Port-au-Prince,höfuðborg
Haiti í Vesturhéraði í 0-300 m.y.s. hefur nálægt 1.2 milljónir íbúa.
Áætlunarflug
til og frá New York og Miami (USA), Montreal (Kanada), Nassau (Bahama),
Kingston og Nontego Bay
(Jamaica), San Juan (Puerto Rico), Sint Maarten og Curaçao (Hollenzku
Antilleyjar). Leiguflug til
og frá Cap-Haitien, Jacmel, Jérémie og Lea Cayes.
Samgöngur
á sjó með vélbátum og seglskipum milli hafna í landinu.
Skemmtiferðaskip á ferð um Karíbahaf koma oft við í höfuðborginni.
Port-au-Prince
er stjórnmálaleg-, viðskiptaleg- og menningarleg miðstöð landsins.
Hún stendur við samnefndan innsta hluta Gonâveflóans.
Sunnan hennar er Sellefjallgarðurinn og norðan við hana er
Plaine du Dul-de-Sacláglendið. Borgin
er setur erkibiskups og margra menntastofnana.
Höfnin er hin stærsta og bezt búna í landinu.
Eini alþjóðaflugvöllur landsins er í næsta nágrenni og
mikilvægasta iðnaðarsvæði landsins er bæði í borginni og utan.
Allt framangreint laðar til sín fólk úr öllum landshlutum í
atvinnuleit. Aðeins fáum
tekst þó að finna atvinnu.
Hinn 12. janúar 2010 reið 7 stiga
jarðskjálfti yfir og olli mestum búsifjum í höfuðborginni og
umhverfi hennar. Talið er að u.þ.b. 200 þúsund manns
hafi farizt. Íslenzka rústabjörgunarsveitin var meðal
hinna fyrstu slíkra á staðinn.
Atvinnuleysistölur
í borginni eru ógnvekjandi háar.
Margir freista þess að sjá sér farborða með ígripavinnu.
Dulið atvinnuleysi, fólgið í því, að margir vinna starf
eins, er eitt alvarlegra vandamála borgarinnar.
Augljóst dæmi þessa er aragrúi götusala, skóburstara, burðarmanna
og leiðsögumanna, sem reyna að stunda viðskipti sín í miðborginni.
Í augum ferðamanna er þetta skemmtilegt og iðandi mannlíf,
sem er í raun og veru aðeins yfirborð rotins efnahags og örvæntingarfullrar
lífsbaráttu. Merkin sjást
líka í stöðugt stækkandi fátækrahverfum í útjöðrum
borgarinnar. Gestir í þessu
landi standa stöðugt andspænis fátæktinni í öllum sínum myndum.
Alls staðar eru betlarar með framréttar hendur og gefa til
kynna að maginn sé tómur.
Sagan.
Nafn
borgarinnar er dregið af nafni fyrsta franska herskipsins, Le Prince,
sem lagðist við akkeri þar nálægt árinu 1700.
Hún var þó ekki stofnuð fyrr en 1749 af La Cazze landstjóra.
Þá hét hún Hospital. Fjöllin
við borgina bera enn þá þetta nafn.
Ári eftir stofnunina tók Hospital við hlutverki Cap-Français
sem stjórnsýslusetur nýlendunnar.
Á 19.öld var stöðugur órói í borginni, uppreisnir,
hallarbyltingar og borgarastyrjaldir. Hinir mismunandi byltingarhópar reyndu stöðugt að ná völdum
og gárungarnir kölluðu hana á þessum tíma Port-au-Crimes.
Líkt og Cap-Haitien hefur mikið af sögulegum minjum glatazt í
borginni vegna styrjalda, eldsvoða, fellibylja og jarðskjálfta.
Skoðunarverðir
staðir
*Þjóðarhöllin
(Palais National) er merkilegasta bygging borgarinnar.
Hún er krýnd þremur kúplum og er bústaður forseta landsins.
Inngangurinn er í endurreisnarstíl og forhlið hússins, sem
byggt var 1918, er skjannahvít. Fyrirmynd hússins var Capitol í Washington.
Nokkrir salir eru opnir almenningi á ákveðnum tímum, m.a.
salur með brjóstmyndum allra forseta landsins.
Árin 1988 og 1989 urðu þar blóðugar byltingar hersins.
*Marron Inconnu og Sjálfstæðis- og
hetjutorgið.
Framan við höllina, sem stendur við torgið ásamt fleiri
opinberum byggingum, er stytta óþekkta negraþrælsins.
Hún er eitt helzta tákn frelsisbaráttu þjóðarinnar.
Nafnið Marron var notað um strokuþræla á nýlendutímanum. Minnismerkið
er tileinkað þessum óþekktu þrælum, sem flúðu til
fjalla og hófu baráttuna gegn nýlenduherrunum.
Styttan, sem myndhöggvarinn Albert
Mangonès gerði 1968, sýnir þræl klæddan lendaskýlu einni
fata. Í hægri hönd
heldur hann á kuta og þeirri
vinstri lambihorni sem táknum hvatningarinnar til uppreisnar.
Minnismerki Toussaint-Louverture stendur rétt hjá.
Hann er annar í röð þjóðhetja landsins á eftir Dessalines.
Myndhöggvarinn var Normi
Charles.
Austan þjóðarhallarinnar
er Sjálfstæðis- og hetjutorgið en almennt er gamla nafn þess notað
Champ de Mars. Faustin I,
annar keisari landsins, var krýndur á torginu 1852.
Hann var áður forseti en sat ekki mörg ár í valdastóli.
Hinn 15. janúar 1859 mátti hann deila örlögum forvera og
eftirkomenda sinna og var sendur í útlegð til Jamaica eftir
hallarbyltingu. Í valdatíð
sinni reyndi hann tvisvar að leggja Dóminikanska lýðveldið undir
Haiti. Árið 1954 Herny
Christophe, og Alexandre Pétion.
*Þjóðminjasafnið
(Musée du Peuple Haitien) sýnir minjar frá dögum arawaka, forkólumbískum
tímum og frá skeiði þrælahaldsins.
Á merkimiðum má sjá upprunastaði þrælanna, sem
fluttir voru til Haiti. Lítil
deild í safninu er helguð voodoo-trúnni og uppruna hennar og þar er
hægt að sjá flesta muni, sem notaðir eru við trúarathafnirnar.
*Listasafn
Haiti
er við Rue Capois. Þar er
að finna þversnið haitískrar listar, þó einkum málverk.
Listamiðstöðin
(Centre d'Art)
er norðvestan þjóðarhallarinnar við Rue de la Révolution (Rue de
l'Enterrement). Þetta er
mikilvægasta listamiðstöð borgarinnar.
Þar er að finna fjölda
innlendra listaverka.
Grafhýsi
Dessalines og Pétion
er vestan þjóðarhallarinnar. Dessalines
var svartur en Pétion var múlatti og sameiginleg gröf þeirra á að
tákna þjóðareiningu svartra og múlatta, þótt oft sé samkeppnin hörð
á milli þessara tveggja þjóðfélagshópa.
Alexandre Pétion, sem er þekktastur fyrir stuðning sinn við
suðuramerísku
frelsishetjuna Símon Bólivar, stofnaði líka
fyrsta háskóla landsins.
Hermannaskálar Dessalines.
Byggingar fjár- og dómsmálaráðuneytanna
norðan og sunnan grafhýsisins líkjast helzt höllum.
Austar, á lóð þjóðarhallarinnar, eru hermannaskálar
Dessalines, þar sem dveljast stöðugt hersveitir til verndar
forsetanum.
Íþróttaleikvangur
Sylvio Cator er ásamt
nokkrum háskólabyggingum sunnan þjóðarhallarinnar.
Bak við hann er aðalkirkjugarður borgarinnar, Cimetère Extérieur,
með legsteinum og grafhýsum áhrifamestu fjölskyldna landsins.
Vestar, við Boulevard Harry Truman, er Theâtre de Verdure, þar
sem boðið er upp á þjóðlegar sýningar oft í viku.
Við hliðina á leikhúsinu er stærsta hanaslagssvið
borgarinnar, en hanaslagur kemur næst knattspyrnu að vinsældum.
Eglise
du Sacré-Coeur
er falleg kirkja frá 19.öld suðaustan þjóðarhallarinnar á horni
Uue José Martí og Avenue Jean-Claude Duvalier.
Grand
Hotel Oloffson er í St-Gérard-hverfinu. Það
er prýtt turnum og skreyttri forhlið.
Graham Greene, rithöfundur, notaði það sem fyrirmyndina að
Hotel Trianon í hinni frægu skáldsögu
sinni Tími gamanleikaranna, sem lýsir hinu dæmalausa ógnarveldi Papa
Doc (François Duvalier).
Cathédrale
Ste-Trinité (kirkja heilagrar þrenningar) er við Rue Courte. Innrétting hennar er mjög athyglisverð. **Veggmyndirnar aðal- og hliðarskipanna og altaristaflan
(Kristur á krossinum) eru áhrifamikil verk naívista.
Þær sýna biblíusöguna í haitísku umhverfi, þar sem sést
landslag og sveitafólk með gula stáhatta á höfði.
Jesús og postularnir eru svartir eða múlattar en á myndinni
af síðustu kvöldmáltíðinni er Júdas hvítur.
Alls eru 13 myndir úr lífi Jesús í kirkjunni.
Meðal málara voru Benoit, Bazile, Dufaut og Obin.
*Cathédrale
Notre-Dame
(1915) er dómkirkja
katólskra í borginni. Þetta
er tveggja turna, nýgotneskt mannvirki.
Turnarnir og miðskipið eiga að minna á Sacré-Coeur í París,
þótt miðhvelfinguna vanti. Yfir
hinum fimm aðalinngöngum kirkjunnar eru litlar gluggarósettur, sem
eru umkringdar minni rósettum, settum krossum, þannig að heildin
virkar sem ein stór. Framan
við kirkjuna er fallegur garður, sem gerður var til heiðurs Simone
Duvalier, móður Jean-Claude Duvalier fyrrum forseta.
Ancienne
Cathédrale
(gamla dómkirkjan) er aðeins norðar.
Hún var upprunalega byggð úr timbri og er ein fárra slíkra
frá frá franska nýlendutímanum, sem hefur varðveizt.
Við hlið hennar er þjóðarskjalasafnið og ofan þess þjóðarvirkið
(18.öld). Vestan
kirkjunnar við Rue du Centre er
þjóðarbókhlaðan (Bibliothèque Nationale).
Marché
de Fer
(járnmarkaðurinn). Boulevard
Jean Jacques Dessalines liggur norður til járnmarkaðarins, sem teygir
anga sína inn í aðliggjandi götur og er meðal athyglisverðustu staða
á öllum Karíbaeyjum. Markaðshöllin
(1889) er mikilfengleg rauð- og gulmáluð járnbygging.
Hún var byggð á sama tíma og Eifelturninn í París eða skömmu
eftir að járnmarkaðshöllin í París (Les Halles) var rifin á áttunda
áratug 19.aldar. Upp úr
tvískiptu markaðshúsinu rísa fjórir turnar (mínarettur).
Á húsinu er áletrunin: „Hippolite Prèsident d'Haiti
1889", þannig að húsið er eins konar minnismerki um forsetann.
Sagt er að Hippolite forseti hafi verið á ferð í Frakklandi
og pantað efnið í húsið. Samtímis
hafði svipuð bygging verið pöntuð til Indlands. Pantanirnar víxluðust og Haiti fékk indverska húsið, sem
tekið var með undrun, þegar það kom, en hún breyttist í aðdáun,
þegar byggingin var risin. Það
er ómögulegt að lýsa fjölbreytileikanum, mannmergðinni og litaskrúðinu
á markaðnum. Ótölulegur
fjöldi kaupmanna og kvenna falbjóða vörur sínar bæði innan og
utan dyra. Óhætt er að
segja, að allir finni það, sem þeir leita að.
Allar tegundir landbúnaðarafurða landsins eru þar á boðstólum,
hrísgrjón, maís, strengjabaunir, maniok, yams, allir hitabeltisávextir,
mangó, kókoshnetur, ananas og lifandi smádýr.
Einnig er boðið alls konar kjöt- og fiskmeti og innmat.
Inni
í markaðnum eru borð, sem vekja athygli evrópskra gesta sérstaklega.
Þar eru alls konar handunnir listmunir og naív málverk, fléttaðar
körfur, munir úr strái
og sísalhampi, útskurðarmunir (grímur og styttur) o.fl.
Það tilheyrir líka að prútta, þegar viðskiptavinurinn
hefur fundið eitthvað, sem hann vill kaupa.
