaustan Kunming í sjálf-stjórnarsýslu Yi-þjóðarbrotsins.  Á fyrri jarðsögutímum hafa jarðskorpu-hreyfingar sprengt kalklög og myndað stórar sprungur, sem vatn og vindar veðruðu síðan og mynduðu kostulega skúlptúra, sem líkjast súlum, pagódum, dýrum, mönnum o.fl.

Xishuang Bana (Xishuangbana) er sjálfstjórnarsvæði Dai-þjóðarbrotsins (650.000 íb.; þriðjungur Dai og önnur þjóðarbrot) allra syðst í Yunnan.  Þangað er bezt að fljúga frá Simiao-flugvellinum eða aka í 4 klst.  Svæðið er oft kallað grasagarðurinn vegna mikillar grózku.  Það er 25.000 km² og um það streymir áin Sancang (= Efri-Mekong).  Aðalbærinn er Jinghong (Cheli; 400 km loftlínu suðvestan Kunming).  Hitabeltisgarðarnir og gróðurrannsóknarstöð fyrir hitabeltisplöntur eru þess virði að skoða nánar.  Í apríl ár hvert heldur Dai-fólkið litskrúðuga búddahátíð (drekabátakeppni) til að fagna nýju ári.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM