Macao Kína skoðunarvert,
Flag of China


MACAO
SKOÐUNARVERÐIR STAÐIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

MACAO-SKAGINN.  Shun Tak er miðstöð ferjusamgangna milli Macao og Hongkong.  Þaðan er hægt að aka með rútu eða leigubíl inn í miðbæinn, þar sem flest hótelin eru.  Þegar komið er fram hjá áhorfendapöllum kappakstursbrautarinnar blasir hið sérkennilega Lisboa-hótel við og þar stendur stytta af Ferreira do Amaral landstjóra og stofnanda hins sjálfstæða Macao.

Menningar-, íþrótta- og afþeyingarmiðstöðin 'Macao Forum' (í grennd við ytri höfnina á austurhluta skagans) var opnuð árið 1985.  Rua da Praia Grande liggur í skugga trjánna frá höfninni.  Milli Lisgoa-hótelsins og innri hafnarinnar (á vestanverðum skaganum) liggur Avenida Infante Dom Henrique þvert yfir skagann.  Þá kemur Avenida Almeida Ribeiro, aðalverzlunargatan.

Í miðbænum breiðir Avenida Lameida Ribeiro úr sér og verður að Largo do Leal Senado, þar sem *Leal Senado (þinghúsið) stendur.  Viðurnefnið 'leal' (= löglegur, samstaða) fékk þingið eftir að hafa sent herskip til stuðnings portúgölsku hirðinni, þegar hún flúði til Brasilíu undan hersveitum  Napóleons árið 1809.  Núverandi þinghús var byggt á grunni annarrar byggingar árið 1784.  Forhliðin var gerð árið 1870 og öll byggingin var vandlega endurnýjuð á árunum 1939-1940.  Hún umlykur fallegan húsagarð.  Tröppur liggja upp í þingsalinn og í bókasafnið, þar sem er að finna nokkrar bækur frá 16. öld.

Við norðausturenda torgsins er Santa Casa da Misericórdia, fyrrum aðsetur líknarfélags, sem var stofnað árið 1498.  Jesúítinn Dom Melchior Nunes Cameiro Leitão, fyrsti biskup Kína og Japans, stofnaði þetta félag.  Höfuð hans er varðveitt í gleríláti.

Aðeins austar er *Sé Catedral (1844-1850; endurbyggð 1938) á grunni kirkju frá 17. öld.  Kirkjan er í fornrómverskum stíl (basilíka) með tveimum turnum.  Í kistu yfir kapellunni eru jarðneskar leifar kristinna, japanskra píslarvotta, sem voru myrtir á 17. öld.

Frá þinghúsinu liggur Rua Central í suðvestur til stærstu kirkjunnar á þessu svæði, Santo Agostinho (1586; endurnýjuð 1814; endurbyggð 1875).  Beint á móti henni er *Teatro Dom Pedro V., sem tilheyrir nú Club de Macao.  Örfáum skrefum lengra er São Lourenço-kirkjan frá 16. öld (oft breytt á 19. öld).  Hún er í barokstíl að innan.  Bak við hana í brekkunni er gamli og fallegi borgarhlutinn í Macao.

Beint fyrir aftan São Lourenço er St.-Joseph-Seminar (kennaraskóli) og kirkja frá 1746-1758 með tröppum upp forhliðina.  Þarna er safn um trúarlist.

Mjó gata liggur frá São Lourenço niður að *Bahia da Praia Grande.  Þar er landstjórahöllin (stjórnsetur Macao; 3 hæða bygging í klassískum stíl).

Sé haldið áfram að suðurodda skagans eftir Praia Grande, er komið að götu, sem liggur upp á hæðina *Penha að kapellu og biskupssetrinu.  Þaðan er gott útsýni yfir borgina og höfnina.  Aðeins neðar er rósrautt, gipshúðað og skreytt hús, þar sem landstjórinn býr.

Göngutúr um odda skagans, handan múra Barra-virkisins, þar sem er nú São Tiago er nú, og 'Marine-verzlunarinnar', leiðir til 'Ma-Kok-musterisins, sem er helgað sjávargyðjunni A Ma.  Hið 600 ára gamla musteri er byggt á kletti og þar er litrík lágmynd af skipi, sem gyðjan kom með.  Elzti hluti hofsins er lítill skáli hægra megin við innganginn.

Á vesturhluta skagans (norðan innri hafnarinnar og Avenida Almeida Ribeiro) eru Camões-garðarnir með útsýni yfir innri höfnina og hæðirnar handan landamæranna í Kína.  Þetta er mun fegurra útsýni en fólk nýtur frá 'New Territories' í Hongkong.  Í garðinum er hellir, sem er helgaður portú-galska skáldinu Luis de Camões, sem bjó líklega í Macao, þegar borgin var stofnuð.  Þarna er líka **Safn Luis de Camões, eitt verðmætasta listasafn í Austur-Asíu.  Safnhúsið var reist árið 1770 sem stjórnstöð Austurindíafélags-ins en var breytt í safn árið 1860.  Kwantung-leirmunirnir í safninu eru sér-staklega athyglisvert.  Málverkin eru að mestu leyti frá fyrri hluta 19. aldar.  Í grennd við safnið er kirkjugarður mótmælenda, sem er líka athyglisverð arfleifð fyrri tíma.

Hið allra skoðunarverðasta í Macao er **forhlið São Paulo-kirkjunnar.  Kirkjuna byggðu japanskir katólikar undir stjórn ítalskra jesúíta á árunum 1601-1637.  Hún brann árið 1835.  Forhliðin er sérstæð blanda evrópsks og austræns byggingarstíls og bezt er að skoða hana nákvæmlega í kíki.

Frá fyrrum virkinu 'São Paulo do Monte' (1620; gamlar fallbyssur) er gott útsýni.

Uppi á Guia-hæð er líka gamalt virki (1637).  Þar er líka kapella og elzti vitinn á Kínaströnd, sem var fyrst kveikt á árið 1865.  Þessi hæð er hæsti staður í Macao og þaðan er bezta útsýnið yfir allt svæðið við ósa Perlufljóts.

Í norðanverðum miðbænum, við Avenida do Coronel Mexquita, er *Kwan-Yin-hofið (líka þekkt sem Kun Yam Tong), sem er líkt völundarhúsi.  Inni í því eru falleg búddalíkneski og í aðalsalnum er útskorið líkan af gyðju miskunnarinnar.  Í garði hofsins er steinninn, sem fyrsti samningur milli Kín-verja og Bandaríkjamanna (1844) mun hafa verið undirritaður á.  Sá orðrómur er uppi, að hofið sé helgað Marco Polo.

Enn norðar er *Lin-Fong-hofið, sem er líka kallað Lótushofið.  Taóistar reistu það árið 1592 og var lengi hvíldarstaður ferðamanna á leið til Kína.  Við garðhliðið standa kínverskar þjóðsagnaverur úr steini vörð.

*Porta do Cerco við norðurmörk Macao er landamærastöð, sem farið er um í dagsferðum til Kína.

Á bakaleiðinni að þinghúsinu er hægt að skoða *hús Dr. Sun Yat-sen við Avenida Sidónio Pais.  Það er í márískum stíl og var byggt til minningar um stofnanda fyrsta kínverska lýðræðisins, Sun Yat-sen (1866-1925), sem starfaði sem læknir í Macao.  Upprunalegt íbúðarhús hans var notað sem sprengiefnageymsla og skemmdist í sprengingu.

Sunnar eru minnismerki um sigur yfir hollenzka flotanum, sem réðist á Macao árið 1622 og Vasco da Gama, sem fann sjóleiðina til Indlands.  Í endurbyggðu húsi í nýlendustíl við Avenida Conselheiro Ferreira de Almeida eru skjalasöfn, þar sem er að finna bækur og skjöl um portúgölsku nýlenduna og samband hennar við Kína og önnur nágrannaríki.  Aragrúi skjala er varð-veittur á smáfilmum.


TAIPA  OG  COLOANE.
Eyjarnar úti fyrir Macao-skaga eru sérstakir heimar.  Taipa er sunnan fallegu Taipa-Macao-brúarinnar.  Hún er kunnust fyrir brokkvöllinn og háskóla Macao.  Þar er líka gamla kirkjan 'Senhora do Carmo' og húsgagna-safn í endurnýjuðu nýlenduhúsi á strönd 'Taipa Village'.  Það eru fimm lítil kínversk musteri á eyjunni.  Tin-Hau er þeirra kunnast.  Það var byggt skömmu eftir aldamótin 1800 og hýsir skreytta kistu með gyðjumynd.  Flug-eldaverksmiðjur Macao, sem eru mikilvægar fyrir útflutning Macao, eru á eyjunni.

Vegurinn frá Taipa til Coloane er á uppfyllingu.  Þar er skipasmíðastöð fyrir júnka, tvær víkur með baðströndum og áhugaverð kirkja frá fyrri hluta 20. aldar. Hún var byggð til minningar um portúgalska hermenn, sem björguðu börnum úr klóm sjóræningja.  Nærri henni, í gömlu hofi, er skip, sem var skorið út úr stóru hvalbeini.  Pousada de Coloane-hótelið er við Cheoc-Van-víkina.  Þar er einnig orlofsstaður fyrir starfsmenn olíufélags, sem leitar olíu í Suður-Kínahafi.  Við Hac-Sa-víkina á austanverðri eyjunni er líka tómstundastaður með grillstóm, minigolfi, íþróttaaðstöðu o.fl.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM