Kúba Santiago de Cuba Karíbahaf,
Flag of Cuba


SANTIAGO de CUBA
KÚBA

.

.
Booking.com


Utanríkisrnt.

Santiago de Cuba er höfuðstaður samnefnds héraðs á suðausturströndinni í 0-6 m hæð yfir sjó.  Íbúafjöldinn er 370.000.  Áætlunarflug milli Santiago og Havanna.  Áætlunar- og leigubílar (deilibílar) milli Santiago og annarra stærri borga.  Frekari upplýsingar veitir Cubatur í hótel Casa Granda, Plaxa Céspedes, s. 7278.

Santiago er önnur stærsta borg Kúbu.  Hún stendur við skjólgóða vík á suðausturströndinni.  Þar er deigla fólks af indíánaættum og evrópskum og afrískum uppruna, sem gerir Santiago að karabískustu borg landsins, sem kemur aðallega fram í frjálslegri framkomu íbúanna.  Að baki borgarinnar eru skógi vaxin  Sierra Maestrafjöllin, sem eru torfær og þar með ósnortnasta svæði Kúbu.  Sunnan Santiago er hinn 7200 m djúpi Cayman-áll í Karíbahafinu.  Sé borgin skoðuð frá hafi,  virðist hún byggð á náttúrulegum stöllum í landslaginu og svalir húsanna með járngirðingum sínum, oddmjóum márískum gluggum og mjóum útistigum njóta sín vel.  Fólkið er vingjarnlegt og gestrisið og oft elta hópar barna gestina eftir götunum og söngla:  „Halló!  Hvaðan ertu?  Gefðu mér sápu!”

Atvinnulíf og íbúar.  Höfnin og viðskiptalífið eru undirstaða tilverunnar í borginni en þar er líka háskóli og setur katólsks erkibiskups.  Flestir íbúanna eru þeldökkir og fleiri eru af haitískum uppruna þar en í öðrum borgum landsins.

Sagan.  Diego Velázques stofnaði borgina árið 1514 og árin 1523-56 var hún höfuðborg eyjarinnar.  Á 17.- og 18.öld varð hún oft fyrir árásum sjóræningja og árið 1898 varð þar mikil sjóorrusta skammt undan landi milli spænsks- og bandarísks flota, sem skaut Spánverja í kaf. 
Borgin fékk nýja sögulega þýðingu í tengslum við byltingarhreyfingu Kastrós.  Torfær Sierra Maestrafjöllin voru tilvalinn felustaður fyrir uppreisnarmennina.  26. júlí 1953 reyndu þeir að leggja Moncadaherstöðina undir sig en mistókst.  Þessi dagsetning er talin upphaf byltingarinnar (26. júlí hreyfingin) og borgin var kölluð 'vagga byltingarinnar'. 2. janúar 1959 náðu uppreisnar-menn herstöðinni endanlega á sitt vald.

Céspedes-garðurinn er líflegur miðpunktur borgarinnar og flest skoðunarvert er í næsta nágrenni hans.

*Dómkirkjan, sunnan garðsins, var upprunalega byggð árið 1528 og síðast endurnýjuð árið 1932.  Útskorinn predikunarstóllinn (1910) og gröf Velázques eru athyglisverð og í safni kirkjunnar eru söguleg skjöl og dýrgripir hennar til sýnis.

Cementerio Santa Ifigenia.  Í þessum kirkjugarði eru margar hinna frægu frelsishetja til sýnis, uppstoppaðar (t.d. José Marti).

Ayuntamiento við norðanverðan garðinn var fyrrum ráðhús en nú setur Poder Popular.  Skammt austar er hótel Casa Grande, þar sem Cubatur, ferðaskr. ríkisins, er til húsa.

Casa de la Trova (18.öld) er við Calle Heredia, sem liggur meðfram garðinum sunnanverðum.  Þar er tónlistin Trova, sem er upprunnin í Santiago, iðkuð.  Austar er Casa Heredia, þar sem skáldið José María Heredia bjó (1842-1905).

Emilio Bacardi-safnið við Calle Pio Rosado var byggt í lok 19.aldar með stuðningi eins meðlims hinnar heimsfrægu Bacardifjölskyldu.  þar eru til sýnis fornminjar ýmissa indíánamenninga, egypzk listaverk og merkileg málverk.

Clandestinidad-safnið er við Calle Pico.  Í þessu safni andspyrnuhreyfingarinnar er dregin upp mynd af atburðum, sem áttu sér stað árið 1953.

Moncada-herstöðin er norðaustan við miðbæinn.  Uppreisnarmenn gerðu misheppnaða árás á hana 1953.  Þar er nú byltingarsafn.  Í byggingunni andspænis fóru fram réttarhöldin yfir Fidel Kastró.

Hermanos País-safnið er norðvestar við Avenida General Bandarez.  Þetta er minningarsafn um Paísbræðurna, sem skipulögðu andspyrnu gegn Batista og létu lífið fyrir.

José Martí-hverfið (40.000 íb.) er við norðanverða Santiagovíkina.  Það er kennt við skáldið og frelsishetjuna José Martí (1853-1895).  Hin síðari ár hefur hverfið verið endurnýjað og lagfært mjög skemmtilega.

Umhverfi Santiago de Cuba
El Morrovirkið
(eða 'Castillo de San Petro) við mynni Santiagovíkurinnar var reist um miðja 17. öldina.  Þar er nú safn, sem helgað er hörmungunum, sem árásir sjóræningja leiddu yfir íbúana.  Frá endurbyggðum mannvirkjunum er ljómandi útsýni yfir 'Bahía de Santiago og Karíbaströndina.

Zocapa er nes með litlu fiskiþorpi í Santiagovíkinni.  Úti fyrir því er smáeyjan Cayo Granma, þar sem bátar er lítil höfn og bátasmíði.

Granjita Siboney er bær, sem frumbyggjarnir skírðu þessu nafni, austan Santiago.  Þar hafði Kastró aðalbækistöð sína, þegar árásin var gerð á Moncada-herstöðina 1953.  Nú er bærinn pílagrímastaður byltingarsinnaðra ferðamanna.  Fallegasta baðströndin í grennd við Santiago, Playa Siboney, er sunnan bæjarins. 

*Gran Piedra er þjóðgarður 30 km austan Santiago.  Mjög gott útsýni er ofan af þursabergsklettinum Gran Piedra.  Fylgja verður réttum klifurleiðum eða stigum upp á hann.  Í góðu skyggni má sjá alla leið til Hispaniola og Jamaica.  Á 19.öld settust flóttamenn frá frönsku nýlendunni Ste. Dominigue (Hispaniola) að við fjallið sunnanvert og tóku til við kaffirækt.  Bústaður þeirra, La Isabellica, var gerður upp og er nú safn.

*El Cobre er gamall námubær 20 km norðvestan Santiago.  Þar leituðu frumbyggjarnir að verðmætum í jörðu áður en Kólumbus kom siglandi.  Bærinn hefur verið pílagrímastaður frá 17.öld, en þá sáu þrír fiskimenn svip heilagrar Maríu þar.  Kirkja staðarins sést víða að.  Hún er frægasta pílagrímakirkja Kúbu og þar gefur að líta marga verðmæta gripi, sem henni hafa áskotnazt sem áheit.  Ernest Hemingway gerðist líka pílagrímur og heimsótti staðinn.

*Sierra Maestrafjöllin teygjast austur og vestur fyrir Santiago.  Þar er kopar, mangan og króm í jörðu.  Hæsti tindur þessara fjalla, sem eru í raun röð samhliða fjallgarða, er Pico Turquino (1974 m; vestan Santiago; hæsti staður Kúbu).  Gran Piedra, austan Santiago er hæsti staður austurhluta fjallanna.  Flóttamenn frá Hispaniola leituðu sér hælis í Sierra Maestra á árum áður.  Þar földu byltingarmenn Kastrós sig á árunum milli 1956 og 1959 áður en þeir héldu í sigurgönguna til Havana.  Síðan hafa fjöllin orðið að svipuðum helgistað og Skíriskógur var í sögunni um Hróa hött.  Í Sierra Maestraþjóðgarðinum er blómlegur skógur, mjög góðir göngustígar og fjöldi tegunda villtra dýra.  Fólki eru boðnar skoðunarferðir til virkis byltingarmannanna eða ganga á Pico Turquino.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM