Kúba atvinnulífið Karíbahaf,
Flag of Cuba


KÚBA
ATVINNULÍFIÐ
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Talsvert er um verðmæt efni í jörðu á Kúbu, einkum nikkel (25% þess, sem fundizt hefur á jörðinni), mangan, kobalt, kopar, króm og volfram, en einnig járn, sem gæti orðið landinu væn tekjulind.  Þar er líka pumpað upp u.þ.b. 300.000 tonnum af jarðolíu og unnin 120.000 tonn af salti á ári.

Landbúnaðurinn er nú sem fyrr mikilvægasta atvinnugrein landsins og helmingur þess er nýtilegur til ræktunar.  3,1 milljónir ha eru akurlendi og svipaður flötur er nýttur sem beitiland.  Árin 1959/60 og 1963 voru 90% ræktanlegs lands lögð undir samyrkjubú ríkisins og 10%, sem eftir voru í eigu smábænda, voru líka skipulögð með samyrkjusniði án þess að til jafnrar skiptingar kæmi milli bændanna.

Sykurræktin er í fyrsta sæti (60-70% útfl.verðmæta).  Árið 1978 var ræktaður sykurreyr á 1,3 milljónum ha á ríkisbúunum.  Árin 1988/89 var gífurleg áherzla lögð á sykurframleiðsluna og afraksturinn varð 8 milljónir tonna (tæplega 10% heimsframleiðslunnar).  Síðan þá hefur verið lögð áherzla á að gera landbúnaðarframleiðsluna fjölbreyttari til að draga úr efnahagssveiflum, sem svo einhæf framleiðsla leiðir til vegna heimsmarkaðsverðsins.  Framleiðsla hrísgrjóna (880.000 tonn 1988) og sítrusávaxta (300.000 tonn 1988) var aukin.  Aðrar mikilvægar afurðir eru tóbak og kaffi, sem einkum er ræktað á jörðum smábændanna.  Fjöldi nautgripa var 8 milljónir árið 1987 og ræktun þeirra var í öðru sæti landbúnaðarframleiðslunnar.  Síðustu ár hefur mikilvægi hennar aukizt vegna kynbóta og bættra bithaga.

Skógarhögg.  Grasslétturnar og skógarnir hurfu fyrir sykurekrum og beitilandi, þannig að Kúba var ekki sjálfri sér nóg með trjávið.  Skógrækt hófst fyrir mörgum árum.  Einkum er plantað trjátegundum, sem gefa mestan arð, s.s.furu, tröllatrjám (eukalyptus), sedrusviði, mahóní og majuga.

Fiskveiðar urðu að arðbærri atvinnugrein frá og með 1959.  Árið 1958 var heildaraflinn 22.000 tonn en 1989 185.000 tonn.

Iðnaðurinn byggist á námavinnslunni og landbúnaðnum.  Fyrirtæki, sem framleiða hrásykur, síróp, romm og iðnaðarspíra, veita flestum atvinnu.  Aukabúgrein þeirra er framleiðsla pappírs úr hálmi sykurreyrsins (bagasse). 

Kjötiðnaður blómstrar og nýverið hefur verið lögð aukin áherzla á mjólkuriðnað í kjölfar kynbóta með Holstein- og brahmanautgripum.

Fiskiðnaður er smám saman að komast í nútímahorf og verður æ mikilvægari hluti matvælaframleiðslu eyjarskeggja.

Tóbaksvinnsla, niðursuða ávaxta og grænmetis, drykkjarvöru- og sælgætisframleiðsla eru aðrar greinar tengdar landbúnaðnum.

Vegna orkuskorts átti annar iðnaður erfitt uppdráttar.  Þetta kom einna helzt niður á nýtingu nikkelnámanna og byggingu sement- og áburðarverksmiðja.  Sovétríkin veittu aðstoð við uppbyggingu iðnaðar, sem byggist á innlendum hráefnum eins og kalki, kaolíni, feldspati, asfaltíti, járni, krómi, mangan og marmara. 

Síðustu framkvæmdir á sviði iðnaðarins, eftir að kjarnorkuverið við Cienfuegos var tekið í notkun, voru byggingar eftirtalinna verksmiðja: byggingarefna- og áburðarverksmiðju í héraðinu Camagüey, stálverksmiðjunnar Antillana del Acero, nikkelverksmiðjunnar Punta Gorda og þriggja olíuhreinsunarstöðva.

Síðustu árin hefur verið stofnað til efnaiðnaðar, sem gegnir æ veigameira hlutverki í útflutningi Kúbu.

Fiðlu- og hornaboltaframleiðsla er nýhafin, en báðar þessar iðngreinar eru mannfrekar.

Stjórnir nágrannaeyjanna fylgjast grannt með uppbyggingu atvinnuveganna á Kúbu.

Ferðaþjónustan.  Eftir að banni við komu bandarískra ríkisborgara til landsins árið 1977 var aflétt hefur þessi atvinnugrein rétt úr kútnum.  Fyrir árið 1959 komu mörg hundruð þúsund ferðamanna en 1961 voru þeir 3.000.  Árið 1977 var talan komin upp í 70.000 og tveimur árum síðar 140.000.  Þessi tala var orðin tvöföld árið 1987 (50.000 Kanadamenn; 4.000 frá Austur-Þýzkalandi; 27.000 Þjóðverjar; 10.000 frá Sovétríkjunum). Árið 2004 var tala ferðamanna komin upp í u.þ.b. 2 miljónir. Mikil skipulagning og fjármunir eru nú lagðir í uppbyggingu ferðaþjónustunnar með þarfir evrópskra gesta í huga til að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar.  Meðal þessara framkvæmda er lúxusaðstaða á eyjunum Isla de la Juventud, Cayo Largo og Cayo Coco og við  Ciego de Avilla á norðurströndinni, hjá Santiago á suðurströndinni og í Varadero á Hicacosskaganum á norðurhluta eyjarinnar (1996: 8000 tveggja manna herbergi í mjög góðum hótelum og fjöldi nýrra í smíðum á Hicacososkaganum).

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM