Shansi Shanxi Kína,
Flag of China


SHANSI  (SHANXI)
KÍNA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Norðurkínverska héraðið Shanxi teygist norður frá Hwanghohnénu og er prýtt fjallgörðum og stórum láglendissvæðum.  Það er hluti af lösssvæðum Kína.  Áin Fen He rennur um héraðið frá na - sv.  Þar er að finna einhverjar mestur kolabirgðir í jörðu í heiminum.  Saga héraðsins er löng og ófriðleg.  Vegna hernaðarlegra legu sinnar fyrir konungsríki Mið-Asíu (Jin, Norður-Wei og Norður-Qi) var það ætíð miðstöð valdhafanna.  Liu Yuan, ættfaðir Tanghöfðingjaættarinnar, herjaði á Suiættina frá Taiyuan og sigraði hana.

Taiyuan (Taijüan; 2 millj. íb.), höfuðborg héraðsins, stofnaði Chouhöfðingjaættin (1066-771 f.Kr.) undir nafninu Jinyang.  Menning blómstraði mest á dögum Tangættarinnar (7.-10.öld).  Árið 979 lét Songkeisarinn Taizu leggja borgina í rúst vegna þráa og þvermóðsku íbúanna í stjórnmálum.  Á rústunum reis borgin Taiyuan og íbúar hennar héldu áfram að vera yfirvöldum óþægur ljár í þúfu.

Helztu skoðunarverðir staðir eru hofið Jindaifu Si (helgað Jin, ráðherra, frá 14. öld), lamaklaustrið Chongshan Si, gamla stríðsguðshofið Guguandi Miao frá Songtímanum og hof hinna tveggja pagóda Yungzuo Si (16.-17.öld) sem er tákn borgarinnar.  Shanxi-héraðssafnið, sem er í hofi Jin-ættarinnar frá 12.-13. öld, á m.a. söfn bronzmynta, leirmuna og snemmbúddískra styttna.

Áahofið fræga, Jinci (5.öld), er 25 km suðaustan borgarinnar við rætur Xuanweng Shanfjalls.  Jin-fjölskyldan lét reisa það til minningar um Shuyu, son Wu konungs af Chou-ættinni.  Aðalhofið er Höll hinnar heilögu móður.  Þar stendur fjöldi styttna af ófrískum konum í líkamsstærð og freskur frá Songtímanum.  Þar er líka fjöldi minni safna.  Það er ágætt að sameina heimsóknir í þetta hof og Xuanxhong Sihofið (5.öld; steinstúpur).

Wutai
Shan-fjall (Fimmhjallafjall; 3058m) gnæfir yfir umhverfið 160 km suðvestan Taiyuan.  Það er eitt fimm heilagra fjalla búddamanna í Kína.  Margir pílagrímar koma þangað í heimsóknir í hof og klaustur ár hvert.

Nyrzt í Shanxi-héraði stendur borgin
Datong (Tatung; kolanámur) á lösshásléttu (1000 m.y.s.).  Fáum km norðar myndar Kínverski múrinn landamærin að sjálfstjórnarhéraðinu Innri-Mongólíu.

Gamli borgarhlutinn er hrífandi.  Þar eru nokkur falleg hús frá tímum Ming- og Qing-ættanna og fjöldi stórra mustera:  Hofklaustrið Huayan Si (efra og neðra klaustur; gott dæmi um helgibyggingarlist frá Liaotímanum (11./12.öld)).  Í efra klaustrinu eru búddalíkneski frá Ming-tímanum og freskur frá Qingtímanum.  Í neðra klaustrinu eru veggmyndir frá Liaotímanum og í aðalsalnum er safn búddahandrita.

Hofklaustrið Shanhua Si  (endurnýjað á 12. öld) á styttur frá ýmsum tímum, allt frá Liaotímanum.  Freskurnar fögru eru frá Mingtímanum.

Í miðborginni er hinn 44,8 m langi Níudrekaveggur þakinn glerjuðum flísum.  Hann var hluti hallar frá Mingtímanum, sem brann árið 1644.  Trumbuturninn er frá sama tíma.

**Yungang-klettahellarnir eru 15 km vestan borgarinnar.  Í þessum stórkostlegu hellum eru elztu blúddalíkneski Kína (rúmlega 50.000).  Það er gaman að virða fyrir sér breytinguna á listastefnunni frá grískum til kínversks liststíls.  Hellarnir 53, sem varðveittir eru, voru grafnir í sandsteininn á tímabilinu 460-494, blómaskeiði norðurkvíslar Weiættarinnar, sem átti þá aðalaðsetur í Datong.  Síðar flutti ættin sig um set til Luoyang og hellarnir hurfu í móðu gleymskunnar.  Fyrir framan þrjá stærstu hellana stendur Hið gamla klaustur (1652) steinbúddans.

Linfen.  Árið 2010 var þessi borg talin meðal 10 menguðustu staða jarðar.  Mengunin stafaði aðallega af bílaumferð og iðnaði.  Þrjár milljónir manna töldust verða meira og minna fyrir áhrifum hennar.  Ekki þýddi að hengja þvott út til þerris, því hann varð strax svartur af sóti.  Borgin er í aðalkolabelti Kína og alls staðar í hæðum hennar eru bæði löglegar og ólöglegar námur.  Sótið stafar af kolum, sem brenna stöðugt í borginni.  Alþjóðabankinn taldi að 16 af 20  menguðustu borgum heims væru í Kína.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM