Vestur Kína,
Flag of China


KÍNA
VESTURHLUTINN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Sinkiang
Sjálfstjórnarhéraðið Sinkiang (Hsinchiang; Xinjiang) í Uiguríu nær yfir hið stóra landsvæði Austur-Túrkestan, norðvestast í Kína.  Þar eru stór eyðimerkursvæði Vestur-Góbí, Dsungarei, Tarim-lægðarinnar, saltvatnið Lop Nor (Lo-Pu Po; oft uppþornað; Lop Nor er rétt sunnan við miðstöð kjarnorkurannsókna- og tilrauna kínverja) og Taklamakaneyðimörkin.  Risháir fjallgarðar prýða líka landslag Sinkiang, s.s. Altai-fjöll í norðri, austurhluti Tien-Shan um miðbikið, hlutar Tamir- og Karakorumfjalla í vestri og Kulun-Shan og tíbezka hálendið í suðri.  Turfanlægðin liggur langt undir sjávarborði og þar er mjög heitt á sumrin.

Íbúarnir eru flestir af minnihlutahópum, sem eru flestir af tyrknesku bergi brotnir.  Umburðarlyndi gagnvart trúarbrögðum hefur farið vaxandi í Kína og þess njóta m.a. múslimar í Sinkiang, s.s. 5 milljónir Uigúra, tæp 1 milljón Kasakstana, hálf milljón Hui, Kirgísa, Tadsíka, Úsbeka, Mongóla og Tatara (< 1% íbúanna).  Hankínverjar hafa löngum verið hvattir til búsetu í Sinkiang og fjöldi þeirra er nú svipaður og fjöldi Uigúra.  Langra landamæra fylkisins að Rússlandi er vel gætt.  Handan þeirra eru hersveitir Rauða hersins gráar fyrir járnum.  Rússlandsmegin búa líka Uigúrar og Kasakstanar.

Þegar á 2. öld f.Kr. lá mikilvæg samgönguleið um Sinkiang til vesturs fyrir kínverja og oft kom til átaka milli þeirra og þjóðflokka af öðrum stofni í þessum landshluta.  Á miðri 18. öld var Sinkiang loks innlimað í ríkisheildina og á 19. öld gerðu tyrkneskir múslimar árangurslausar uppreisnir og Rússar reyndu án árangurs að sölsa svæðið undir sig.  Árið 1884 tók miðstjórn Kína öll völd í fylkinu, sem fékk verulega sjálfstjórn á árunum 1912-1944.  Árið 1955 varð Sinkiang opinberlega sambandsríki og að lokum sjálfstjórnarfylki í Kínverska alþýðulýðveldinu.

Tiltölulega nýlega ákváðu kínversk yfirvöld að auka ferðaþjónustu í þessum heillandi og lítt kunna hluta ríkisins, þar sem er forvitnilegt að kynnast deiglu þjóðflokka í strjálbýlu landi.  Mikið skortir þó enn þá á, að móttökuskilyrði ferðamanna sé góð, þannig að fólk, sem leggur leið sína þangað, verður að búa sig undir ýmis óþægindi.  Sumrin eru mjög heit og vetur ískaldir.  Bezt er að heimsækja Sinkiang vor og haust.

Rauði þráðurinn í ferðum til Sinkiang er Silkileiðin fræga milli vinja eyðimarkanna, alla leið til Miðjarðarhafs.  Auk þess eru skipulagðar heimsóknir til byggða Uigúrabyggða í eyðimörkinni og hirðingjatjalda Kasakstana í fjallaþorpunum.  Gestum er boðið að horfa á eins konar pólóleik, þar sem geitarskrokkur er notaður sem bolti.  Dýralífið er líka aðdráttarafl og áætlað er að gefa gestum tækifæri til að stunda veiðar.

Urumchi
(Urumqi; Fagurengi; áður Tihwa; á kínversku Wulumuqi), höfuðborg sjálfstjórnarfylkisins Sinkiang, er í vin við norðurrætur Tian-Shanfjalla á báðum bökkum Urumchiárinnar (Wulumuqi He).  Borgin er endastöð járnbrautarinnar frá Mið-Kína (1872 km frá Lanzhou).  Einnig er hægt að komast til borgarinnar eftir þjóðveginum og flugleiðis.  Íbúarnir (Uigúrar og Kasakstanar) eru langflestir múslimar eins og mikill fjöldi moska gefur til kynna (u.þ.b. 30).  Fyrrum var Urumchi mikilvæg viðskiptamiðstöð við norðurhluta Silkileiðarinnar (minjar í Borgarsafninu).  Frá sjötta áratug 20. aldar hefur borgin verið miðstöð iðnaðar í héraðinu vegna mikilla birgða ýmissa efna í jörðu (kol, járngrýti, jarðolía o.fl.).

Tian Chi
(Himneska vatnið; 1980 m.y.s., 90 m djúpt), umkringt kýprus- og furuskógum, er í háfjöllunum norðausta Urumchi.  Þar bjóðast bátsferðir á sumrin á kristaltæru vatninu.  Á leiðinni þangað er ekið um sauðfjárbeitilöng Kasakstana, sem búa þar í hirðingjatjöldum sínum, og það er hægt að fá að kynnast lífi þeirra betur.

Turfan
(Turpan; kínv. Tulufan) er vin við norðurhluta Silkileiðarinnar, u.þ.b. 150 km suðaustan Urumchi við járnbrautina milli Urumchi og Lanzhou.  Hún fær vatn til áveitu um eldgamalt áveitukerfi frá Logafjöllum (850 m.y.s.).  Borgin stendur líka við jaðar hinnar óræktanlegu Turfan-lægðar ('Mánaskinsvatn', 154 m undir sjávarmáli), sem er umgirt Bogdafjöllum (5445 m.y.s.).  Hitastigið fer upp í allt að 50°C á sumrin í lægðinni.  Svo hátt hitastig mælist hvergi annars staðar í Kína.

Í vininni þrífast helzt vínviður (steinalaus og mjög sæt vínber; Sinkiangrúsínur), melónur (allt að 15 kg þungar) og baðmull auk mórberjatrjáa og korns.  Íbúar vinjarinnar eru flestir Uigúrar (u.þ.b. 11.000).  Gist er í fyrrum bækistöð úlfaldalestanna og að henni liggja gangsstígar girtir vínviði.

Rústir tveggja herstöðvabæja frá dögum Hanættarinnar (1. öld f.Kr.) hafa verið grafnar upp að hluta.  Önnur, Jiaohe, er 10 km austar, og hin, Gaochang, er 40 km austar.  Enn austar og lítið eitt norðar er giljótt eyðimörk, þar sem er að finna tvenn *hellasvæði helguð Buddha.  Þau bera bæði sama nafnið: "Þúsund Buddha hellarnir".  Annað er frá 3./4. öld en hitt frá 6.- 14. öld.  Á árunum 1902-1914 störfuðu þar fjórir þýzkir fornleifaleiðangrar, sem fundu verðmæt líkneski, freskur og handrit.  Hluti þessara fornleifa var fluttur til Berlínar, þar sem þær eru til sýnis í Turfan-deildinni í Vesturberlínska þjóðminjasafninu.  Hofin og handritin, sem eru skrifuð á fjölda tungumála og með margs konar letri, eru minjar frá Buddhamönnum, kristnum og manikeum.  Buddhatrúin breiddist út frá Indlandi um Turfan til Kína.

Kutsha
(Kucha; kínv. Kuche) er enn ein vinin við 'Silkileiðina' 400 km suðvestan Urumchi við suður-rætur Tian-Shanfjalla og norðurjaðar Taklamakaneyðimerkurinnar.  Þangað er bezt að komast landleiðina frá Aksu.  Þar er hægt að kynnast hinum gömlu Quiciþjóðháttum (dönsum og söng).   *Buddha-hellarnir í nágrenninu gefa hellunum við Dunhuang ekkert eftir.

Aksu (Aqsu; kínv. Akesu) er vinjarborg í Tarimlægðinni 700 km suðvestan Urumchi.  Hún er við norðurhluta Silkileiðarinnar og þangað er hægt að fara fljúgandi.  Ríkið hefur allmikil umsvif í og við borgina, m.a. reis þar sérstök deild fyrir landnám, sem kölluð er Tarimháskólinn, árið 1958.

Kashgar
(kínv. Kashi; fyrrum Shufu; í 1300 m.y.s.) er 1300 km suðvestan Urumchi, allravestast í Sinkiang og þar með Kína.  Þar komu saman tvær kvíslar 'Silkileiðarinnar', sem lágu sunnan og norðan við Taklamakaneyðimörkina.  Flestir íbúar borgarinnar eru Uigúrar og Úsbekar.  Þeir rækta ýmislegt í þessari frjósömu vin, s.s. korn, baðmull og silkiorma, og stunda vefnað, teppa- og leirmunagerð.  Í Kashgar er flugvöllur og þaðan liggja mikilvægir þjóðvegir til Rússlands og Pakistan ('Karakorumbrautin, sem liggur um hið 4709 m háa Khunjerabskarð).

Chotan
(Khotan; kínv. Hetian; 1400 m.y.s.) er vinjarborg 1100 km suðvestan Urumchi (ræktun ávaxta, silkiframleiðsla, teppavefnaður, jaðeskurður o.fl.) við suðurjaðar Taklamakaneyðimerkurinnar.  Bezt er að fara landveginn frá Kashgar um Yarkand (Jarkend, Suoche; 190 km) til þessar fyrrum bækistöðvar við Silkileiðina.  Í nágrenninu eru rústasvæði frá dögum grískrar- og Búddamenningar, sem blönduðust á 3.-6. öld.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM