Futshou
(Fuzhou, Foochow), höfuðborg strandhéraðsins Fujian (Fukien), sem er
oft kallað 'Landslagsgarður Kína', er við ána Min (Min Jiang) ofan
ósa hennar við Austur-Kínahaf. Utan
ósanna er eyjan Matsu, sem Lýðveldið Kína á Taiwan ræður.
Þessi hafnarborg hefur ævinlega verið mikil viðskiptaborg.
Á 13. öld skýrði Marco Polo frá ýmsum tengslum sínum þar.
Eftir undirritun Nankingsamningsins árið 1842 varð Fuzhou
brezk höfn, einkum fyrir teútflutning.
Margir heimfluttir kínverjar hafa setzt að í borginni.
Auk
nokkura helgidóma borgarinnar er gaman að skoða 'Trumbufjall' (Gu
Shan; 670 m; austan borgarinnar), hofið Yong Quan Si frá 908, marga
laufskála, garða o.fl.
Kanton
(Canton, Guangzhou; 5 millj. íb.), höfuðborg héraðsins Guangdong (Kwantung)
og andleg og viðskiptaleg höfuðborg Suður-Kína, er við frjósama
óshólma Perluár (Zhu Jiang), eitthvert stærsta ræktunarsvæði hrísgrjóna
í landinu. Kanton er kölluð
'Suðurhlið Kína'. Hún
er mikilvægasta utanríkisviðskiptahöfnin,
mikil iðnaðarborg og samgöngumiðstöð (endastöð margra járnbrauta,
m.a. til Hongkong; alþjóðaflugvöllur).
Hún er fremri Shanghai, hvað viðskipti snertir.
Tvisvar á ári (vor og haust) er haldin stór og mikil vörusýning
(útflutningsvörur).
Borgin býr
yfir suður-kínverskum lífskrafti og iðni, þótt líka sé hægt að
finna þar ró og djúphygli utan skarkalans í lystigörðunum.
Í norðausturhlutanum
er lystigarðurinn Yuexiu Shan,
í norðvesturhlut-anum er Liu Hua með fallegu vatni.
Í vesturhlutanum er vatnið Liwan í vinalegu umhverfi, í
austurhlutanum er lystigarðurinn Don Shan.
Meðal
skoðunarverðra, sögulegra bygginga eru Liurong Si (Hof banyan-trjánna
sex), moskan Huaisheng Si (627) og fimm hæða pagódan Zhenhai Lou (laufskáli
með útsýni yfir vatnið; upprunalega frá 1380, endurbyggð eftir
bruna 1686; þar er borgarsafn Kanton.
Grafhýsi
píslarvottanna 72 frá 1911, minningarhöll fórnarlamba
uppreisnarinnar í Kanton 1927 og minningarhöll Sun Yat-sen, stofnanda
fyrsta kínverska lýðveldisins, frá 1931 minna á atriði úr nýlegri
sögu landsins.
Rómversk-katólska
dómkirkjan (1888) er ein stærsta kirkjan í Kína. Dýragarðurinn og grasagarðurinn eru skoðunarverðir.
Frá
Bai Yuan Shan (Fjalli hvíta skýsins; 382m), sem er hæsti staður borgarinnar, er
mjög gott útsýni. Litla
eyjan Sha Mian í Perlufljóti var eitt sinn undir brezkum og frönskum
yfirráðum. Þar í
grenndinni er áhugaverður frímarkaður.
Foshan (Fushan)
er 25 km suðvestan Kanton. Borgin
er kunn fyrir Shivanleirmunagerð og pappírsklippimuni.
Þar er líka athyglisvert taó-musteri helgað forfeðrunum frá
dögum Song-höfðingjaættarinnar.
Heilsubótarbærinn
Conghua er 75 km norðaustan Kanton. Heitu
laugarnar (Conghua Wenquan) þar eru allt að 71°C heitar. |