Karíbahaf St Vincent meira,
Flag of Saint Vincent and the Grenadines

Booking.com


St VINCENT
ÝMSIR LANDSHLUTAR

.

.

Utanríkisrnt.

Map of Saint Vincent and the Grenadines

Suðurströndin
Greathead Bay og Calliaqua Bay.  Suðurströndin er velbúin til ferðaþjónustu.  Þar eru gistihús, baðstrendur, bátahafnir, upplagðir staðir til köfunar o.fl.  Við Aquaticklúbbinn eru steinristur frá forkólumbískum tíma.

Harmony Hall sykurmyllan er í grennd við Calliaqua hjá Ribishi.  Þessi vindmylla, sem var reist á 19.öld, var hluti af sykurverksmiðju.

Young Island er 2 ha stór eyja fyrir framan Calliaqua Bay.  Hún er allt að 182 m há.  Þar er fallegt hótel og gaman er að skoða Duvernettvirkið (1800) á klettahöfða.

*Queen's Drive er fögur leið frá Arnos Vale-flugvellinum upp á Dorsetshire Hill og Sion Hill, þaðan sem er óborganlegt útsýni yfir Kingstown, Charlotte-virkið og nærliggjandi búsældarlega dali.

Vesturströndin (Hlévegurinn)
Leiðin meðfram vesturströndinni er mjög fjölbreytileg,  fallegt landslag og vinaleg þorp, dökkleitar baðstrendur (aska) og bananaekrur við Buccament, Spring Village og Richmont.

*Steinristurnar við Layou.  2 km norðaustan Layou eru einhverjar merkilegustu steinristur við Karíbahafið.  Þær eru taldar vera frá því um árið 600 e.Kr.  Þær sýna andlitsmynd.

*Buccamentdalurinn er austan Layou.  Þar er náttúruverndarsvæði með regnskógi, sjaldgæfum jurtum og dýrum (m.a. St.Vincent-páfagaukar).  Við hlið svæðisins er hótel með spilavíti og golfvöllur.

*Barrouallie er skoðunarvert fiskiþorp.  Við bæjarmörkin er fornt steinaltari indíána.  Þaðan eru stundaðar hvalveiðar með átjándu aldar aðferðum.  Hvalveiðitíminn er á vorin.

Chateaubelair og *Baleine-fossar.  Vesturstrandarvegurinn endar nokkrum km norðan við Chateaubelair.  Þaðan borgar sig að fara frá Richmondströndinni með bát 10 km norðar til að sjá hina 18 m háu Baleine-fossa, sem falla niður brattar hlíðar eldfjallanna.  Miðleiðis þangað er gömul byggð karíba, sem settust að á þessum afskekkta stað til að vera í friði.

Austurströndin (Áveðursvegur)
Þessi leið liggur frá Kingstown til Fancy á norðurodda eyjarinnar.

Marriaqua-dalur er velnýttur til landbúnaðar á milli hárra fjallahryggja.  Þar eru ræktaðir bananar og fleiri nytjaplöntur til útflutnings.  Frá Montrealgörðunum er frábært útsýni.  Þar er líka að finna ölkeldur, sem hafa lengi verið notaðar til heilsubótar.

Mesopótamíudalur.  Nokkra km norðaustan Kingstown, er frjósamt dalverpi við rætur hins 968 m háa fjalls Brand Bonhomme.  Niður hlíðar þess liðast fjöldi lækja.  Í dalnum eru ræktaðir bananar, kakó, örvarætur, brauðaldin, múskathnetur og aðrir hitabeltisávextir.  Í þorpinu Mesópótamíu sameinast allir lækirnir og streyma um Yambougljúfur fram í sjó. Steinaristur er að finna suðaustan þorpsins.  Þær eru taldar vera frá tímum siboney indíána.

Colonarie er miðstöð ræktunar örvarótar á miðri leið milli Kingstown og Fancy.  Þar er hægt að skoða verksmiðju, sem verkar ræturnar til pappírsframleiðslu.

Georgetown  er einn stærsti bærinn á Atlantshafsströndinni norðan við Colonaire Bay.

Rabacca Dry River-dalurinn er skoðunarverður.  Árfarvegurinn er oftast þurr, þar sem vatnið hverfur í gleypan jarðveginn.  Hér við austanverðar rætur eldfjallsins Soufrière er ein stærsta kókosekra eyjarinnar (1300 ha).  Þar að auki eru ræktaðir bananar, sítrusávextir, kryddjurtir (múskat- og colahnetur; cola inniheldur kaffein) og eggávextir.

Soufrière er kleift úr Rabaccadalnum (1234m).  Gosin 1979 og 1980 breyttu útliti eldfjallsins.  Gígvatnið hvarf á meðan á gosunum stóð.  Ofan af fjallinu er geysivíðsýnt.   Hægt er að komast niður í átt að Chateaubelair á vesturströndinni.  Bezt er að fara um fjallið í fylgd kunnugra og láta vita um ferðir sínar (gestamóttöku í hóteli eða upplýsingamiðstöð ferðamála).

Orange Hill.  Sé ekið áfram í norður frá Georgetown og fram hjá Orange Hill er komið að kopraverksmiðju (kopra = þurrkaðir kókoshnetukjarnar).  Þaðan liggur vondur vegur alla leið til nyrzta oddans, Fancy.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM