Lega
og náttúrufar.
Kúba
er stærsta og fjölmennasta eyja Karíbahafsins.
Hún er í u.þ.b. 190 km fjarlægð frá Flórída og er íbjúg
í laginu, 1.255 km löng og 97 km breið. Sundið milli Kúbu og Yucatanskagans er 140 km breitt og
Windwardsundið milli Kúbu og Hispaniola 77 km breitt.
Eyjan
er efsti hluti tiltölulega flats sökkuls og er sæbrött að sunnanverðu.
Fyrir suðausturströndinni er Caymanállinn allt að 7.200 m djúpur.
Hann er afleiðing stöðugra jarðskorpuhreyfinga, sem leysa oft
mikla jarðskjálfta úr læðingi á Kúbu.
Landslagslínur eru víðast mjúkar en á báðum endum
eyjarinnar eru fjallgarðar og kórallahryggir og sandöldur úr kalki
mynda keðju af smáeyjum og rifjum umhverfis hana.
Strandlengjan
er 3.300 km löng og vogskorin og breidd eyjarinnar er milli 50 og 200
km. Með ströndinni eru
margar „bolsahafnir”, litlar víkur með mjög þröngri
innsiglingu, sem breikka er innar dregur og eru þar af leiðandi mjög
skjólsælar. Norðurströndin
er brattari en suðurströndin og við árósa eru stór mýrlendi með
fenjaskógum. Þrír fjórðu
hlutar Kúbu eru taldir til láglendissvæða með kalkríkum, dökkum eða
rauðleitum og frjósömum setjarðvegi, sem hentar vel til ræktunar
sykurreyrs, ávaxta og grænmetis.
Reynt er að nýta sem mest land til ræktunar en urðasvæði með
þunnum jarðvegi eru nýtt til beitar og algengt er að sjá
þjóðartréð, konungspálmann,
þar.
Yfir
vesturhluta eyjunnar gnæfir hinn 728 m hái fjallgarður Cordillera de
Guaniguanico. Við suðurrætur
hans er hið fræga Vuelta-Abajotóbak ræktað.
Fegurstu hlutar fjallgarðsins, Sierra de Los Organos og Sierra
del Rosario, skarta flötum, hlíðabröttum dölum og kalkturnum og
keilum og öðrum listaverkum náttúrunnar.
Nálægt
miðri eyju rís Sierra del Escambray með alls konar furðusmíðum úr
kalki upp í 1.156 m hæð yfir sjó.
Í hlíðum þessara fjalla er enn þá ræktað kaffi, mest í héraðinu
Alturas de Trinidad. Á síðustu
áratugum hafa margar stíflur verið reistar til að safna vatni til áveitna
og neyzlu.
Hæstu
staðir eyjarinnar eru í suðausturhlutanum.
Hæsti tindur skógi vaxins Sierra Maestra fjallgarðsins, Pico
de Turquino, er 1972 m hár. Hann
er í grennd við Caymanálinn (7200 m dýpi).
Breiður og þéttbýll Valle Central skilur Sierra Maestra og
Sierra Nipe og Alturas de Baracoa að.
Þessi fjöll eru áhugaverðust hvað snertir upprunalegan gróður
og dýralíf Kúbu. Mikið
er ræktað af kaffi í miðjum hlíðum þeirra.
Ofar eru námur, sem standa undir þungaiðnaði eyjarinnar.
Landslag
Ciénaga de Zapataskagans í suðvesturhlutanum er allfrábrugðið öðrum
landshlutum. Úti fyrir
honum er litla eyjan „Isla de la Juventud” (Æskueyjan), sem einnig
er kölluð „Isla de Pinos”. Landslagseinkennin
eru helzt óteljandi víkur og lón, ótræðisfen og þéttir fenjaskógar
auk margra velgróinna smáeyja.
Árnar
eru flestar stuttar en flytja mikið vatn í rigningartíð.
Jafnvel smálækir geta valdið miklum flóðum á láglendi.
Sumar árnar eru skipgengar neðst.
Loftslagið
er
jaðartrópískt. Loftraki
er að meðaltali 75%. Þurrkatíminn
er á veturna og kallast „La Seca”. Á sumrin eru tvö úrkomutímabil.
Hitinn getur orðið minnstur 7°C en mestur 38°C.
Meðalárshiti í Havanna er 25,2°C en meðalhiti kaldasta mánaðarins
er 22°C og hins heitasta 28°C. Stærð
og landslag eyjarinnar jafna loftrakann talsvert, þannig að hann er í
hámarki 7-9 mánuði á ári en uppi í fjöllum er hann alltaf jafnhár.
Mesta úrkoman er frá miðjum maí fram í oktober. Úrkoman
fellur á 80-100 dögum á ári, mest í fjallahéruðunum.
Meðalársúrkoman er á milli 900 og 1600 mm.
Fellibyljir og hitabeltisóveður setja strik í reikninginn með
aukinni úrkomu og gífurlegum flóðum.
Íbúarnir eru af mismunandi bergi
brotnir, 60% af spænsku, 22% eru múlattar, 11% af afrísku og 1% kínversku.
47% íbúanna eru katólsk og líklega halla flestir aðrir sér
að katólskunni, þótt þeir iðki hana ekki út í yztu æsar, 4% mótmælendur
(bandaríks áhrif) og 2% eru fylgjendur trúarbragðanna „santería”,
sem er blanda katólsku og afrískra trúarbragða.
Einnig er lítill söfnuður gyðinga í Havana.
Flestir landsmenn taka trú sína hátíðlega og eru ekki sáttir
við léttvægar umræður um trúmál.
Frumbyggjar
eyjarinnar voru Guanahabatey frá Mexíkó og Ciboney frá suðurhluta
N-Ameríku, sem komu til Kúbu u.þ.b. 3500 f.Kr.
Tainoindíánar útrýmdu þeim á 12. öld.
Þeir voru þróaðri og af Arawakstofni (frá S-Ameríku).
þeir höfðu mikla ánægju af hátíðum, dansi, knattleikjum,
tóbaksreykingum og drykkju (cassava).
Kúba
er ekki eins þéttbýl og aðrar Antilleyjar (>90 íb. á km²).
Nálægt 70% íbúanna búa í borgum.
Íbúafjöldinn um aldamótin var u.þ.b. 2 milljónir en hann fjórfaldaðist
hér um bil næstu 80 árin. Á
fyrstu áratugum 20. aldarinnar fluttist hálf milljón Spánverja til Kúbu
og styrkti stöðu hvíta hluta íbúanna svo tryggilega, að mörg
hundruð þúsund aðfluttra Haïtibúa jöfnuðu ekki stöðuna.
Eftir
valdatöku Kastrós fluttist stór hluti yfir- og millistéttanna brott
(200.000) og settist að í Flórída (flestir í Stór-Miami; Litla
Havana). Þessi blóðtaka
kom illa niður á atvinnulífinu, þar sem skortur varð á faglærðu
fólki, en samt breyttust tölur um íbúafjöldans lítið.
Íbúum fjölgaði um rúmlega 20% á árunum milli 1950 og 1970
en tekizt hefur að koma árlegri fjölgun niður í 2%.
Árið 1972 var fjöldi brottfluttra enn þá 17.000 fleiri an aðfluttra
en tveimur árum síðar var munurinn orðinn tæplega 4.000.
Síðan hefur hann aukizt vegna þess, hve margir pólitískir
fangar hafa verið látnir lausir og hve mörgum óæskilegum íbúum
hefur verið vísað úr landi. Þessar
aðgerðir ollu miklum vandræðum í Flórída, því að þangað
streymdi þetta fólk.
Mesta
þéttbýlið
er í og við Havana (rúmlega 2,5 millj. íb.; 2.600 á km²).
Þéttbýlasta héraðið er Santiago de Cuba á suðurströndinni,
þá koma Havanahérað í norðri, Holguin í austri og Santa Clara á
miðri eyjunni. Þrjú strjálbýlustu
svæðin eru, fjallahéraðið Guantánamo í suðaustri, nautgripahéraðið
Gamagüey í austri og sykurhéraðið Matanzas austan Havana.
Aldursskipting
íbúanna
er eftirfarandi: 35% eru
yngri en 17 ára; 42% 17 - 45 ára og 23% eldri.
Vinnuaflið skiptist á eftirfarandi hátt árið1985:
25% í landbúnaði, skógarhöggi, skógrækt og fiskveiðum;
40% í framleiðslugreinum og 35% í þjónustustörfum.
Líklega er hér um bil helmingur íbúanna afkomendur evrópskra
innflytjenda (flestra spænskra). Hinn helmingurinn er negrar, múlattar, mestítar (afkomendur
indíána og Spánverja) og nokkrir kínverjar.
Félagslegt
ástand
á Kúbu breyttist mikið við valdatöku Kastrós.
Meðal þess, sem bætt var og lagfært, var skólakerfið og
heilbrigðisþjónustan.
Mynd: Dómkirkjan í Havana. |