Gott er samt að hafa í huga að ganga ekki of langt, því að
allt er mjög ódýrt og vegna samkeppninnar lækka fátækir
seljendurnir verðið oft svo mikið, að þeir bera ekkert úr býtum.
Innfæddir
kalla gesti hvítingja og álíta þá alla vel efnaða. Sölufólkið er eins misjafnt og það er margt, sumt aðgangshart og annað kurteist og þægilegt.
Iðulega víkja innfæddir sér að gestunum og bjóðast til að
gerast leiðsögumenn þeirra eða biðja um ölmusu fyrir mat.
Mahónímarkaðurinn
er
upplagður fyrir þá, sem leita að einkennandi minjagripum fyrir landið.
Þessi markaður er nokkrum þvergötum norðan við járnmarkaðinn
við sömu götu.
Cité
de l'Exposition er sýningasvæði, sem er gjörólíkt járnmarkaðnum (hann hefur
yfirskriftina: „Haiti er hin karabíska Afríka").
Sýningarhallirnar voru byggðar árið 1949 í tilefni 200 ára afmælis Port-au-Prince og alþjóðleg vörusýning var haldin
samtímis. Nú er hluti sýningarhallanna
nýttur undir opinberar stofnanir.
Sunnan Place de l'Italie
er aðalpósthúsið andspænis upplýsingaskrifstofu ferðamála.
Torg
Sameinuðuþjóðanna.
Við þetta torg er Sixtínska kapellan og lögréttan auk
nokkurra sendiráða. Þar
er og fallegur gosbrunnur, Fontaine Lumineuse.
Nær sjónum er spilavítið Casino International, þar sem fólk
mælir sér gjarnan mót.
Port des Voiliers.
Í norðurhverfi borgarinnar La Saline er seglskipahöfnin, sem
er stærsta og mikilvægasta umskipunarhöfn landsins.
Árið 1984 átti Haiti sex hafskip (1.762 brúttótonn alls) og
700 strandferðaskip fyrir vörur og farþega.
Strandferðaskipin koma við á mörgum stöðum, sem byggja allt
sitt á samgöngum á sjó vegna lakra eða engra samgangna á landi.
Aðeins örfá þessara skipa eru nýleg vélskip, flest eru
seglskip úr tré. Þrátt
fyrir stöðugar endurbætur og útfærslu vegakerfisins, halda þessi
skip velli og eru nauðsynleg samgöngutæki.
Mörg slík skip hafa öðlast nýtt hlutverk með því að
flytja fólk frá Haiti sem ólöglega innflytjendur til Bandaríkjanna
eða Bahamaeyja. Gestir í
Haiti ættu að forðast að ferðast með þessum skipum, því að þau
eru mörg hver tæpast haffær vegna viðhaldsleysis og í þeim er stöðug
eldhætta vegna stöðugt brennandi viðarkolaelda um borð.
Mercredivirkið
(19.öld; 105 m.y.s.) stendur ofan við fátækrahverfið Bolossi.
Gott útsýni.
*Þjóðminjasafnið
er í suðaustanverðri borginni í Turgeau-hverfinu.
Þar bjó fyrrum forseti landsins, Magloire.
Mikið er af málverkum af sögufrægu fólki og munum og minjum
frá nýlendutímanum og 19.öldinni í safninu.
Aðalsafngripurinn er þó tæplega fjögurra metra langt akkeri
flaggskips Kólumbusar, 'Santa Maria', sem strandaði og var yfirgefið
við norðurströnd Haiti árið 1492.
Auk þjóðfræðilegs og myntfræðilegs safns, húsgagna, verkfæra
og áhalda er að finna ýmsa hluti úr eigu sögufrægra einstaklinga,
s.s. skreytt sverð Alexandre Pétion, sverð Dessalines og pístóla Henry I, sem
hann banaði sér með. Bjalla
frá er einn verðmætustu muna safnsins.
Sand
Cay Reef.
Óhætt er að mæla með bátsferð frá Spilavítisbryggjunni að
kóralrifinu Sand Cay Reef og kafaraparadísinni Grand Banc í Port-au-Princevíkinni.
Skoðunarferð
til Kenscoff (hringferð 28 km).
Skoðunarferð
til Arcahaie (hringferð 80 km).
Skoðunarferð
til Teino Beach (hringferð 47 km).
Skoðunarferð
til Etang Saumâtre (hringferð 55 km). |