Eyjan er 4.827 km².
Höfuðborgin er Port-of-Spain.
Flugsamgöngur
fara um flugvöllinn Piarco Airport 15 km sunnan Port-of-Spain.
Þaðan og þangað er áætlunarflug frá Frankfurt/Main,
London, New York, Miami, Toronto, Caracas og frá öllum helztu eyjum
Karíbahafsins.
Komur
skemmtiferðaskipa eru alltíðar til Port-of-Spain (flest við kjötkveðjuhátíðir).
Fraktskip eru stöðugt á ferðinni milli Trinidad og Evrópu og
Suður-Ameríku. Mjög tíðar
ferðir eru til hafna í Venezuela.
Trinidad
er syðst Karíbaeyja, aðeins 25 km frá meginlandi Suður-Ameríku úti
fyrir mynni árinnar Orinoco. Fólkið,
sem eyjuna byggir, er af a.m.k. 45 mismunandi þjóðernum.
Skapgerðareinkenni þess og gleði kemur bezt fram á kjötkveðjuhátíðum.
Eyjan er heimaland kalypsótónlistarinnar og stáltrumbnanna.
Jarðfræðilega
er Trinidad hluti af venezuelsku eyjunum, sem liggja í vestur og austur
meðfram norðurströnd landsins. Þetta
sést bezt á þremur sundur slitnum en samhliða fjallgörðum á þessum
eyjum, þegar horft er á landakortið eða á þær úr lofti.
Nyrzti fjallgarðurinn, North Range, er vaxinn þykkum regnskógi.
Hann er úr myndbreyttu bergi og er sæbrattur í sjó fram á
norðurströndinni. Hæstu
tindar hans eru el Cerro del Aripo (941 m) og El Tucuche (937 m).
Miðfjallgarðurinn er ekki eins skarpur í landslaginu.
Hann er úr kalki (oligosene og miosene) og er ekki hærri en 300
m. Suðurfjallgarðurinn er úr kalksetlögum frá tertíer.
Hæsti hluti hans, Trinity Hills, sem er rúmlega 300 m, er á suðausturströndinni.
Hann olli nafngift eyjarinnar, þegar Kólumbus kom þar að
landi. Þetta landslag er
mjög stjálbýlt, erfitt yfirferðar og vaxið regnskógi.
Svæðin á milli fjallgarðanna, sem eru þakin árseti, mynda
hina svokölluðu Naparima-Penesléttu. Stærri
ár stemma að ósum í stórum lónum og fenjaskógum.
Flóran. Með tilliti til þess, að Trinidad var eitt sinn tengd suðurameríska
meginlandinu, er ekki undarlegt, að þar er fjölbreytni dýralífs og
gróðurs mest í samanburði við aðrar Karíbaeyjar. Hið ilmandi jasmíntré (Plumeria acuminata) er frægt,
einnig ponitréð (Tabebuia serratifolia) með trompetlöguðum blómum.
Kassie Fistula með fossandi, gylltum blómum er sérstaklega
fallegt. Í júní blómstrar
stolt Indlands (Lagerstroemia speciosa) og líkist helzt rósum. Madre
de Cacao er áberandi vegna
leiftrandi rauðra blóma (Erythrina spp.) og veitir ljósóþolnum kakóplöntunum
skugga. Víða sjást líka
Jacarandaplöntur (Jacaranda acutifolia) með bláum ávöxtum.
Chaconia eða villt jólastjarna er þjóðarblóm Trinidad og
Tobago. Hún er með rauðum
blöðum og finnst helzt í skógunum á norðurströndunum.
Einnig er að finna hundruð tegunda af orkideum, liljum (hin þekktasta
er engiferliljan (Heduchium coronarium), sem ilmar mjög vel, og fljótaliljan
(Spathi-phylium cannafolium).
Sagan.
Hin
núverandi eyja, Trinidad, var fyrrum tengd landbrú við meginland Suður-Ameríku.
Þessi tengsl rofnuðu ekki fyrr en við lok síðustu ísaldar,
þegar yfirborð heimshafanna hækkaði.
Eins og minnst er á hér að framan leiddi þessi brú til þess,
að jurta- og dýralíf var með svipuðu sniði og nálægustu slóðum
á meginlandinu sjálfu. Indíánarnir
kölluðu Trinidad Iere, sem þýðir land kólibrífuglanna.
Elztu
minjar búsetu eru frá arawökum, sem settust að fyrir u.þ.b. 2000 árum.
Þeir komu frá Gíneu eða að hluta til frá Venezuela yfir
Pariaflóann. Skömmu síðar
ruddust hinir herskáu karíbar í slóð þeirra og komu sér upp bækistöð
til frekari landvinninga á öðrum fámennari eyjum, einkum á
Grenadineeyjum, Barbados og St. Lucia.
Kólumbus
fann eyjuna í þriðju ferð sinni og hefur líklega verið undir áhrifum
suðurfjallgarðsins, þegar hann kenndi hana við heilaga þrenningu.
Upp úr því stofnuðu Spánverjar til byggðar, sem þeir
nefndu San José de Orun, núna St. Joseph. þeir fóru í könnunarleiðangra frá Trinidad til
meginlandsins, m.a. til að leita að El Dorado.
Vegna lítils stuðnings frá Spáni þróaðist byggðin ekki
sem skyldi og eyjan var tiltölulega auðveld bráð fyrir ævintýramenn
og sjóræningja.
Árið
1595 fann Englendingurinn Sir Walter Raleigh biktjörnina Pitch Lake og
notaði efnið til að bika skip sín.
Á 17.öld rændu og rupluðu franskir og hollenzkir sjóræningjar
þessa spænsku nýlendu, sem þegar var farið að flytja afríska
negraþræla til.
Á
síðari hluta 18.aldar fékk Philipe de St-Laurent, franskur landnemi,
Trinidad að léni frá spænska konunginum.
Sykurreyr var fluttur inn og góðæri kom í kjölfarið.
Á tímum frönsku stjórnabyltingarinnar, sem olli miklum óróa
á Haiti, komu margir franskir landnemar til eyjarinnar.
Í
ensk-spænska stríðinu lögðu könnunarherdeildir Breta eyjuna undir
sig árið 1797 og í friðarsamningunum í Amiens fengu Bretar
endanlega yfirráð yfir henni. Hún
var brezkt yfirráðasvæði til ársins 1962.
Eftir
árið 1832, þegar þrælarnir fengu frelsi og allt fram til 1914, komu
asískir verkamenn í stað negranna, sem flestir höfðu gerzt sjálfstæðir
smábændur. Þetta olli
mikilli innflytjendaöldu, þannig að þegar fyrir fyrri heimsstyrjöldina
voru næstum 50% íbúanna hindúar, múslimar og persar.
Í
byrjun 20.aldarinnar barðist Arthur Cirpiani, þjóðhetja af korsísku
bergi brotin, fyrir réttindum og einingu eyjaskeggja, sem voru af mjög
mismunandi bergi brotnir, og hlaut mikla virðingu fyrir eftir að hafa
verið borgarstjóri í Port-of-Spain í mörg ár.
Í
seinni heimsstyrjöldinni byggðu Bandaríkjamenn margar herstöðvar á
eyjunni til að vernda skipalestir bandamanna.
Árið
1947 annaðist Sir John Shaw landstjóri uppbyggingu iðnaðarins, sem nýtur
ýmiss konar stuðnings ríkisins.
Árið 1962 fékk Trinidad heimastjórn og síðan 1. ágúst
1976 hafa Trinidad og Tobago verið forsetalýðveldi með þingbundinni
stjórn. Árið 1986 ollu
sparnaðaraðgerðir ríkis-stjórnarinnar mikilli ólgu meðal íbúanna,
svo að hún féll snarlega og önnur stjórn tók við.
Menningarlífið.
Hin
mikla deigla þjóðerna á Trinidad gerir menningarlífið mjög fjölskrúðugt.
Hinn fjölþjóðlegi arfur kemur fram í staðarnöfnum og
byggingarlist. Þar ægir
saman katólskum kirkjum, anglikönskum kirkjum, synagógum, moskum og
hindúamusterum. Ensk nýlenduhús
standa við hliðina á spænskum og frönskum og inni á milli eru
einfaldir kofar afkomenda negraþrælanna og einfaldir bústaðir
afkomenda indversku verkamannanna.
Staðarnöfn
eins og Port-of-Spain, St. Mary o.fl. eru ensk, Puerto de Espana, San
Ferrnando o.fl. eru spænsk, Blanchisseuse, Matelot, Biche, Basse-Terre
o.fl. eru frönsk, Barrackpore, Sadhoowa o.fl. eru indversk,
Chaguaramas, Chacachacare, Arima, Maparima o. fl. eru karabísk.
Ríkisstjórnin
leggur mikla áherzlu á að efla samkennd hinna mörgu þjóðarbrota
og beitir m.a. fyrir sig menningu innfæddra íbúa.
Xango-trúarbrögðin
eru afró-amerísk og eiga sér flesta fylgjendur í röðum afkomenda
negraþrælanna. Þau eru
blanda af ýmissa trúarbragða þjóðflokka í Vestur-Afríku (yoruba,
ewe, fon, ashanti o.fl.), sem eru að auki blönduð ýmsum helgisiðum
katólskunnar, anglikönskunnar, mótmælendatrúar, trúarbrögða indíánanna,
islam, hindúatrúar, búddatrúar og spíritisma.
Xango
er einn mest tignuðu guða svartra í Afríku.
Hann er aðalguð þessara trúarbragða en hann býr yfir kostum
indverska hrísgrjónaguðsins og líkist Jóhannesi skírara.
Þjónar hans eru 12 'oba', sem finna samsvörun í postulunum 12
í biblíunni. Oft tekur
hann á sig mynd þrumu- og eldingarguðsins.
Geithafrar eru eftirlætisfórnardýr hans og aðaltákn hans er
stríðsöxi (frá indíánatrúnni).
Hinir trúuðu áhangendur hans bera litskrúðugar keðjur,
helzt rauðar og hvítar. Þessi
trúarbrögð eru mjög fjölbreytileg. Þau taka stöðugum breytingum og nýir helgisiðir eru
innleiddir hér um bil daglega líkt og í vúdútrúnni á Haiti eða
Santeria á Kúbu.
Divali
er
iðkuð meðal indverjanna. Ljósahátíð
þeirra í oktober eða nóvember er mjög athyglisverð og skrautleg.
Þá eru kveikt óteljandi ljós í hofum, húsum og görðum.
Samtímis fer fram hin svonefnda hreinsunarathöfn Katik Nanna
við Manzanilla á Atlantshafsströndinni, þar sem hindúarnir baða
sig í öldum hafsins.
Hosein
er vetrarhátíð múslima. Hún
er haldin eftir nýtt tungl í Muharrammánuðinum samkvæmt dagatali
islam. Þá fer fólk í mjög
skrautlega búninga og tekur þátt í skrúðgöngum, sem leiddar eru
með tónlist og það er sungið, dansað og glímt.
Einnig eru sýndar litlar og mjög vandaðar eftirmyndir af
moskum (tadjahs).
Kalypsótónlistin
er upprunnin meðal þeldökkra íbúa Trinidads.
Hún fór sigurför um Karíbasvæðið, hluta Bandaríkjanna og
stórborgir Vestur-Evrópu sem fjörug danstónlist.
Nafnið er enska útgáfan af vestafríska orðinu Kai-so (bravó).
Flest lögin og textarnir verða til undirbúningslaust hjá
flytjendum þessar tónlistar. Mest
er sungið um ástina og kynferðismálin en líka um önnur efni líðandi
stundar. Oft eru líka
sungnir háðtekstar eða tvíræð kvæði við lögin.
Kalypsó er runnin frá flestum þjóðarbrotanna á Trinidad.
Þar er líka að finna áhrif spænskrar nýlendutónlistar frá
Venezuela og franskra, enskra og írskra áhrifa gætir líka, þótt
afríski takturinn sé ríkjandi. Á
síðari tímum er farið að gæta indverskra og kínverskra áhrifa.
Flytjendurnir gefa sér mjög hátíðleg nöfn, s.s. King
Pharaoh, Lord Nelson, The Mighty Sparrow eða Lord Kitchener.
Rose McCartha Lewis, sem kölluð var Kalypsó-Rose, var fyrsta
konan, sem sló í gegn og vann til verðlauna á kjötkveðjuhátíðinni
1978.
Stáltrumburnar
eru jafnómissandi og kalypsó eða limbó.
Fyrstu trumburnar voru notaðar á Trinidad árið 1945 og
breiddust þaðan hratt um allt Karíbasvæðið.
Í stóru hljómsveitunum eru yfir 20 trumbur.
Bassatrumburnar hafa 3-4 tóna, sellótrumburnar 5-6, gítartrumburnar
14 og 'ping pong trumburnar 28-32.
Svona hljómsveitir flytja oft sígild verk eftir Mozart, Rossini
o.fl. meistara. Pannan í
trumbunum var í fyrstu íhvolfi botnhlutinn úr öltunnunum, sem gerðar
voru í skorur út frá miðjunni með hamri og meitli og síðan var
leikið á þær með gúmmíhömrum.
Talið
er að fyrstu stáltrumburnar hafi verið notaðar af bambushljómsveit
á einni Antill-eyjanna, Antigua, í hátíðahöldum við lok seinni
heimsstyrjaldarinnar, þegar fagnað var sigri banda-manna.
Þessar trumbur eru óvéfengjanlega skyldar Xango-trommunum, sem
ættaðar eru frá Vestur-Afríku og þrælarnir börðu þar til nýlenduherrarnir
bönnuðu notkun þeirra. Ellie
Manette er sagður hafa unnið þessu hljóðfæri mesta útbreiðslu,
þ.á.m. meðal negra í New York og öðrum stórborgum.
Kjötkveðjuhátíðir
eru aðalhátíðirnar á Trinidad.
Þær eru ógleymanlega skrautlegar og virðast vera endalausar,
enda fagnað dag og nótt með kalypsódansi á götum úti.
Undirbúningur þeirra hefst mörgum mánuðum áður en þær
eru haldnar (frá áramótum fram á öskudag).
Nýir skrautbúningar eru saumaðir og kalypsóhljómsveitirnar
æfa óslitið. Frakkar
fluttu þessa hefð með sér og þaðan gætir áhrifa frá
forkristilegum tímum við Miðjarðarhaf en hátíðin hefur þróast
í samræmi við þjóðerni og venjur íbúanna á Trinidad fram á þennan
dag.
Strax
um áramótin keppa óteljandi kalypsóhljómsveitir um hylli fólksins
og margar þeirra, sem hafa verið valdar hinar beztu, hafa náð langt.
Keppnin er kölluð Road March og titillinn er í hávegum hafður
og beztu kalypsósöngvararnir fá titlana kóngurinn og drottningin.
Hátíðin
nær hámarki á bolludag (Joo Vay; Jour Ouvert) og á þriðjudegi í föstuinngangi,
þegar allir dansa í sínu fínasta pússi á götum úti. Snemma á öskudagsmorgun verður skyndilega kyrrð og ró og
skömmu síðar er farið að huga að næstu kjötkveðjuhátíð. |