Kína loftslag,
Flag of China


KÍNA
LOFTSLAG

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Loftslagið er mjög mismunandi í þessu stóra og fjöllótta landi, bæði frá norðri til suðurs og vestri til austurs.  Nyrzt og í háfjöllunum er mismunur árstíðanna verulegur, sumrin heit og veturnir mjög kaldir.  Suðurhlutinn er við jaðar hitabeltisins og þar er mjög heitt og rakt frá apríl til oktober, haust og vor eru tempruð en vetur svolítið svalari.  Miklar hitasveiflur og þurrkar ríkja Í eyðimörkunum í norðvesturhlutanum.  Loftraki er mikill allt árið á láglendis-svæðunum í grennd við austurströndina.

Í borgum norðurhlutans, s.s. Beijing, eru vetur kaldir.  Meðalhiti í desember til febrúar er undir -4°C í höfuðborginni.  Á þessum tíma fer hitinn sjaldan upp fyrir núllið.  Það snjóar óreglulega en rok og þoka eru algeng.  Frá júní til ágúst fer hitinn ekki niður fyrir 24°C og meðalhámark er 26°C, þótt 30°C séu algengar.  Heitasti mánuður ársins er júlí.  Mest rignir í Beijing í júlí og ágúst.  Vor (apríl-júní) og haust (sept.-okt.) eru þægilegust fyrir ferðamenn, sem hyggast heimsækja Norður-Kína.  Þá er hitinn bærilegur, himinninn heiður og sjaldan þokusamt eða rigning.

Borgirnar meðfram Jangtsekiang eru allt of heitar á sumrin.  Nanking, Wuhan og Tshungking eru kallaðar svitakistur Kína.  Í Shanghai, við ósa Jangtsekiang, er heitast (>24°C) frá maí til miðs oktober.  Ágúst er heitasti mánuðurinn.  Þá getur hitinn farið yfir 35°C.  Frá desember til marz getur hitinn farið niður að frostmarki í Shanghai.  Rakastigið er jafnhátt allt árið.  Árleg meðalúrkoma á þessu svæði er nálægt 1140 mm.

Í Guangzhou (Kanton), nærri suðurströndinni, fer meðahitinn yfir 21°C á tímabilinu oktober til apríl og yfir 30°C frá maí til september.  Í janúar og febrúar fer meðalhitinn niður í 10°C.  Árleg meðaúrkoma er u.þ.b. 1600 mm og dreifist jafnt yfir árið.

Torfærur fjallanna, eyðimarkanna og steppnanna í vesturhlutanum hafa valdið því, að upprunalegt dýralíf og flóra hefur varðveitzt ósnortin.  Á lág-lendari svæðum austurhlutans hefur landbúnaður, iðnvæðing og búseta þrengt að náttúrunni, breytt henni eða eyðilagt.

Háfjöllin (3000-4000m) í suðvestri og vestri eru vaxin barrskógum (lerki, furu), þar sem margar villtar dýrategundir ráfa um.  Þau lækka niður í hæðótt landslag og sléttur, þar sem jakuxar (bos mutus), svartbirnir (ursus thibetanus), argali eða altai-sauðfé (ovis ammon ammon), takin eða nautgemsur (budorcas taxicolor), úlfar og fjöldi gasellu- og antilóputegunda lifa.

Í fjallendum norð- og suðausturhlutanna (100-1500m) eru enn þá allmiklir lauf- og blandskógar (álmur, mösur, birki, linditré, eski, eik).  Hærra uppi ríkja barrskógar. Þar lifa safalar, rauðrefir, sika- og rauðhirtir, svartbirnir, desdýr (moskusdýr), tígrar og hlébarðar.

Umhverfis eyðimerkurnar í Tarimdældinni og Gobi eru hrjóstrug svæði, sem breytast í þurrar steppur er fjær dregur.  Þar lifa nægjusamar dýrategundir, s.s. stökkmýs og múrmeldýr.  Á mongólska hálendinu er enn þá að finna nokkra drómedara (camelus ferus), mongólska villihesta, múldýr (t.d. onager) og antilópur.

Bambusskógar Kína hafa næstum aleyðzt.  Í vesturhluta Sichuanhéraðs í suðausturhlutanum eru einhverjar leifar, þar sem síðustu bambusbirnirnir (stóra panda; ailuropoda melanoleuca) lifir enn þá í útrýmingarhættu.  Árið 1988 voru u.þ.b. 1000 birnir á lífi.  Svæðin, sem birnirnir finnast á, eru vandlega varðveitt og lokuð allri umferð.  Sunnan Jangtsekiang eru jaðarsvæði hitabeltisins, þar sem vaxa sígræn tré (fura, sedrusviður, bambus, kamfúrutré, korkeik, kastaníutré, paulowníutré, tingtré, hin fornu ginkgótré og meta-sequoiatré, sem eru smám saman að hverfa.  Helztu villtu dýrin í suðaustur-hlutanum eru fasanar, litlu bambusbirnirnir (litla panda; ailurus fulgens), fjöldi apategunda, sambarhirtir, muntjak (muntiacus muntjak), tíbetkettir, svifíkornar þokupardusdýr, hlébarðar, tígrar, hreisturdýr (pangólín), vatnadádýr og krókódílar.

Sígrænu regnskógarnir í hitabeltinu (bananar, litshi, longyan, mangó) og fenin með fenjatránum í suðurhlutanum eru bústaðir apa og hálfapa (makakar, loris, gibbonar), mungókatta (indverskir kettir), eyrnaíkorna, tígra og fíla.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM