Miðvestur Kína,
Flag of China


KÍNA
MIÐVESTURHLUTINN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Szetshuan-hérað (Szetshwan, Szechwan, Sichuan) er í suðvesturhluta landsins.  Nafnið þýðir Fjórar ár eða fjórar mikilvægustu þverár Jangtsekiang.  Héraðið er þéttbýlt láglendi, Chengdu (Rauða lægðin), umkringt stórum og háum fjallgörðum.  Þar búa kínverjar en í fjalllendinu vestan þess búa helzt Tíbetar og Búrmamenn.  Efri-Jangtsekiang rennur með suðausturjaðri Szetshuan.  Rauða lægðin er meðal mest nýttu landbúnaðarsvæða jarðarinnar (Hrísgrjónabúr Kína; sykurreyr, te sítrusávextir, sojabaunir, jarðhnetur o.fl.; silkirækt) og þar er rúmlega 2000 ára gamalt áveitukerfi.  Grundvöllur iðnvæðingar eru verðmæt efni í jörðu, s.s.kol, salt, jarðolía, málmar o.fl.).

Á þessu svæði er heitt og rakt loftslag allt árið.  Beztu tímabilin til að ferðast þar er um vor og haust.

Szetshuanbúar eru víðkunnir fyrir matreiðslu sína og mjög kryddaða rétti.

Chengdu (Chengtu, Tshengtu) hefur verið pólitísk, menningarleg og viðskiptaleg miðstöð þessa landsvæðis í rúm 2200 ár.  Nú er hún höfuðborg héraðsins í Rauðu lægðinni (Chengdu-sléttunni) skammt frá ánni Jin Jiang (Rósasilkisá).  Borgin er setur hefðbundins rósasilkisvefnaðar allt frá dögum Austur-Han-ættarinnar (25 f.Kr. til 220 e.Kr.).  Hið kunna skáld Tangættarinnar, Du Fu (712-770), bjó í Chengdu síðustu 10 ár ævi sinnar.

Á meðan hin 7 ára langa Lushan-uppreisn stóð yfir, flýði Tangkeisarinn Xuanzong (847-860) með hirð sína til Chengdu.  Marco Polo heimsótti borgina á valdatíma Kublai Kahn (1280-1295).  Í síðari heimstyrjöldinni flúði margt fólk frá austurhéruðunum, þ.á.m. margir vísindamenn, til Chengdu vegna japönsku ógnarinnar.  Önnur kínverska geimrannsóknarstöðin með skot-pöllum fyrir gervitunglaflaugar er í grennd við borgina (hin fyrsta er í Góbíeyðimörkinni í Innri-Mongólíu).

Helztu skoðunarverðir staðir Chengdu og nágrenni eru:  Hofið Du Fu, sem reist var á Songtímanum (10.-13.öld) þar sem lágreistur strákofi skálds-ins stóð; Wehshu Yuan-hofið (stofnað á 6.öld; nú safn); Wang Jiang Lou-garðurinn við borgarmörkin með fallegum bambusskógi, setrustrjám frá Qingtímanum og góðu útsýni yfir Rósasilkisána; Wohou Ci-hofið (í suðvesturhlutanum; frá 17.öld), sem helgað er hinum mikla stjórnmálamanni Zhuge Liang á tímum Ríkjanna þriggja (220-280).

Hibiskus og önnur blóm setja svip sinn á borgina.  Meng Chang, konungur, byrjaði þegar á 10. öld að setja niður hibiskusblóm.  Flest húsin í gamla borgarhlutanum eru tveggja hæða og prýdd útskornum veröndum.

Dujiang Yan Þetta forna áveitukerfi, er við efri hluta árinnar Min Jiang, u.þ.b. 60 km norðvestan borgarinnar í Guanxian-sýslu.  Framkvæmdir við áveitukerfin á þessu svæði hófust á 3. öld f.Kr.

Leshan (Loshan) er u.þ.b. 130 km sunnan Chengdu.  Bærinn stendur við járnbrautina til Kunming.  Þessi braut liggur um stórkostlegt landslag gljúfra Efri-Jangtsekiang og í gegnum 170 göng.  Við suðausturjaðar borgarinnar er *Stóri Buddha í Leshan, 71 m hátt líkneski af sitjandi Buddha frá 8./9. öld.  Höfuðið eitt er mælt 14,7 x 10 m.

Vestan Leshan (járnbrautin til Emei Xian) er hið fagra fjall *Emei Shan (E Mei Shan; 3099m), eitt helgasta fjall Kína meðal buddhamanna.  Í hlíðunum eru rúmlega 70 hof, hin elztu frá 2. öld e.Kr.

Wulong-Panda-verndarsvæðið
í vesturhluta Szetshuan er að mestu lokað en undanþágur eru veittar í sérstökum tilfellum.  Stóru bambusbirnirnir, sem eiga heima í bambusskógum Sxetshuan og Yunnan, eru í alvarlegri útrýmingarhættu.  Fjöldi einstaklinga þessarar dýrategundar, sem lifir frjálsu og vernduðu lífi, hefur verið áætlaður 1000 í öllu Kínaveldi.

Tshungking (Chungking, Chongqing; 7 millj. íb.) við suðausturjaðar Rauðu lægðarinnar er á stöllóttri klettaöxl ofan ósa Jialing Jiang, sem hin skip-genga Jangtsekiang tekur við, og er mikilvæg innanlandshöfn.  Þessi kvika iðnaðarborg er viðskiptamiðstöð Szetshuan (þunga- og léttiðnaður, kolavinnsla skipasmíðar o.fl.).  Borgin er víðkunn vegna hlutverks síns sem 'stríðshöfuð-borg' Kína á meðan á innrás og hersetu Japana stóð í síðari heimstyrjöldinni. Þar sat deild úr kommúnistaflokknum, KPCh., sem útlagastjórn Kína á stríðs-árunum.  Tshungking getur líka ein fárra borga í heiminum státað af rúmlega 2000 ára sögu.  Hún hét Yuzhou á Tang-tímanum og var kölluð Yu.

Vegna legu borgarinnar í bröttu klettalandslagi eru þar margar þröngar tröppugötur upp úr dalverpunum til efri byggða.  Auk dýragarðsins og náttúrugripasafnsins eru margir skoðunaverðir staðir í Tshungking.  Skammt frá miðborginni er fjallið Pipa Shan (uppi á því er m.a. Borgarsafnið).  Þaðan er mjög gott útsýni yfir borgina.  Hús Tshiang Kai-shek var nýlega endurnýjað.

Utan borgarinnar er gaman að líta á hverasvæðin Beiwenquan (norð-vestantil í Beipei; 32-37°C) og Nanwenquan (25 km sunnan borgarinnar; 35°C).

Í nágrenni sýsluborgarinnar
Dazu, 80 km vestan Tshungking, eru rúmlega 40 staðir með yfir 50.000 **Búddalíkneskjum frá 9.-13. öld, sem eru höggnar út úr klettunum.  Athyglisverðastar eru þær, sem er að finna við fjöllin Baoding Shan og Bei Shan.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM