Karíbahaf Sint Eustatius meira,
Flag of Netherlands Antilles

Booking.com


SINT EUSTATIUS
MEIRA

.

.

Utanríkisrnt.

Map of Netherlands Antilles

Náttúrufar.  Eyjan er kölluð Statia manna á milli.  Hún liggur 55 km sunnan St. Maarten og 10 km norðvestan brezku eyjarinnar St. Kitts á 17°29'N og 62°59'V (Oranjestad).

Hæsti staðurinn er er hið jarðfræðilega unga, en samt útbrunna eldfjall Quill (601 m.y.s.).  Gígur þess er þakinn þéttum regnskógi.  Það er á suðvestanverðri eyjunni og við suðurrætur þess er hinn svokallaði Hvíti veggur (White Wall) úr kalkseti mjög áberandi.  Á eyjunni norðvestanverðri er hæðótt landslag, sem er leifar eldkeilu, sem var yfir 600 m há.  Þar eru ásarnir Bergje, sem teygja sig yfir 200 m.y.s. norðvestan flugvallarins.  Í sigdældinni milli fjalllendanna er stundaður verulegur landbúnaður.  Meðalúrkoma ársins losar 1000 mm og meðalhitinn er á milli 25°C og 30°C, þannig að loftslagið verður að teljast allþurrt.  Staðvindurinn gerir það þolanlegt fyrir fólk frá norðlægari slóðum og hafsvæðið áhugavert fyrir siglara.


Íbúarnir og atvinnulífið.  Íbúarnir eru flestir þeldökkir og lifa af ferðaþjónustu, verzlun, smálandbúnaði og fisk-veiðum.  Flugvöllurinn, sem er einungis ætlaður litlum flugvélum, er í sigdældinni á milli útbrunnu eldstöðvanna í norðvestri og suðaustri.  Hafskipahöfn er á eyjunni, þannig að skemmtiferðaskipin geta lagzt að bryggju og þar er líka mjög góð snekkju- og skútuhöfn.

Sagan.  Eyjan á sér litríka sögu.  Kólumbus fann hana á sama tíma og Saba, þegar hann var á leið sinni til Jómfrúareyja árið 1493.  Upp úr því reyndu Englendingar og Frakkar að leggja hana undir sig.  Árið 1636 komu fyrstu Hollendingarnir þangað og næstu 150 árin skipti eyjan yfir tuttugu sinnum um herra, þótt friðarsamningarnir í Utrecht (1713) gerðu ráð fyrir yfirráðum Hollendinga. 

Síðari hluti 18.aldar var blómaskeið á Sint Eustatius.  Eyjan varð bækistöð Hollenzka-Vesturindíafélagsins og einn mikilvægustu umskipunarstaður Karíbahafsins.  Oft lágu á annað hundrað skip í einu fyrir akkerum við eyjuna og þrælar lestuðu þau með rommi sykri og tóbaki.  Íbúunum fjölgaði um tíma í 20.000 og eyjan var kölluð Gullkletturin'.  Í bandaríska frelsisstríðinu (1775-1776) var hún áfangastaður fyrir vopn og aðrar nauðsynjar fyrir Bandaríkjamenn frá Evrópu.  16. nóvember 1776 skaut bandaríska herskipið Andrew Doria kveðjuskotum við eyjuna og tekið var undir þau í Oranjevirkinu.  Þannig urðu íbúar Sint Eustatius fyrstir til að viðurkenna skipverja sem fulltrúa sjálfstæðrar þjóðar, sem sigldi undir eigin fána.

Árið 1781 lagði brezki aðmírállinn Rodney eyjuna undir sig og eyðilagði margar byggingar.  Þegar Hollenzka-Vesturindíufélagið lagði upp laupana, varð eyjan aftur jafnveigalítil og fyrrum.  Nú er lögð áherzla á ferðaþjónustu til að koma efnahagnum á skrið á ný.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM