Landnám
Kólumbusar 1492 og spænsk nýlendustefna.
Stéttaskipting
á nýlendutímanum:
Spænskir nýlenduherrar, Afrókúbverjar (þrælar) og
frumbyggjar (indíánar útdauðir og þrælar).
Saman mynda þessar stéttir kúbverska þjóðernisvitund.
Þrælauppreisnin
1868:
Cespedes gaf þrælum sínum frelsi og hvatti til uppreisnar, sem
var drekkt í blóði en
leiddi síðar til formlegs afnáms þrælahalds. Cespedes er einn af fyrstu „píslarvottum” byltingarinnar
og er talinn „faðir föðurlandsins”.
Símon
Bólivar og suðurameríska þjóðfrelsisbaráttan:
Bólivar leiddi frelsisbaráttu spænskumælandi þjóða gegn nýlendustefnunni.
Kúba var eitt af síðustu vígjum spænskrar nýlendustefnu í
þessum heimshluta. Bólivar
er frumkvöðull þeirrar hugsjónar að sameina Suður-Ameríku í baráttunni
gegn heimsvaldastefnunni. Menn
eins og José Marti, Ernesto Che Guevara og Fídel Kastró töldu og
telja sig sporgöngumenn hans.
José
Marti og þjóðfrelsisuppreisnin 1895:
José Marti var menntamaður og skáld og hafði stundað nám í
BNA. Um leið og hann leiddi uppreisnina gegn nýlenduveldi Spánverja,
varaði hann við hættunni af bandarískri heimsvaldastefnu.
Marti var drepinn 1895 og er einn af „píslarvottum”
byltingarinnar. Uppreisn
hans leiddi til falls spænskrar nýlendustefnu á Kúbu.
Upphaf
bandarískrar íhlutunar í innri málum Kúbu:
Þegar bandarísku herskipi (Maine) var sökkt í höfninni í
Havanna 1898, varð það tilefni BNA til að lýsa yfir stríði gegn
Spáni, en þá var sigur innan seilingar hjá kúbversku þjóðernissinnunum.
Bandaríkjamenn skilgreindu Kúbu sem sitt áhrifasvæði og tóku
við hlutverki Spánverja sem hið nýja nýlenduveldi undir nýju
formerki: Kúba varð lýðveldi
1902 og öðlaðist formlegt sjálfstæði, sem var í reynd yfirskin nýrrar
yfirdrottnunar bandarískra auðhringa, sem
gerðu Kúbu að sykurforðabúri BNA og Havana að miðstöð
og svallstað bandarískrar yfirstéttar í Karíbahafinu.
Formlegt lýðræði var aldrei virkt á lýðveldistímanum
1902-1959 og stjórnarskrá lýðveldisins var marklaust plagg.
Forsetar eins og Gerardo
Machado og Batista voru í raun harðstjórar, sem drottnuðu í skjóli
bandarísks hervalds og þjónuðu hagsmunum og vilja hinna nýju „nýlenduherra”.
Ástandið
í valdatíð Batista:
Allur sykuriðnaðurinn, stór hluti ræktanlegs lands og öll önnur
iðnaðarframleiðsla var í höndum bandarískra auðhringa.
Þorri landsmanna bjó við efnahagslega- og menningarlega neyð.
Vinna var stopul og árstíðabundin eftir þörfum sykur- og tóbaksiðnaðarins
og laun voru lítil sem engin. Heilbrigðisþjónusta
var varla til á landsbyggðinni. Sama
má segja um menntun, því að þorri þjóðarinnar var ólæs og naut
engrar skólagöngu.
Árásin
á Moncadavirkið í Orientsýslu og stefnuyfirlýsing Fídels Kastrós: „Sagan mun sýkna mig”.
Þjóðhátíðardagur Kúbu er 26. júlí.
Þann dag 1953 gerði Kastró og félagar hans árás á
Moncadavirkið, sem mistókst. Hann
var fangelsaður, ákærður og dæmdur.
Kastró var nýútskrifaður lögfræðingur og varði sig sjálfur
fyrir rétti. Í varnarræðu
hans kom fram setningin: „Sagan
mun sýkna mig”. Hún varð
hluti af stefnuyfirlýsingu kúbversku byltingarinnar og ákæruskjals
gegn valdhöfunum og bandarískrar heimsveldisstefnu.
Skjalið byggir ekki á marx-lenínisma, heldur á þjóðernishyggju
í anda Bólivars, Cespedes og José Marti.
Kastró var síðan látinn laus 1955 og flýði til Mexíkó, þar
sem hann hitti Ernesto Che Guevara og undirbjó nýja uppreisn gegn
Batista.
Granmalandgangan
í desember 1955 og hlutverk Che Guevara:
Af 81 skipverjum komust 15 lifandi upp í Sierra Maestrafjöllin.
Þaðan stýrðu Kastróbræður og Che uppreisninni, sem leiddi
til sigurs á 3 árum. Che
stýrði lokasókninni í Santa Clara, þaðan sem Batista flúði land
1. janúar 1959. Landgöngudagurinn,
2. des., er haldinn hátíðlegur á Byltingartorginu í Havana (hersýning
og hátíðarhöld) og annars staðar í landinu.
Fyrstu
stjórnarárin og uppgjörið við bandarísk efnahagsyfirráð á Kúbu: Ein fyrsta tilskipun stjórnvalda var, að landareign skyldi
takmörkuð við 1000 ekrur. Í
reynd þýddi þetta þjóðnýtingu alls lands í eigu Bandaríkjamanna.
Þjóðnýtingin var gerð í nafni landlausra landbúnaðarverkamanna,
sem mynduðu þorra alls vinnuafls landsins.
Í kjölfarið kom þjóðnýting iðnfyrirtækja, sem neituðu
að hlíta fyrirmælum iðnaðarráðherrans Che Guevara.
Olíuiðnaðurinn var þjóðnýttur, þegar bandarísk olíuhreinsunarstöð
neitaði að hreinsa innflutta hráolíu frá Sovétríkjunum.
Í árslok 1960 höfðu nær öll stórfyrirtæki á Kúbu verið
þjóðnýtt.
Landflóttinn
frá Kúbu og viðbrögð útlaganna í Miami:
Um 200.000 eignamenn og áhangendur þeirra flýðu til BNA á
fyrstu þremur árum byltingarinnar og fleiri fóru í kjölfarið síðar. Ætla má, að nálægt hálfri milljón landflótta Kúbverja
búi í Miami. Þeir hafa
barizt gegn Kastró með oddi og egg alla tíð síðan
og magnað upp spennu á milli BNA og Kúbu.
Svínaflóainnrásin 1961 var undirbúin af CIA, sem þjálfaði
1500 Miami-útlaga til innrásar á Kúbu.
Henni átti að fylgja eftir með loftárásum.
Um 20.000 manna herlið mætti innrásarliðinu og yfirbugaði það
á fáum dögum. 1180
fangar voru teknir og seldir í skiptum fyrir matvæli og lyf að verðmæti
53 milljóna bandaríkjadala. Skriðdreki,
sem var notaður í þessari orrustu, stendur fyrir framan
byltingarsafnið í gömlu forsetahöllinni í Havanna.
Svínaflóainnrásin
markaði þáttaskil. Í kjölfar
hennar lýstu Kastró og félagar því yfir, að byltingin yrði að
byggja á marx-lenínisma og leitað var til Sovétríkjanna um aðstoð
við landvarnir. Kommúnistaflokkur
Kúbu, PCC, var stofnaður 1965.
Flugskeytadeilan
1962:
Khrútsjov Sovétforseti sendi 42 meðaldræg flugskeyti til Kúbu
1962 og stjórn BNA svaraði með hafnbanni.
Kúba var komin í miðju kalda stríðsins, heimurinn stóð á
öndinni og rambaði á barmi kjarnorkustyrjaldar.
Kúba var orðin leiksoppur í hugmyndafræðilegu stríði stórveldanna
og BNA settu viðskiptabann á Kúbu.
Flugskeytin voru fjarlægð gegn loforði BNA um að gera ekki
innrás á Kúbu og að flugskeyti yrðu fjarlægð frá
Tyrklandi.
Viðskiptabannið
og áhrif þess:
Í stað þess að kollvarpa stjórn Kastrós með vopnavaldi, ákvað
stjórn BNA að beita efnahagslegu valdi sínu með viðskiptabanni.
Afleiðingarnar eru tvíbentar:
Viðskiptabannið þvingaði Kúbu til nánara efnahags- og stjórnmálasam-starfs
við Sovétríkin en ella hefði orðið.
Sambærileg þróun varð á Íslandi í kjölfar viðskiptabanns
Breta í þorskastríðunum. Viðskiptabannið varð réttlæting stjórnvalda á Kúbu
til frelsissviptingar og strangara stjórnarfars á ýmsum sviðum.
Það var einnig ein af réttlætingum fyrir ströngu skömmtunarkerfi,
sem hefur ríkt síðan. Viðskiptabannið
varð umfram allt til þess að þjappa þjóðinni saman á bak við
Kastró og þjóðernissinnaða stefnu hans.
Segja má, að fátt hafi orðið til að styrkja stöðu stjórnvalda
með jafnafgerandi hætti. Slökun
varð í viðskiptabanninu í stjórnartíð Jimmy Carters.
Reagan herti aftur á, en margir bjuggust við nýrri þíðu með
Clintonstjórninni.
Ögranir
Miamiútlaganna og Helms/Burton-lögin frá 1996: Á fyrri hluta ársins flugu kúbverskir útlagar frá Miami
ítrekað inn í lofthelgi Kúbu, greinilega í því skyni að skapa
spennu á milli ríkjanna fyrir forsetakosningarnar í BNA.
Kúbverska strandgæzlan skaut niður tvær flugvélar útlaganna
í kúbverskri lofthelgi og tveir menn fórust.
Í framhaldi af þessu samþykkti þing BNA frumvarp þingmannanna
Helms og Burtons um hertar aðgerðir gegn Kúbu og Clinton forseti staðfesti
þau. Hann var undir þrýstingi
frá hægrisinnuðum repúblíkönum og Miami-útlögum.
Þessi lög gerðu alla þá, sem eiga viðskipti við Kúbu,
seka fyrir bandarískum lögum. Lögin
byggja á þeirri hugsun, að viðkomandi séu að nýta sér bandarískar
eigur á Kúbu, sem hafi verið þjóðnýttar.
Samkvæmt lögunum eru t.d. spænsku hótelkeðjurnar á
Varaderoströndinni að nýta sér eignir Du Pont fjölskyldunnar.
Lögin eiga að taka gildi 1997.
Viðurlög eru svipting landvistarleyfis í BNA.
Andstæðingar laganna telja þau brjóta í bága við alþjóðlegar
skuldbindingar BNA, einkum í GATT-samningnum.
Kúba
eftir fall Sovétríkjanna:
Eftir hrun Sovétríkjanna hefur Kúba gengið í gegnum mestu
efnahagsþrengingar sínar síðan 1959.
Klippt var á viðskiptatengslin „sykur fyrir olíu”.
Kúba þurfti að leita að nýjum markaði fyrir sykurinn og olíuinnkaup
á grundvelli heimsmarkaðsverðs.
Eldsneytisskortur hefur lamað alla iðnaðarframleiðslu síðan
og þjóðarframleiðslan dróst saman um 50% á 3 árum.
Sykurframleiðslan fór niður í 3,5 milljónir tonna, en er nú
á uppleið á ný. Afleiðingin
birtist í auknum vöruskorti og hertum skömmtunarreglum.
Skorturinn á erlendum gjaldmiðli hefur jafnframt ýtt undir
eftirsókn Kúbu í erlenda fjárfestingu, sem fer vaxandi, þrátt
fyrir viðskiptabannið.
Erlendar
fjárfestingar
og slökun á viðskiptahöftum á Kúbu:
Erlendir fjárfestar á Kúbu koma einkum frá Spáni, Kanada og
Mexíkó (Ítalar og Þjóðverjar sækja líka að).
Þeir hafa fjárfest í ferðaþjónustu, olíuvinnslu, námagreftri
o.fl. Fjárfestingarnar eru
samvinnuverkefni stjórnvalda og fjárfesta (Joint Venture;
49%+51%). Samfara þessu
hefur verið losað um hömlur á einkarekstri í litlum mæli (frá
1994; fjölskyldurekstur). Bændur
hafa leyfi til að selja takmarkaðan hluta framleiðslu sinnar á opnum
útimörkuðum, þar sem þeir fá hærra verð fyrir afurðirnar en ríkið
greiðir þeim. Handverksmenn
mega selja framleiðslu sína
á frjálsum markaði. Leyfður
er rekstur lítilla þjónustufyrirtækja. Þessar breytingar hafa gengið yfir síðan 1993-4.
Að
hvaða leyti er kúbverska byltingin frábrugðin öðrum sósíalískum
byltingum og hvers vegna féll Kastró ekki, þegar Sovétríkin liðuðust
í sundur?
