Karíbahaf St Vincent Grenadine,
Flag of Saint Vincent and the Grenadines

Booking.com


St VINCENT & GRENADINE
NÁTTÚRAN - SAGAN - ÍBÚARNIR - ATVINNULÍFIÐ

.

.

Utanríkisrnt.

Map of Saint Vincent and the Grenadines

Varnaðarorð:  Siglingafólk þarf að vera vel á verði á Karíbahafi.  Sjórán hafa færzt í vöxt.  Reynt fólk forðast því að leggja skútum sínum og snekkjum aleitt í afskekktum víkum og felur farartæki sín í vörzlu viðurkenndra vaktmanna.

Loftslagið.  Eyjarnar eru, eins og aðrar Karíbaeyjar, í staðvindasvæði hitabeltisins.  Vindur blæs stöðugt úr norðaustri og flytur með sér allmikinn raka, sem fellur til jarðar, þegar loftmassarnir rekast á fjalllendi eyjanna.  Þannig rignir allt að 2.500 mm á ári að norðaustanverðu en u.þ.b. 1.300 mm að suðvestanverðu.  Meðallofthiti er hér um bil jafn allt árið, janúar 25°C og september 27°C.  Bezt er að heimsækja eyjarnar í marz og apríl, því að þá rignir minnst (90 mm) en í nóvember meira (305 mm).

Sagan.  Kólumbus uppgötvaði St. Vincent í þriðju ferð sinni til Ameríku árið 1498.  Þar voru fyrir karíbar og voru þar enn þá, þegar Englendingar ætluðu að leggja eyjuna undir sig árið 1672.  Evrópubúar náðu ekki fótfestu þar fyrr en árið 1763 vegna andstöðu karíbanna, þótt Englendingar sendu þangað herlið 1748 í trássi við, að Frakkar lýstu yfir hlutleysi eyjarinnar.

Árið 1675 strandaði þrælaskip úti fyrir eyjunni Bequia og þrælarnir, sem komust af tókst að komast til St. Vincent.  Þar blönduðust þeir karíbunum, tóku upp lifnaðarhætti þeirra og voru síðar nefndir svörtu karíbarnir.

Að frátöldu tímabilinu 1779-1783, þegar Frakkar ýttu Englendingum til hliðar, var St. Vincent enskt yfirráðasvæði frá 1763 og eftir Versalasamningana (1793) varð eyjan að brezkri krúnunýlendu.

Árið 1795 studdu Frakkar karíba í uppreisn gegn Englendingum, sem tókst brátt að bæla hana niður og fluttu hina eftirlifandi til eyjarinnar Roatán (Honduras).  Árið 1871 varð St. Vincent aðili að samtökum áveðurseyjanna.

Árið 1902 gaus eldfjallið Soufrière og 2000 manns fórust.  Eldgossins gætti alla leið til Barbados.

Árið 1969 varð St. Vincent sambandsríki Stóra-Bretlands og fékk eins og aðrar Antilleyjar, sem Bretar stjórnuðu, heimastjórn.  Bretar önnuðust utanríkis- og varnarmál.  Hinn 27. október 1979 batt Milton Cato endi á ríkjasambandið við England og varð fyrsti forsætisráðherra hins frjálsa ríkis.  Í kosningunum 5. desember 1979 fékk verkamannaflokkur hans 11 af 13 þingsætum en árið 1984 vann lýðræðisflokkur James Mitchell óvæntan sigur í kosningum.  Eftir sem áður er enski þjóðhöfðinginn æðsti stjórnandi eyjaklasans og fyrir hans hönd situr landstjóri í Kingstown.

Bretar veittu hinu nýfrjálsa ríki verulegan fjárhagslegan stuðning árið 1981 og  allt frá 1976 hefur það notið styrkja frá Evrópubandalaginu.

Íbúarnir eru u.þ.b. 130.000 talsins.  Flestir þeirra búa með ströndum fram á aðaleyjunni St. Vincent. Mesta þéttbýlið er í Kingstown, þar sem búa 35.000 manns.  Eyjan er að mestu óbyggð inni í landi, þar sem ekki er hægt að nýta brattar og skógi vaxnar hlíðar þessa eldfjallalands til landbúnaðar.  Nálega þriðjungur íbúanna eru afkomendur afrísku þrælanna, þriðjungur múlattar, 4% afkomendur innfluttra (1861) indverskra verkamanna og afkomendur evrópskra verkamanna, aðallega frá Portúgal (1846), eru fáir.  Fólksfjölgunin er gífurleg, u.þ.b. 3% á ári og meira en helmingur íbúanna er undir tvítugu.  Vegna þess, hve iðnvæðing er skammt á veg komin, er mikið atvinnuleysi og þeir, sem ekki geta séð sér farborða, flykkjast þúsundum saman úr landi, aðallega til Trinidad, Curaçao og Aruba.

Atvinnulífið
Landbúnaðurinn er mikilvægasta atvinnugrein landsins (>80% útflutnings). þrátt fyrir að helmingur St. Vincent sé í meira en 30° halla og minna en 5% eyjarinnar halli minna en 5° er landið nýtt til hins ítrasta.  Þetta er ekki einungis frjósömum eldfjallajarðvegi að þakka, heldur líka því, að stórjörðum var skipt á milli smábænda, þegar plantekrubúskap var hætt.  Stórjarðir eru samt enn þá þriðjungur af ræktuðu landi en ríkið styrkir smábændur, sem einbeita sér að því að rækta eins mikið og þeir geta fram yfir eigin þarfir.  Til eigin þarfa rækta þeir aðallega yamrætur (dioscoria alata), cassavarætur (maniok) til brauðgerðar og sætar kartöflur en arðbær ræktun byggist aðallega á banönum og örvarót, sem notuð var til sterkjugerðar á sjötta áratugnum, en er núna mikilvægt hráefni í tölvupappír.

Ræktun sykurreyrs hvarf um 1900 fyrir örvarótinni og núna er sykur aðeins framleiddur til rommframleiðslu og eigin þarfa.

Sea-Islandbaðmullin er einhver sú bezta í heimi og talsvert er flutt út af henni ásamt kakói, sætum kartöflum og grænmeti.

Þeir, sem ekki starfa í landbúnaði eru bundnir við iðnað, handiðnað og þjónustustarfsemi.  Ferðaþjónustan er mikilvægur atvinnuvegur.  u.þ.b. 60.000 ferðamenn koma til St. Vincent ár hvert og þar að auki 20.000 farþegar með skemmtiferðaskipunum.

ST. VINCENT er að öllu leyti eldfjallaeyja.  Yngsta eldfjallið, Soufrière (1234 m), og hæsti punkturinn er nyrzt á þessari fjallendu eyju.  Það er eitt virkasta eldfjallið í austanverðu Karíbahafinu.  Fyrsta þekkta eldgosið, sem varð árið 1718, sást frá skipum á siglingu fram hjá eyjunni.  Árið 1812 gaus enn og 56 manns fórust.  Árið 1902 myndaðist gígur, 500 m djúpur og 1,5 km í þvermál, sem nú er fullur af vatni.  Gosmökkurinn varð 10 km hár og öskufalls gætti á Barbados.  2000 manns fórus á St. Vincent. Eftir tæplega 70 ára hlé, árið 1971, myndaðist lítil gígeyja í vatninu.  Árið 1978 gaus aftur og enn aftur ári seinna (17/4 '79).  Þá myndaðist mörg þúsund metra hár gosmökkur yfir eyjunni og flytja þurfti 20.000 íbúa á örugga staði.  Mestur hluti bananaekranna fór á kaf í ösku.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM