Kúba kjötkveðjuhátíðir,
Flag of Cuba


KJÖTKVEÐJUHÁTÍÐIR og KABARETTAR,
KÚBA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Aðalhátíðir í Havana hefjast að kvöldi til eftir hin hefðbundnu fallbyssuskot kl. 21:00 í virkinu San Carlos de la Cabaña.  Þannig byrja kjötkveðjuhátíðirnar í Havanna líka.  Þær eiga sér mismunandi uppruna, s.s. þær, sem eru nefndar „Dionisia”, „Santurales” eða „Atis-uppskeruhátíðin”.  Hin síðastnefnda er þétttengd afrískum dönsum, sem voru stignir til dýrðar náttúrunni, frjósemi jarðar og góðri uppskeru.

Þrælarnir vildu viðhalda siðum sínum og trúarbrögðum með dönsunum og hátíðum.  Þeir stunduðu þessa iðju leynilega fram til ársins 1568, þegar fréttist um þessar samkomur í nágrenni Pogolotti (Marianao).  Þær héldu áfram í felum fram til 1870, þegar þær voru leyfðar opinberlega og þrælahaldararnir hættu að álíta þær hættulegar sér og þjóðskipulaginu.  Óðalseigendurnir fóru jafnvel að vera viðstaddir sjálfir til að njóta þeirra.  Þeldökkir og hvítir komu saman hinn 6. janúar ár hvert (á þrettándanum, degi vitringanna þriggja).  Þá gáfu óðalseigendurnir þrælunum jólabónus.

Framan af voru kjötkveðjuhátíðir þeldökkra og hvítra aðskildar en runnu síðan saman vegna blóðblöndunar þjóðarinnar.  Árið 1937 rann allt saman í söng og dansi eftir að hátíðunum hafði verið haldið aðskildum af valdamönnum þjóðarinnar á þriðja og fjórða áratug aldarinnar.  Það, sem setti helzt svip á þessar hátíðir voru skreyttir hestvagnar, fólk í alls konar búningum og valdar voru drottingar og stjörnur hátíðanna meðal fegurstu kvenna.  Þessum hátíðum svipar mjög til kjötkveðjuhátíðanna í Rio de Janeiro í Brasílíu.

Þrjár helztu hátíðirnar á Kúbu fara fram í höfuðborginni, í Varadero (140 km austan Havana) og í Santiago de Cuba í austasta héraði landsins, Oriente.

Eftir að mjög hafði dregið úr þessum hátíðahöldum (víða var þeim alveg hætt) vegna bágs efnahags á níunda áratugnum, hófust þau aftur 1996 vegna þarfa og þrýstings erlendra ferðamanna.  Núna eru þær haldnar á sömu stöðum og á sama árstíma (í febrúar) og áður á Paseo del Prado eða Martí í skjóli trjábelta meðfram götunum.  Þær höfðu þróast frá „Tólftu nætur hátíðum” til  „Hátíða fulls tungls” líkt og í Afríku og Evrópu.  Áhorfandinn sér og tekur þátt í skrúðgöngum og hópdönsum (comparsas), sem eru langar raðir dansara, venjulega af gagnstæðu kyni hlið við hlið.  Hljómlistin er flókin, dansararnir eru skrautklæddir og bera fána og veifur og fegurstu konur eru valdar í hlutverkin.  Þessir hópdansar heita ýmsum nöfnum, s.s. sporðdrekinn, sultana, greifinn, garðyrkjumaðurinn og Guaracheros.

Kjötkveðjuhátíðirnar í Havana lýsa hamingju.  Talsverðs áfengis er neytt, fólk verður rómantískt og dansar þar til það getur sig ekki hreyft fyrir þreytu.

Slíkar hátíðir verða árlegur viðburður héðan í frá fyrsta laugardag febrúarmánaðar í Havana eftir að fallbyssuskotið kl. 21:00 hefur dunið yfir borgina og hátíðin hefur verið sett fyrir frama Capitolbygginguna í grennd við Byltingartorgið í borginni.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM