Eyjar
Karíbahafsins eru allfjalllendar.
Samhliða fjallgarðar eru á hinum stærri eyjum og láglendi er
helzt að finna með ströndum fram.
Hæstu fjöll eru lítið eitt hærri en Öræfajökull.
Eyjarnar eru umkringdar djúpum álum, allt að 9000 m.
Fjalllendi eyjanna líkist ekki fjöllum Norðurálfu, þar eð
ísaldarjökullinn náði ekki svo langt suður.
Dalir eru því ekki jökulsorfnir, heldur vatnsgrafnir, enda
rignir árstíðabundið allmikið í hitabeltinu.
Fjöll Karíbaeyja eru flest fellingafjöll en sums staðar, á
Martinique, Gadeloupe og St.Vincent, urðu þau og verða enn til við
eldgos. Hið illræmda
eldgos í eldfjallinu Pelé á Martinique árið 1902 eyddi öllu lífi
í borginni St.Pierre á nokkrum mínútum.
Eldfjallið Soufriére á St. Vincent gaus síðast árið
1979 og samnefnt eldfjall á Guadeloupe (1457m) gaus 1958 og 1978.
Þá tókst að flytja íbúa á hættusvæðum brott.
Gosin eru tíðast gjóskugos fremur en hraungos.
Þannig var gosið á Martinique árið 1902, þegar baneitrað
og geysiheitt gjóskuský ruddist niður hlíðar Pelé.
Minjar um eldvirkni má finna víða, s.s. á St. Lucia, þar
sem eru brennisteinshverir. Landslag
eldfjallaeyjanna er svolítið mismunandi eftir því, hve ungt eða
gamalt það er. Yngri
eldfjöllin eru oft keilulaga (Quill á hollenzku eyjunni St.
Eustatius). Víðast eru
þó eldri rústir eldfjalla eins og Pitons á St. Lucia. |