Du Pont fjölskyldan USA,
Flag of Cuba


DU PONT FJÖLSKYLDAN
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Sé veraldlegur auður notaður sem mælikvarði á velgengni, er saga þessarar fjölskyldu lýsandi dæmi.  Einn fjölskildulimur stofnaði E.I. du Pont de Nemours & Company árið 1802 í grennd við Wilmington, í Delaware til að framleiða byssupúður.  Innan einnar aldar var fyrirtækið orðið stærsta sprengiefnaverksmiðja þjóðarinnar.  Núna byggist reksturinn mikið á efnaverksmiðjum, sem hafa framleitt ýmiss konar efni, sem gera fólki lífið léttara, s.s. lucite, teflon, orlon, dacron, mylar og neoprene.

Pierre-Samuel du Pont de Nemours (1739-1817) fæddist í París.  Hann var kunnur hagfræðingur fyrir Frönsku stjórnarbyltinguna 1789.  Hann flúði til BNA með sonum sínum Victor og Éleuthè Irénée í janúar árið 1800.

Victor (1767-1827) var fulltrúi í fyrstu sendinefnd Frakka í BNA árið 1787 og aðstoðarmaður Lafayette 1789-1791.  Eftir misheppnaðar tilraunir í viðskiptalífinu var hann skipaður forstjóri Bandaríkjabanka.  Sonur hans, Samuel Francis (1803-1865), varð foringi í sjóhernum og síðar flotaforingi í bandarísku borgarastyrjöldinni.

Éleuthère Irénée du Pont (1771-1834) stofnaði púðurverksmiðjuna, sem varð grundvöllur ríkidæmi fjölskyldunnar.  Áður en hann fór frá Frakklandi lærði hann efnafræði hjá hinum kunna efnafræðingi Antoine Laurent Lavoisier og starfaði líka í franskri vopnaverksmiðju.  Þegar hann komst að raun um að bandarískt púður var bæði dýrt og lélegt, byggði hann sína eigin verksmiðju í Delaware.  Alríkisstjórnin varð strax helzti viðskiptavinur hans, þegar verksmiðjan var opnuð árið 1804.

Að honum látnum stjórnuðu synir hans tveir, Alfred Victor (1798-1856) og Henry (1812-1889), fyrirtækinu.  Henry stjórnaði því á tímum iðnbyltingarinnar í BNA, 1850-1889.  Henry Algernon, einn sona Henrys (1838-1926), var liðsforingi frá West Point eins of faðir hans.  Hann fékk heiðursorðuna í bandarísku borgarastyrjöldinni og gekk til liðs við fyrirtækið árið 1878.  Eftir að hann dró sig í hlé árið 1902 var hann kosinn öldungardeildarþingmaður fyrir Delaware og þjónaði sem slíkur frá 1906-1917.

Eftir dauða Henry du Pont 1889 stórnaði barnabarn hans, Eugene du Pont (1840-1902), fyrirtækinu.  Árið 1902 leit svo út sem fyrirtækið yrði selt.  Þá tóku við stjórninni þrír frændur, Thomas Coleman du Pont (1863-1930), Alfred Irénée du Pont (1864-1935) og Pierre Samuel du Pont (1870-1954).

Frændurnir keyptu á skömmum tíma upp hlutabréf keppinauta sinna í sprengiefnaframleiðslunni og gerðu fyrirtækið að einu stærsta fyrirtæki þjóðarinnar.  Árið 1917, þegar General Motors riðaði á barmi gjaldþrots, keypti Pierre u.þ.b. fjórðung hlutabréfa fyrirtækisins og endurskipulagði það.  Du Pont hélt í stjórnartauma GM til 1959, þegar alríkisstjórnin þvingaði fram sölu hlutabréfanna á grundvelli laga gegn hringamyndun.  Eftir síðari heimsstyrjöldina fór Du Pont að framleiða alls konar gerviefni og varð stórveldi á þeim vettvangi.

Irénèe du Pont (1876-1963) tók við af bróður sínum árið 1919.  Hann var forstjóri til 1946.  Yngri bróðir, Lammot (1880-1952) var stjórnarformaður fyrirtækisins 1926-1940.  Hann var líka forstjóri um tíma.

Síðasti fjölskyldulimurinn, sem stjórnaði fyrirtækinu, var Lammot du Pont Copeland (1905-).  Hann dró sig í hlé árið 1971.  Du Pont fjölskyldan á enn þá stóran hlut í fyrirtækinu, þótt það sé ekki lengur fjölskyldufyrirtæki.  Venjulega er einn úr fjölskyldunni í stjórn þess.

Þessarar auðugu fjölskyldu er getið hér vegna þess, að hún kom við sögu Kúbu, m.a. reisti hún sér stórhýsi á Hiacocosskaganum norðan Varadero, sem er mesti ferðamannastaður Kúbu.  Þetta hús hefur nú verið gert upp og þjónar sem klúbbhús golfvallarins í næsta nágrenni hótelanna Melia Las Americas og Melia Varadero.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM