Kúba hagnýtar upplýsingar,
Flag of Cuba


KÚBA
HAGNÝTAR  UPPLÝSINGAR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Kranavatn getur valdið skyndilegu þyngdartapi vegna niðurgangs og lifrarbólgu af A-stofni.

Gjaldmiðillinn er „peso = 100 centavos” og „skiptipeso”, sem kom í stað US$ árið 2003.  Núna er óhagstætt að taka Bandaríkjadali með sér til Kúbu, því afföllin í bönkum við skipti eru u.þ.b. 10%.  Bezt er að hafa evrur meðferðis og skipta þeim í skiptipesóa (gengi í nóv. 2005 var 1,05 og einn slíkur jafngilti 25 Kúbupesóum).  Sem sagt, Bandaríkjadalur gengur ekki lengur sem annar gjaldmiðill eyjarinnar.  Kúbupesóar og skiptipesóar líta nákvæmlega eins út nema fyrir áletrunina „Peso Convertibles”.

Myndataka.  Gæta verður þess, að taka ekki ljósmyndir af  hernaðarmannvirkjum. 

Skilríki.  Bezt er að hafa skilríki (vegabréf) við höndina, þegar ferðast er um landið.  Gilt vegabréf og áritun eru nauðsynleg til að komast inn í landið.  Ferðalangar fá eyðublöð í flugvélum til að fylla út og framvísa með vegabréfum sínum til að fá áritun.  Þeir halda stimpluðum hluta umsóknarinnar þar til þeir fara úr landi og verða þá skilyrðislaust að framvísa honum.

Málið.
  Flestir Kúbverjar í borgum landsins tala og skilja ensku en í sveitunum er betra að kunna spænsku.

Lögboðnir frídagar eru m.a. 1. jan., 1. maí, 25.-27. júlí (þjóðh.), 10. oktober.  2. des. eru hátíðahöld og hersýning á Byltingartorginu í Havana til að minnast innrásar Kastróbræðra, Che Guevara og 81 liðsmanna þeirra, þegar þeir komu siglandi á bátnum Granma frá Mexíkó.  Aðeins 15 þeirra sluppu lifandi upp í Sierra Maestrafjöllin til að halda áfram byltingunni.

Verzlanir eru venjulega opnar á tímabilinu 08:00 - 22:00.  Stundum er gefið til baka í kúbverskum peso.  Óheimilt er að fara með peso úr landi.  Í flestum hótelum eru dollarabúðir (filmur, snyrtivörur, romm, vindlar og minjagripir).

Flestir bankar og pósthús eru opin á tímabilinu 08:30 - 12:30 og 13:30 - 17:30.  Pósthús veita enga gíróþjónustu!  Bankar og verzlanir taka við öllum ferðatékkum og krítarkortum, sem eru ekki gefin út í Bandaríkjunum (Visa, Euro, en ekki American Express og Diner).Suðurströnd Kúbu er hlýrri og oftast er betra veður á vestur- en austur ströndinni.

Kúbutími er 4 klst. á undan íslenzkum tíma eftir jafndægur að hausti.

Rafmagnið á Kúbu er 110V, 60Hz.  Flatar klær.  Á hótelunum Meliá Varadero og Americas eru 220V.

Heilbrigðisþjónusta er góð, en skortur á lyfjum.  Því ættu allir, sem þurfa á lyfjum að halda að flytja þau með sér og hafa lyfseðla meðferðis fyrir þeim.

Skordýr.  Það er ráðlagt að hafa flugnafælandi efni með sér en sáralítið er um flugnabit.

Þjórfé er vel þegið eftir því sem fólk kann að meta þjónustuna.

Áætlunarbílar eru ódýrir en óáreiðanlegir.

Leigubílar.  Bezt er að panta leigubíla frá hótelum og semja um verð fyrirfram, ef enginn gjaldmælir er í þeim.  Þeir eru ódýrir.  Fornbílar í leiguakstri eru einkum í Havana.  Cocotaxi kom á göturnar 2003 (2 farþegar) og hestvagnar og þríhjól er víða að finna.

Skoðunarferðir.  Víðast hvar í borgum og bæjum býður Ferðaskrifstofa ríkisins alls konar skoðunarferðir.

Brottfararskattur, 25.- skiptipesóar, greiðist eftir innritun og á undan vegabréfaskoðun á flugvelli.

Bílaleigur eru víða í hótelum eða nágrenni þeirra.  Einnig er hægt að leigja skellinörður.

Listaverkakaup.  Við kaup listaverka (málverka, stórra tréstyttna o.fl.) þarf að gæta þess að kaupa þau í verzlunum ríkisins, þar sem hægt er að fá kvittun fyrir kaupunum.  Ella er hættast við, að verkin verði gerð upptæk á flugvellinum við brottför.  Sama gildir um mikið magn af vindlum (hámark 23 stk. á manna).  Séu listaverk keypt á útimörkuðum, aðallega málverk, þarf að fá útflutningsleyfi, sem kostar smápening.  Bezt er að spyrja um útgáfustaði þeirra í nágrenninu, þegar kaupin fara fram.

Samgönguleiðir  ferðamanna.  Leigubílar eru annaðhvort opinberir (með gjaldmælum) eða einkabílar.  Áætlunarbílar (guaguas,framb.: úa-úas; líka kallaðar „rolling units” á ensku) og þríhjól fyrir þá, sem vilja hvíla sig á hjólreiðum.  Reiðhjól voru eitt aðalsamgöngutæki landsins vegna stöðugs skorts á eldsneyti og varahlutum.  Þessi skortur hefur dregið úr notkun flugvéla, járnbrautalesta, rútna og bíla og það er algeng sjón að sjá heilu hópana af fólki, sem ferðast um á puttanum milli borga.  Það er tiltölulega dýrt að leigja sér bíl, en það er samt bezti og öruggasti ferðamátinn, því að lítt er að treysta á áætlunarbíla.  Leigi maður sér bíl, er upplagt að taka með sér fólk, sem ferðast á puttanum og njóta samverunnar við það á meðan á ferðinni stendur.

Gæta verður fyllstu varúðar, þegar ekið er um götur og þjóðvegi, bæði í björtu og í myrkri vegna hins mikla manngrúa, sem er á ferðinni, gangandi, hjólandi og í hægfara bílum og rútum.  Götur og vegir eru víðast óupplýstir og enginn er með endurskinsmerki, þannig að erfitt er að sjá gangandi og hjólandi vegfarendur.

Hafa skal í huga, að lögreglan á Kúbu er í stöðugri herför gegn glæpastarfsemi.  Ferðamönnum finnst þeir öruggir víðast í landinu, en full þörf er á aðgát í stærri borgum landsins, líkt og annars staðar í heiminum.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM