Þjóðfélagskerfi.
Arfur nýlendutímans er sérstakur og þjóðfélagskerfi eru
erfið. Á plantekrunum varð
til mjög skír þjóðfélagsskipting milli hinna fáu, sem réðu, og
hinna mörgu, sem unnu (verkamanna og smábænda), þannig að engin miðstétt
varð til. Þessi ósveigjanlega
skipting byggðist á kynþáttamismun.
Félagslegar andstæður voru svo miklar, að hægt var að tala
um tvær þjóðir í sama landi. Þetta
á við allar eyjarnar, þótt finna megi smáblæbrigðamun milli
þeirra
og menningarsvæðanna þriggja. Á
Kúbu hvarf þetta þjóðskipulag með byltingu Kastrós.
Á öðrum eyjum hafa mjög mismunandi breytingar orðið.
Að vísu varð engin landbúnaðarbylting annars staðar en á Kúbu,
en þar sem iðnvæðing og önnur viðskiptaþróun varð auk
uppbyggingar þjónustu- og menntakerfis, myndaðist smám saman miðstétt,
stétt borgara. Nú á dögum
ríkir mikil fátækt og fólk flýr eða leitar annað, þangað, sem
það býst við betra lífi. Það ríkja taumlausar þjóðfélagslegar andstæður.
Gagnstætt því, sem
gerist hjá yfirstéttinni, ganga hinir þeldökku hvorki í borgaralegt
né kirkjulegt hjónaband. Mest
áberandi er þetta á Haiti, þar sem frjáls sambönd manna og kvenna
gilda. Þar með fæðast
flest börn utan hjónabands. Þessi siður er ekki einungis bundinn hefðum, sem svartir
komu með frá Afríku, heldur neyðir þjóðfélagskerfið fólk til að
búa við þessar aðstæður.
Menntakerfið.
Víðast á eyjunum býr fólk við gott ríkismenntakerfi.
Tiltölulega skammt er síðan uppbygging þess hófst, þannig að
meðal hinna eldri er enn þá mikið ólæsi, þótt mismunandi sé
milli eyja. Mest ber á því
á Haiti. Þrátt fyrir
mikið lestrarátak árið 1959 voru enn þá 1,9 milljónir fullorðinna
ólæsir árið 1971. Á Kúbu varð menntunarbylting árið 1964, þannig að ólæsi
var útrýmt, en 23% landsmanna voru ólæsir árið 1953.
Uppbygging skólakerfisins
á flestum eyjum leiddi til stofnunar miðskóla, menntaskóla og iðnskóla.
Háskólar eru aðeins á stærstu eyjunum.
Í Dóminíska lýðveldinu var stofnaður háskóli árið
1538 (Santo Domingo), en hann er elzti háskólinn í latnesku Ameríku.
Á Haiti er háskóli í Port-au-Price og á Kúbu eru þeir fjórir.
Hinn stærsti í Karíbahafi er í Rio Piedras á Puerto Rico.
Auk framangreindra háskóla eru líka háskólar á Guadeloupe
og Curacao. Menntun í háskólunum
nýtist helzt í viðskiptalífinu og í mennta-, heilbrigðis- og stjórnkerfunum.
Alþjóðlega viðurkennd rannsóknarstörf á sviði landbúnaðar
hafa lengi verið unnin í landbúnaðarháskóla hitabeltisins í St.
Augustin á Trinidad, en náið samstarf er
með honum og Vestur-Indía-háskólanum á Jamaica.
Á Barbados er líka háskóli, sem tilheyrir þessu samstarfi.
Trúarbrögð.
Trúfrelsi ríkir á Karíbaeyjum.
Á spænskum og frönskum menningarsvæðum eru flestir hinna
kristnu rómversk-katólskir, en mótmælendur á hinum brezku.
Mótmælendur er t.d. að finna á Jamaica, s.s. baptista og meþódista,
kirkju guðs og söfnuði eins og hina sameinuðu kirkju Jamaica.
Á Trinidad héldu hinir indversku innflytjendur trú forfeðra
sinna. Þar eru 25% íbúanna
hindúar, 6% múslimar, 36% rómversk-katólskir, 19% mótmælendur og
4% presbyterar (í öldungakirkjunni).
Í höfuðborg Trinidad og Tobago, Port-of-Spain, er að finna
kristnar kirkjur, hindúamusteri og moskur.
Meðal þeldökkra
lifir enn þá heiðinn afrískur trúararfur blandaður kristinni trú.
Fólk þessarar trúar er einkum að finna í Santeria á Kúbu,
Xango á Trinidad og þó mest á Haiti, þar sem vúdú er mest iðkað.
Fólksfjöldi.
Á Karíbaeyjum búa u.þ.b. 30 milljónir manna, þannig að meðaltalið
er 125 manns á km2, þótt svo sé ekki í raun og veru vegna
misdreifingar íbúanna. Á
Turks og Caicos eyjum er strjálbýlt (16 á km2) og Bahamaeyjum líka
(17 á km2). Barbados er mjög
þéttbýl (617 á km2). Vindeyjar
eru líka allþéttbýlar. Haiti
er með 181, Jamaica 213 og Puerto Rico 369.
Allar þessar eyjar eru ofbyggðar.
Þessar eyjar eru fjalllendar og litlir sem engir möguleikar eru
til frekari útfærslu landbúnaðar eða uppbyggingar iðnaðar.
Því er hömlulaus fólksfjölgun mikið vandamál, ekki sízt
vegna þess, að brottflutningur er hér um bil óhugsandi.
Puerto Rico er eina eyjan, sem hefur haldið í við þróunina,
þótt betur megi gera. Atvinnuleysi
er mikið en það lýsir sér líka í gervivinnu í opinbera kerfinu.
Ástandið á Kúbu og í Dóminíska lýðveldinu er allt annað.
Þar er enn þá að finna óbrotið land til landbúnaðar og íbúafjöldinn
er ekki eins mikill (Kúba: 89 á km2; Dl. 116).
Byggðir.
Hefðum samkvæmt stofnuðu Spánverjar margar borgir og bæi, þannig
að fljótlega eftir landnám þeirra bjuggu margir í þeim.
Nú búa u.þ.b. 70% íbúa Kúbu og Puerto Rico í borgum. Þessi staðreynd tengist vissulega líka þróun viðskipta.
Á Trinidad og í Dóminíska lýðveldinu búa 50% í borgum
og 40% á Jamaica. Á hinum eyjunum eru þessar tölur lægri, t.d. á
Haiti aðeins 24%. Þetta sýnir,
að flestir búa enn þá í sveitum, þrátt fyrir breytingar á stjórnarháttum
frá nýlendutímanum.
Þorp og þéttbýli hafa myndazt í tengslum við plantekrur en smábændur hokra einir á
jörðum sínum. Á nýlendutímanum
voru plantekrurnar miðstöðvar viðskipta og byggða.
Reyrpressunin og sykursuðan fóru þar fram.
Þar voru verzlunarhús og bústaðir þræla og stjórnenda og
enn þá má víða sjá rústir þeirra bygginga, einkum fyrrum ríkulegra
bústaða yfirstjórnendanna. Nú
er að finna skipulegt íbúðarhúsnæði landbúnaðarverkamanna í nánd
við sykurverksmiðjurnar. Þar
er að finna nauðsynlegustu þjónustustofnanir eins og skóla o.fl.
Þar sem smábændur rækta
jörðina er einkum að finna óregluleg smáþorp og sums staðar
liggja engir reglulegir vegir, heldur slóðar heim að bæjunum.
Þar ferðast fólk gangandi eða á reiðdýrum.
Á spænska menningarsvæðinu
er einkum að finna hið hefðbundna íbúðarhús frá tímum indíánanna,
bohio, en það er úr timbri með þaki úr pálmablöðum eða stráum.
Á frönsku eyjunum er svipaður byggingarstíll en þar sem viðskiptaþróunin
er yngri, ber meira á húsum úr steinsteypu og bárujárni.
Sameiginlegt er öllum
þremur menningarsvæðunum, að gamlir borga- og bæjakjarnar voru
skipulagðir eins og skákborð nema þar sem landslagið krafðist
annars. Miðsvæðis eru
stjórnsýsluhús og kirkjur umhverfis aðaltorgin.
Spánverjar fluttu með
sér byggingarstíl frá Andalúsíu og víðar frá Spáni.
Þannig að víða er að finna svalahús með inngarði.
Svalirnar eru skreyttar handriðum úr smíðajárni.
Flestar kirkjur eru í barokstíl en kirkjan í Santo Domingo
(D.l.), Santa Maria la Menor, sem byggð var 1523-41 (elzta kirkjan í nýja
heiminum) er blönduð rómönskum, gotneskum og platerskum stíl (Sp.
15. öld). Spænski stíllinn
er víða áberandi, en góð dæmi eru Santo Domingo, San Juan (Puerto
Rico) og Trinidad á Kúbu.
Einkennandi fyrir enska
menningarsvæðið eru hvít- eða bleikmáluð timburhús á steinsökkli.
Opinberar byggingar eru í georgískum eða viktorískum stíl.
Basseterre, höfuðborg eyjarinnar St. Christopher (St. Kitts) er
dæmigerð ensk nýlenduborg.
Frönsku nýlenduborgirnar
voru byggðar margra hæða íbúðarhúsum, sem byggð voru mjög þétt
saman. Beztu dæmin eru í
Pont-á-Pitre á Guadeloupe og í Fort-de-France á Martinique.
Í Willemstad á
hollenzku eyjunni Curacao er eins og að vera kominn í nítjándu aldar
borg í Hollandi. Þar eru
mjó tröppugaflhús við margar götur.
Danskur bragur er á
kaupmannahúsunum í Christiansted á Jómfrúareynni Saint Croix, sem nú
er undir yfirráðum Bandaríkjamanna.
Norður-amerískir skýjakljúfar
hafa lítt rutt sér til rúms á Karíbaeyjum. Einkum
er þá að finna í Havana á Kúbu og í San Juan á Puerto Rico, þar
sem þeir hýsa einkum stjórnarskrifstofur og hótel.
Borgirnar við Karíbahaf
eru einkum hafnarborgir, sem byggjast á utanríkisviðskiptum.
Oftast eru aðalhafnarborgirnar líka höfuðborgir viðkomandi ríkis
og þar með fjölbýlastar. Í
mörgum þeirra búa fleiri en 25% íbúa hvers ríkis.
Árið 1970 bjó u.þ.b. þriðjungur íbúa Puerto Rico í San
Juan og úthverfum og síðan hefur flótti úr strjálbýli haldið áfram.
Það á líka við Havana, þar sem bjuggu u.þ.b. 2 milljónir
árið 1981. Þar gripu yfirvöld til þess bragðs að banna búferlaflutninga
til borgarinnar. Það er
ekkert samræmi milli atvinnumöguleika
og aðstreymis fólks til borganna, þannig að upp spretta ömurleg
fátækrahverfi, sem eru uppspretta uppþota og glæpa.
Stórborgir (>100þ.
íbúar) eru aðeins 20 á Karíbaeyjum, þar af 14 á spænska
menningarsvæðinu (9 á Kúbu). Á enska svæðinu eru 4 en á því franska 2.
Viðskipti.
Þótt sykurframleiðsla Karíbaeyja sé u.þ.b. 25% heimsframleiðslunnar,
er ekki lengur hægt að kalla þær "Sykureyjarnar" eins og
á nýlendutímanum, því að landbúnaðurinn er orðinn miklu fjölbreyttari,
iðnaður orðinn mikilvægari og ferðaþjónusta ört vaxandi
atvinnugrein. Landbúnaðarsvæðin
skiptast enn sem fyrr milli stóru plantekranna og smábændanna.
Plantekrurnar eru á flötum láglendissvæðum, þar sem auðvelt
er um ræktun og að- og frádrættir eru auðveldir.
Smábændur rækta ófrjósamari og ójafnari svæði.
Þeir stunda blandaða ræktun, s.s. maís, baunir, maniok
(tapioka), taro, banana og aðra ávexti.
Plantekrur eru í eigu fjársterkra stórfyrirtækja, nema á Kúbu
(samyrkjubú), sem framleiða sykur, en verulega hefur dregið úr og
dregur enn þá úr þeirri framleiðslu.
Iðnaður.
Litið er á iðnvæðinguna sem tæki í baráttunni gegn
atvinnuleysi og fátækt í of fjölmennum þjóðfélögum Karíbaeyja.
Horfurnar eru ekki nógu bjartar vegna skorts á hráefnum, faglærðu
fólki og fjármagni. Sölutregða
iðnvara á innanlandsmörkuðum er líka ljón í veginum.
Samt hefur iðnaður þróast og dafnað á sumum eyjanna. 58%
þjóðarframleiðslu Kúbu eru iðnaðarvörur, 50% á Trinidad og
Tobago og 39% á Jamaica. Einkum
dafnar iðnaður, þar sem hráefni til hans finnast.
Á Kúbu finnst járn, olía á Trinidad og báxít á Jamaica.
Þrátt fyrir að engin hráefni finnist á Puerto Rico nemur iðnaður
39% af þjóðarframleiðslu. Puerto
Rico var fátækasta eyja Antilleyja en nú er þróunin þar til
fyrirmyndar og mörg önnur eyríki sigldu í kjölfarið (Jamaica,
Trinidad, Barbados og Dóminíska lýðveldið).
Þróunin á Puerto Rico hefði ekki orðið jafnfarsæl og hröð,
ef ekki hefði komið til sambandsins við Bandaríkin.
Vegna lægri skatta (engir sambandsskattar til USA) og mun lægri
launa á Puerto Rico er framleiðslukostnaðurinn mun minni en í Bandaríkjunum. Þessi skilyrði hafa bæði bandarísk og evrópsk fyrirtæki
nýtt sér til framleiðslu fyrir Bandaríkjamarkað.
Árið 1950 var stofnað
þróunarráð efnahagsmála, sem hefur m.a. stuðlað að vexti þjónustugreina
tengdum iðnaðinum. Þar má
nefna markaðsrannsóknir, aðstoð við öflun fjármagns til
uppbyggingar, menntun verkafólks, aðstoð við staðarval o.fl. þ.h.
Þar að auki bauð ríkið niðurfellingu tekjuskatts í 30 ár.
Iðnþróuninni má skipta í þrjú skeið:
Á fimmta áratugnum byggði ríkið upp fyrirtæki, sem síðar
voru seld einkaaðilum. Þau
notuðu innlend hráefni, kalk, leir og sand, til framleiðslu fyrir
innanlandsmarkaðinn. Á sjötta áratugnum voru stofnuð fyrirtæki, sem fluttu
inn hráefni, aðallega frá Bandaríkjunum.
Þau bæði hálf- og fullunnu vörur til útflutnings til Bandaríkjanna.
Þessi fyrirtæki framleiddu mikið af fatnaði, sem var orðinn
stór hluti framleiðsluiðnaðarins árið 1968 (34%).
Á sjöunda áratugnum hófst uppbygging olíuhreinsunar, efnaiðnaðar,
áburðarframleiðslu, vélasmíða og lyfjaframleiðslu.
Verksmiðjur, sem byggðar voru á fyrsta skeiði þróunarinnar,
eru nú farnar að flytja út hluta framleiðslu sinnar.
Trinidad og Jamaica hafa fetað sama veg og byggja mikið á
innflutningi hráefna og útflutningi hálf- og fullunninna vara.
Jákvæð áhrif
uppbyggingar iðnaðar á efnahagslíf Karíbaeyja hafa líka sína
neikvæðu hliðar. Ekki
hefur tekizt að byggja upp iðnað í sveitum eyjanna, heldur hefur iðnvæðingin
orðið eingöngu í borgunum og þá helzt í höfuðborgunum.
Þetta hefur aukið flóttann til borganna, sem hafa stækkað
meira og hraðar en hægt hefur verið að ráða við, og jafnvægið
milli þéttbýlis og strjálbýlis hefur raskazt verulega.
Ekki dró úr atvinnuleysi eins og búizt var við vegna þessarar
þróunar og hagræðingar í rekstri iðnfyrirtækjanna.
Iðnvæðingin er að miklu leyti í höndum erlendra stórfyrirtækja,
sem reist hafa verksmiðjur sína á tollfrjálsum svæðum og byggja
framleiðslu sína á innfluttum hráefnum.
Karíbaeyjar eru að
mestu orðnar stjórnmálalega sjálfstæðar en viðskiptaleg þróun
hefur verið mjög hægfara frá nýlendutímanum.
Eyjaskeggjar eru enn þá mjög háðir innflutningi á flestum
nauðsynjavörum og flytja víðast eingöngu út landbúnaðarafurðir.
Að þessu leyti hefur iðnvæðingin ekki komið að fullum
notum. Ófrelsi eyríkjanna
breyttist við iðnvæðinguna en hvarf ekki.
Á Kúbu staðnaði iðnbyltingin á fimmtán árum eftir að
Kastró komst til valda líkt og annars staðar á Karíbaeyjum.
Báxítframleiðslan á Jamaica, sem er í höndum bandarískra
og kanadískra stórfyrirtækja, nemur u.þ.b. 8 milljónum tonna á ári
og skipar eyjunni í 3 sæti heimsframleiðslunnar. Álframleiðslan fer ekki fram á eyjunni, heldur í Norður-Ameríku.
Sömu sögu er að segja um olíuframleiðsluna á Trinidad.
Höfuðmarkmið íbúa Karíbaeyja er að komast undan oki nútímanýlendustefnunnar,
þótt ekki hafi enn þá tekizt að finna rétta leið til þess og þar
með að útrýma fátækt og atvinnuleysi.
Ferðaþjónusta.
Ferðaþjónustan er geysilega mikilvægur atvinnuvegur fyrir Karíbaeyjar.
Hún hefur verið í stöðugri uppbyggingu undanfarna áratugi
og reynt er að gera hana gildandi alls staðar, jafnvel á hinum
minnstu eyjum. Árið 1959
heimsóttu 1,3 milljónir ferðamanna eyjarnar og árið 1986 8,4 milljónir
(þar af u.þ.b. 1 milljón Evrópubúa).
Auk þess komu u.þ.b. 5 milljónir manna með skemmtiferðaskipum.
Fjöldi ferðamanna er
afarmismunandi milli eyja. Fyrir
daga Kastrós var Kúba fjölsóttust af ferðamönnum, en núna eru
Bahamaeyjar, Puerto Rico, Bandarísku Jómfrúaeyjar og Jamaica eftirsóttar
af Bandaríkjamönnum og öðrum. Flestir komu til Puerto Rico (1,6 millj.), Bahamaeyja (1,1
millj.), Dóminikanska lýðveldið (0,8 millj.).
Árið 1987 fjölgaði í 2,1 milljón á Puerto Rico.
Fyrrum komu ferðamenn einungis á veturna en nú dreifast þeir
yfir allt árið. Á
nokkrum eyjum, s.s. Bahamaeyjum, er ferðaþjónustan mikilvægasti
atvinnuvegurinn og öðlast stöðugt aukið gildi annars staðar.
Þessi þróun er ekki gallalaus, því að ferðaþjónustan er
mjög viðkvæm fyrir sveiflum.
Í hugum Norður-Ameríkubúa
eru Hawaii-eyjar og Karíbaeyjar orlofsparadísir og Evrópubúar sækja
þangað í auknum mæli. Flestir
ferðamannanna koma fljúgandi eða með skemmtiferðaskipunum.
Hægt er að komast þangað beint frá flestum stærstu flugvöllum
heims. Einkum er San Juan á Puerto Rico orðin mikilvæg miðstöð
í þessu tilliti og þaðan eru opnir möguleikar til að stunda „eyjahopp" með innlendum smáflugfélögum.
Stjórnmálaástand.
Heildarflatarmál Karíbaeyja, sem eru hluti af Mið-Ameríku, nær
ekki stærð fyrrum Vestur-Þýzkalands.
Samt eru þær stjórnmálalega ósamstæðasta svæði jarðar.
Nú eru þar á annan tug sjálfstæðra ríkja. Flestar minni eyjanna hafa einhverja sjálfstjórn, en eru að
öðru leyti með sameiginlega heildarstjórn.
Að nafninu til voru allar Karíbaeyjarnar undir spænskri stjórn
á 16. öld en síðar komu Bretar og Frakkar til skjalanna og kepptu við
Spánverja um nýlendurnar. Auk
þeirra blönduðu Hollendingar, Danir, Svíar, Brandenburgarar og Kúrlendingar
sér í slaginn á Antilleyjum og síðastir komu Bandaríkjamenn til
skjalanna. Núverandi ríkjaskipting
eyjanna á rætur sínar að rekja til aldalangrar baráttu Evrópuríkja
um yfirráðin yfir þessum eyjum, sem voru fyrrum eitt ríkasta og
eftirsóttasta nýlendusvæði jarðar.
Einkennandi fyrir þessa skiptingu er ekki einungis skipting
Hispaniola í tvö ríki (Haiti og Dóminíska lýðveldið), heldur
einnig skipting smærri eyja eins og Saint-Martin/Sint Maarten, sem
skiptist á milli Hollendinga og Frakka.
Fyrrum og núverandi yfirráð Breta, Frakka og Hollendinga eiga
upphaf sitt í þessari samkeppni Evrópuríkjanna.
Örfáar eyjar búa enn
þá við nýlenduástand eins og krúnunýlendurnar Brezku jómfrúareyjar,
Caymaneyjar, Montserrat og Turks- og Caicoseyjar.
Frönsku eyjarnar Guadeloupe og Martinique voru gerðar að
utanlandshéruðum
í Frakklandi. Heimastjórn
hafa fengið brezka eyjan Anguilla, Hollenzku Antilleyjar og bandaríska
eyjan Puerto Rico. Eftir
1960 fengu eftirtaldar eyjar sjálfstæði sitt:
Antigua, Bahamaeyjar, Barbados, Dominica, Grenada, Jamaica, Saint
Christopher-Nevis, St. Vincent/Grenadines og Trinidad og Tobago (allar
áður undir stjórn Breta). Í
minnstu ríkjunum er stjórnmálaástandið víða mjög reikult og
eldfimt. |