Verðlag
í Kína er með því hæsta í heimi.
Verzlanirnar eru í eigu ríkisins og geta sett upp hvaða verð,
sem þeim sýnist. Það,
sem er ódýrt, eru helztu nauðsynjavörur til heimilisins.
Verð listmuna og forngripa er oft miklu hærra en raunverulegt
verðmæti vörunnar. Það
er ekki venja að prútta um verð í ríkisverzlunum en því er öfugt
farið, þegar verzlað er við götusalana og á mörkuðum.
Prútt í verzlunum er álitið ókurteisi og er alveg
tilgangslaust, því að starfsfólkið má ekki breyta verðinu.
Verzlunarmöguleikar eru mismunandi eftir því, hvar er í
landinu. Í stórum borgum
eru 'Vináttuverzlanir', þar sem greitt er með gjaldeyrisskírteinum,
og úrval kínverskra vara er mikið.
Hótelverzlanir selja minjagripi og listmuni.
Erlendir ferðamenn eru velkomnir í öllum verzlunum.
Beztu
skilyrðin fyrir ferðamenn til innkaupa eru í Beijing. Þar er t.d. geysimikið vöruúrval í Vináttuverzluninni
við Jianguomenwaigötu (fatnaður, minjagripir, matvörur, áfengi,
skartgripir, forngripir, Maójakkar, silki, rósasilki o.fl.). Vöruhúsin bjóða ýmiss konar þjónustu, s.s. klæðskeraþjónustu,
þvottahús, gjaldeyrisskipti o.fl.
Vöruhúsið Baihuo Dalou við Vangfujinggötu er heimsóknar virði.
Þar kynnist fólk verzlunarvenjum kínverja sjálfra.
Á Dong-Fengmarkaðnum eru líka sölustaðir einstaklinga.
Rétt hjá markaðnum eru líka ýmsar sérverzlanir:
Jiahua með pelsa og leiðurfatnað, Peking Arts and Craft selur
kínverska list, Peking Painting Shop selur málverk, skrautritun og höggmyndir,
Chopsticks Shop selur matarprjóna af öllum gerðum og skreyttar
reykjapípur, hillur og göngustafi, Peking Arts and Trust Company við
Chongwenmennaigötu selur alls konar gamalt dót (leikbúninga, mottur
og húsgögn, Xinhua Bookshop' við Wangfujing er stærsta bókaverzlun
Kína (landakort, myndabækur og veggmyndir),
Waimen Shudian selur erlendar bækur.
Bóka-, forngripa- og listsafnarar finna margt við sitt hæfi
meðfram Liulichang. Þar
eru margar sérverzlanir og eftirmyndir fornra leirmuna.
Í Rongbaozhao eru nútímamálverk og þrykkimyndir falboðnar.
Í garði Tiantanhofsins er fjöldi verzlana með gömlu postulíni,
jaðe- og fílabeinsmunum, höggmyndum, dúfnaflautum, Cloisonné- og
bronsgripum. Fólk, sem kaupir forngripi, verður að gæta þess að fá
rautt vaxinnsigli, sem er í raun útflutningsleyfi. |