Svarið
við þessari spurningu er að finna í þeirri sögu, sem hér var
rakin. Kúbverska byltingin
sigraði ekki með aðstoð rauða hersins í kjölfar
heimsstyrjaldarinnar síðari, heldur byggði á sögulegri hefð og þjóðernisvitund,
sem má rekja aftur til Símons Bólivars og Cespedes.
Hún hefur byggt á öruggum stuðningi þorra þjóðarinnar við
stefnu Kastrós.
Samtímis
því, að andófið gegn Sovétveldinu byggðist víðast á þjóðernishyggju,
standa andstæðingar Kastrós í Miami fyrir undirgefni við bandaríska
hagsmuni og eignakröfum bandarískra auðhringa á hendur Kúbu. Miamiútlagarnir hafa ekki traust meðal almennings á Kúbu,
þar sem hann óttast afleiðingar eignaupptöku.
Hver
er hugsanleg framtíð kúbversku byltingarinnar?
Þverstæðurnar
í kúbversku efnahagslífi eru himinhrópandi og augljósar. Ríkjandi
ástand verður ekki til langframa.
Sama má segja um hið pólítíska ástand og þær hömlur, sem
það leggur á ýmis mannréttindi, sem við teljum grundvallaratriði
lýðræðis. Þegar spáð
er um framtíðina, er gjarnan litið til hliðstæðna í sögunni.
Við getum litið á eftirtaldar hliðstæður:
Sovétkerfið
og hrun þess.
Hliðstæðan er það hagkerfi, sem Kúbverjar hafa tekið upp að
sovétskri fyrirmynd og hefur reynzt ónýtt.
Hliðstæðan nær hins vegar ekki til sögulegra og landfræðilegra
aðstæðna, sem Kúba býr við. Þróunin
á Kúbu verður með öðrum hætti af þeim sökum.
Kína: Kínverjar hafa þróað frjáls markaðsviðskipti undir ströngu
pólítísku miðstjórnarvaldi, þar sem öll lýðræðisréttindi eru
vanvirt. Ástæðan fyrir
því, að þessi þróun sé ólíkleg á Kúbu, er bæði fólgin í nálægðinni
við BNA og ekki sízt þeirri staðreynd, að Kúba er ekki mikilvægur
markaður fyrir fjárfesta eins og Kína.
Engum dettur í hug, að setja viðskiptabann á Kína, þótt að
þyki sjálfsagt, þegar kúba á í hlut. Það eru gerðar aðrar siðferðiskröfur til kúbverskra
stjórnvalda en kínverskra af þessum sökum.
BNA munu ekki líða frjáls viðskipti við Kúbu án pólítískra
breytinga.
Spánn
við fall Francesco Franco:
Hliðstæðan er þessi: Spánn
var pólítískt einangraður og vanþróað land efnahagslega, þegar
Franco ákvað að opna það fyrir útlendingum með stóraukinni áherzlu
á ferðaþjónustu. Straumur
ferðamanna til Spánar gróf undan pólítísku einræði Francostjórnarinnar
og átti drjúgan þátt í að opna fyrir friðsamlegum umskiptum til lýðræðis
að Franco látnum. Það,
sem er ólíkt í þessu dæmi, er stjórnarfarið.
Ef við segjum, að Franco og Kastró eigi það sameiginlegt að
hafa verðjað á rangan hest í sögulegu samhengi (Hitler og Sovétveldið),
þá eru þessi einræðisríki ekki sambærileg sem fyrirmyndir.
Ferðaþjónustan á Kúbu knýr augljóslega á um pólítískar
umbætur, en það er ekkert, sem segir okkur, að þær muni gerast með
hliðstæðum hætti og á Spáni.
Mexíkó: Byltingarflokkurinn í Mexíkó byggði á sínum tíma á suðuramerískri
þjóðernishyggju, líkt og kúbverska byltingin.
Hann hefur verið við völd í tæpa öld og árangurinn er ekki
til að hrópa húrra fyrir. Samt
hefur Mexíkó notið „vildarkjara” á bandarískan mælikvarða í
viðskiptum við BNA og er í efnahagsbandalagi ríkja N.-Ameríku.
Efnahagsleg- og félagsleg afkoma almennings í Mexíkó er víða
verri en á Kúbu og félagslegt öryggi minna.
Kúbverjar líta ekki til Mexíkó sem fyrirmyndarríkis og telja
sitt kerfi vafalaust betra. Hægt
er að sjá fyrir sér mexíkóskt ástand á Kúbu, ef viðskiptabanninu
verður aflétt.
Staðreyndin
er hins vegar sú, að hliðstæðurnar koma að takmörkuðu gagni,
vegna þess, að aðstæðurnar á Kúbu eru um margt einstakar.
Þó
liggur eitt í augum uppi: Ekkert
myndi hafa jafnskjótvirk áhrif til breytingar á Kúbu og breytt afstaða
BNA. Afnám viðskiptabannsins
og endurnýjuð stjórnmálasamskipti myndu gjörbreyta öllum
forsendum.
Annað
liggur líka í augum uppi: Lok
kalda stríðsins gera það að verkum, að Kúba er ekki lengur pólítískt
bitbein stórveldanna í hugmyndafræðilegum átökum.
Sú staðreynd er
ein af þeim röksemdum, sem færa má gegn viðskiptabanninu og skýrir
jafnframt vaxandi andstöðu við það á alþjóðavettvangi.
Ríkið
og stjórnhættir.
Kúba
hefur verið sósíalískt alþýðulýðveldi síðan 1959 Fidel Kastró
er þjóðhöfðingi, formaður þjóðarráðsins og æðsti maður ríkisstjórnar
landsins. Auk þess er hann formaður ráðherraráðsins, yfirmaður
hersins og aðalritari Kommúnistaflokks Kúbu.
Löggjafarvaldið er í höndum þjóðarráðsins (31 ráðsmaður),
sem ber samþykktir sínar undir þjóðþingið (481 þingmenn; kosnir
til 5 ára í senn). Framkvæmdavaldið
er í höndum ráðherraráðsins en í því sitja 19 ráðherrar, sem
forseti landsins velur. Ráðherraráðið
á að heita ábyrgt gagnvart þjóðþinginu.
Landið skiptist í 14 héruð og 169 hrepp
Kúba
er í Sameinuðu þjóðunum, COMECON og SELA (Sisterna Económico
Latino-Americano).
Skilningur
Kúbverja á lýðræði!
Það,
sem brýtur í bága við vesturlenzkar hugmyndir um lýðræði í kúbversku
stjórnkerfi:
*Aðeins
er leyfður einn stjórnmálaflokkur.
*Aðgreining
framkvæmdavalds, löggjafarvalds og dómsvalds er ekki til staðar með
þeim hætti, sem tíðkast í lýðræðisríkjum.
*Kosningafyrirkomulag
til löggjafarþingsins er óeðlilegt, þar sem kosið er í
einmenningskjördæmum og aðeins er leyfður einn frambjóðandi.
Hann er tilnefndur af PCC. Kjósendur
tjá vilja sinn með því að samþykkja hann eða hafna honum.
Tilfinnanlegasta
frelsissviptingin skapast þó af efnahagslegum skorti. Launakjörin gera það að verkum, að almenningi er gert ókleift
að komast úr landi. Þeir,
sem komast úr landi eru ýmist sendir af ríkinu eða
þeir verða að sýna fram á að þeim hafi verið boðið af
erlendum aðilum. Kúbverji,
sem hefur safnað erlendum gjaldmiðlum til að kaupa sér utanlandsferð, hefur óhjákvæmilega
komizt yfir þá með ólöglegum viðskiptum við útlendinga.
Þótt
almenningur á Kúbu búi við frelsisskerðingu af margvíslegum toga,
verður ekki fundið, að þar sé lögregluríki, eins og var t.d. áberandi
á Spáni á síðustu valdaárum Francos.
Þar þorði almenningur ekki að tjá sig við útlendinga.
Ekki verður séð, að kúbverskur almenningur búi við ótta
og þori ekki að tjá sig. Þvert
á móti vilja Kúbverjar ólmir tjá sig við erlenda gesti og eru óhræddir
að svara spurningum.
Almenningur
stendur þétt að baki Kastró, þótt menntaðir Kúbverjar viðurkenni,
að þeir gætu vel hugsað sér að fá betri tækifæri til að sjá sér
farborða. Það er hins
vegar ekki óalgengt, að þeir taki óstinnt upp gagnrýni á Fídel
Kastró, sérstaklega, ef hún kemur frá útlendingum.
Það getur sært þjóðarstolt þeirra umfram allt annað.
Ekkert hefur þjappað íbúum Kúbu þéttar saman að baki foringjanum
en viðskiptabann BNA. |