Karíbahaf Haiti meira,
Flag of Haiti

Booking.com


HAITI
MEIRA
.

.

Utanríkisrnt.

Map of Haiti

Náttúrufar.  Haiti (Fjallaland) er þriðja stærsta ríkið í Vestur-Indíum á eftir Kúbu og Dóminíska lýðveldinu.  Ríkið er á vestari þriðjungi eyjarinnar Hispaniola, sem tilheyrir Stóru-Antilleyjum, en handan landamæranna, á vesturhlutanum, er Dóminikanska lýðveldið.  Hið 90 km breiða Áveðurssund skilur Haiti frá Kúbu til vesturs.  Ströndin er mjög vogskorin en fáar smærri eyjar eru meðfram henni.  Hinar stærstu, sem tilheyra Haiti, eru Ile de la Gonâve fyrir vesturströndinni, Ile de la Trotue fyrir Atlantshafsströndinni að norðanverðu og fyrir suðvesturskaganum er Ile-à-Vache í Karíbahafi. Tveir misstórir skagar að norðan- og sunnanverðu mynda náttúruleg mörk Gonâveflóans.  Þrír fjallgarðar með na-sv og a-v stefnum skipta landinu í há- og láglendi.  Georg III Englandskonungur spurði eitt sinn brezkan aðmírál, hvernig Haiti liti út og fékk í hendur samanvöðlað blað, sem aðmírállinn hafði krumpað saman í höndum sér og svaraði: „Svona lítur Haiti út."

Mikilvægastu láglendissvæði landsins eru Artibonite-dalurinn í miðju landi,  láglendið á norðurströndinni við Cap-Haitien og Fort-Liberté, Cul-de-Sac á Suðurlandinu frá landamærum Dóminikanska lýðveldisins að Etang Saumâtre og Les Cayes yzt á suðurskaganum.   Einkennandi fyrir landslagið eru samt víðáttumikil fjöllin, Massif du Nord og Norðvesturfjalllendið, sem myndar að mestu norðurskagann.  Í miðju landi er stór slétta, sem kölluð er Miðhálendið og lækkar niður í dóminikanska dalinn Valle de San Juan.  Miðhálendið, sem byggist mest á  Montagnes Noires fjallgarðinum, Caine des Matheux og Montagnes du Trou d'Eau,  afmarkað af Artibonitedalnum og Cul-de-Sacláglendinu.  Á suðurskaganum er Massif de la Hotte og Massif de la Selle fjallgörðunum, þar sem er hæsti tindur landsins, Pic la Selle, 2.680 m hár.  Fimmtungur landsins í dölum og með ströndum fram er neðan 200 m hæðarlínu.  Fjöllin gera erfitt um vik að bæta samgöngur á landi og þar með að efla og bæta viðskiptalífið.

Fjöllin eru úr kristölluðu hellugrjóti, sem myndaðist úr setlögum krítartímans, gosefnum og setlögum frá tertiertímanum.  Kalk er mjög útbreidd steintegund og víða er að finna karsthryggi.  Það eru engin virk eldfjöll í Haiti.


Loftslag.  Hitabeltisloftslagið, sem ríkir, verður svalara uppi í fjöllum og þar að auki sér norðaustan staðvindurinn fyrir smákælingu.  Fjöllin gera líka að verkum, að úrkoma er mjög mismunandi í landinu.  Mest er hún að norðaustanverðu en hlémegin miklu mun minni.  Í Le Borgne á Atlants-hafsströndinni er úrkoman 2000 mm á ári að meðaltali en í Gonaives á Karíbahafsströndinni aðeins 560 mm.  Í fjalllendinu um miðbik landsins skiptast á úrkomu- og þurrkasvæði, allt eftir legu.  Láglendissvæði, sem eru hlémegin fjalla eru allt of þurrlend.  Þannig koma fram flestallar sveiflur, sem búast má við í loftslagi hitabeltisins.  Sé ekki tekið tillit til séreinkenna einstakra svæða, fellur mestur hluti úrkomunnar að sumarlagi, milli apríl og nóvember, en stuttur þurrkatími einkennir júlí.  Fellibylja er helzt að vænta á sumrin.  Árið 1980 krafðist fellibylurinn „Allen" 500 mannslífa og jafnaði heimili mörg hundruð þúsunda við jörð.

Meðalhiti er tiltölulega jafn allt árið, kaldast 22°- 25°C og heitast 27°- 28°C.  Hitamunur dags og nætur er miklu meiri eða allt að 10°C.  Svalandi gola ríkir allt sumarið og um miðjan dag á veturna.  Loftraki í Port-au-Price er að meðaltali 67%.  Loftslagið uppi í fjöllum er öllu þægilegra, þar sem hiti lækkar um hálfa gráðu fyrir hverja 100 m hæðaraukningu.  Á ströndinni gætir haf- og landgolu á víxl, sem dregur úr hitanum.


Stjórnarhættir eru skipulagðir eftir franskri fyrirmynd.  Samkvæmt nýrri stjórnarskrá frá 27. marz 1987 á að kjósa forseta til fimm ára og endurkosning er bönnuð.  Landið skiptist í 9 héruð, sem síðan er skipt í minni stjórnsýslueiningar, arrondissements og Communes, en höfuðborgin, Port-au-Prince er stjórnmála-, viðskipta- og menningarlega langáhrifamest.  Í hverju héraði eða sýslu er héraðshöfuðborg.  Sveitastjórnir hafa verið tiltölulega valdalitlar vegna miðstýringarinnar frá Port-au-Prince, en fyrirhugaðar umbætur eiga að færa miklu meiri völd heim í héruðin.

Haiti er aðili að Sameinuðu þjóðunum og sérstofnunum þeirra og Samtökum Ameríkuríkja.  Að auki er landið aðili að efnahagsbandalagi Latnesku-Ameríku (SELA = Sistema Económico Latinoamericano).  Landið hefur líka sérsamning við Caricom (efnahagsbandalag Karíbaríkja = Caribbean Common Market).


Byggðir landsins.  U.þ.b. 70% landsmanna búa í dreifbýlinu, einkum í smáþorpum eða á litlum býlum með einum eða tveimur kofum.  Auk höfuðborgarinnar með 2 milljónir íbúa eru ekki nema 12 bæir með fleiri en 10.000 íbúum, þannig að yfir 60% þéttbýlisbúa eiga heima í eða í næsta nágrenni við Port-au-Prince.  Mikill straumur fólks liggur frá dreifbýlinu til höfuðborgarsvæðisins, þannig að fólksfjölgun þar er miklu meiri en í dreifbýlinu.

Næstum allar borgir og bæir í Haiti eiga sögu sína að rekja til fransks landnáms á 17. og 18.öld, enda ber skipulag þeirra þess vott, þar sem þær líkjast helzt skákborði.  Allar mikilverðustu borgir landsins eru við sjávarsíðuna.  Á 18. öld voru allir nýstofnaðir bæir útskipunarhafnir fyrir vöruflutninga milli nýlendunnar og herralandsins.

Eftir 1975 var farið að huga að uppbyggingu viðskipta í minni bæjum í héruðunum til að draga úr stöðugum fólksflótta til höfuðborgarinnar.


Atvinnulífið
Landbúnaður
er veigamesta atvinnugreinin, sem 65% vinnuaflsins starfar við.  Hann byggist á smábændum, þar er stóru plantekrunum var skipt á milli bænda eftir sjálfstæðisyfirlýsinguna.  Meðalstærð bús er 1,5 ha og landið er að langmestu leyti eign bændanna sjálfra, þótt fæstir þeirra eigi afsal fyrir spildum sínum.  Andstætt því, sem gerist í öðrum ríkjum Latnesku-Ameríku, eru leigu- og stórjarðir ekki mikilvægastar.

Fólk til sveita hefur stöðugt verið að leita að hentugu jarðnæði til ræktunar.  Þessi leit hefur komið illa niður á skóglendi landsins, sem er tæpast annað en rytjur einar nema til fjalla.  Mikill útflutningur eðalviðar, asks og mahóní, olli þegar á 19.öld óbætanlegum umhverfisspjöllum.  Einnig hafa fátæklingarnir, sem einskis annars eiga úrkosta, notað við til eldsneytis og valdið enn þá meira tjóni.  Fólk, sem kemur fljúgandi til Port-au-Prince, sér nú afleiðingarnar, hálfgert eyðimerkurlandslag, sem veðrast stöðugt meira.

Mikilvægasta landbúnaðarafurðin til útflutnings er kaffi, sem ræktað er á smábýlum uppi í fjöllum.  Þurrkaðir kaffibaunakjarnar eru fluttir þaðan til markaðarins.

Aðrar veigamiklar afurðir eru sísalhampur, maniok, jams, sætar kartöflur, bananar, sykurreyr, maís, tóbak og baðmull.  Helzta á landsins rennur um Artibonitedalinn, þar sem áveitur eru notaðar í auknum mæli við ræktun hrísgrjóna.  Sléttur landsins eru frjósamar en of þurrar til að vera arðbærar.  Áætlað er að bora djúpa brunna þar vítt og breitt til að veita vatni á landið og auka framleiðsluna til muna.  Þrátt fyrir að næstum tveir þriðju hlutar vinnuaflsins séu bundnir í landbúnaði, er framleiðnin hlutfallslega mjög lítil, þannig að innflutningur landbúnaðarafurða eykst.  Meðaltekjur smábónda eru undir 150 US$.  Mikið er um búskap, sem einungis er stundaður til að framfleyta fjölskyldunum sjálfum en ekki til fyrir markaðinn.  Framleiðsla landbúnaðarins nemur u.þ.b. 32% heildarlandsframleiðslunnar.


Fiskveiðar eru tiltölulega veigalítill atvinnuvegur, þrátt fyrir að strandlengja landsins sé 1.500 km löng.  Aðeins eru stundaðar frumstæðar veiðar frá eða skammt frá ströndum og aðeins er hægt að sinna helmingi eftirspurnar eftir fiski inni í landi.  Árið 1984 voru að vísu fluttir inn fjórir nýtízku fiskibátar en þeir duga ekki til.  Eini aflinn, sem er virkilega verðmætur eru lambisniglar, sem eru lostæti.

Jarðefni og námavinnsla eru heldur ekki veigamikil fyrir efnahag landsins.  Helzt er að nefna báxítnámur á suðvesturskaganum, þar sem bandaríska fyrirtækið Reynolds Haiti námafélagið  starfaði og flutti jarðefnið til Corpus Christi í Texas.  Jarðfræðirannsóknir hafa farið fram í norðurhluta landsins.  Þær gefa til kynna nokkurt magn kopars, sem e.t.v. væri arðbært að vinna.  Þjóðverjar veittu þróunaraðstoð við byggingu marmaraverksmiðju.

Iðnaður er stutt kominn á þróunarbrautinni.  Nálega 7% vinnuafls er bundinn í honum og flest fyrirtækin eru í Port-au-Prince.  Þar eru beztu skilyrðin, næg og trygg raforka, stór og góð gámahöfn og eini alþjóðaflugvöllur landsins.  Óhagstæðar aðstæður úti á landsbyggðinni hafa hingað til komið í veg fyrir iðnvæðingu héraðanna.

Markaðserfiðleikar iðnaðarins eru miklir á heimavelli, þar sem íbúar landsins eru meðal hinna tekjulægslu í heimi og kaupmátturinn samkvæmt því lágur eða enginn.  Megináherzlan er því lögð á framleiðslu einföldustu og ódýrustu neyzlu- og vefnaðarvara.  Vinnsla landbúnaðarafurða er talsvert veigamikil.  Einkum er lögð áherzla á niðursuðu og framleiðslu ávaxtasafa og sykurs.  Stærsta sykurverksmiðjan, HASCO, nyrzt í Port-au-Prince.  Úti á landi eru enn þá notaðar forn-legar sykurpressur og litlar suðuverksmiðjur.  Talsvert er framleitt af ilmolíum.  Laun verkamanna voru u.þ.b. 6.- US$ á dag árið 1987.  Þessi lágu laun voru og eru þáttur í uppbyggingu erlendra fyrirtækja (bandarískra og evrópskra) á sviði vefnaðar-, klæða-, sportvöru- og elektrónískrar fram-leiðslu.

Verzlun og viðskipti.  Aðalviðskiptaland Haiti eru Bandaríkin og evrópsku efnahagsbanda-lagslöndin.  Þjónustugreinar og einkaviðskipti hafa aukizt mikið.  Samkeppni er mikil á þessum sviðum og margfalt fleiri reyna að sjá sér farborða á þessum sviðum en eftirspurnin leyfir.  Merki þess má sjá á götum Port-au-Prince meðal götusala, skóburstara o.fl, sem selja vörur sínar og þjónustu á svo lágu verði, að þeir hafa tæpast nokkuð upp úr krafsinu.  Atvinnuleysi á höfuðborgar-svæðinu er í grennd við 40% og a.m.k. 20% í öðrum borgum og bæjum.

Ferðaþjónustan.  Um nokkurra ára skeið hefur verið lögð áherzla á uppbyggingu og bætt móttökuskilyrði fyrir ferðamenn, s.s. hótel og baðstrendur, til að auka viðskiptin.  Fjöldi ferða-manna fór að aukast verulega á áttunda og níunda áratugnum (einkum með skemmtiferðaskipum).  Ferðamennirnir skildu eftir sig talsverðan gjaldeyri en síðan 1986, þegar ástandið í landinu varð óstöðugt og óöruggt, hefur stöðugt dregir úr straumi þeirra til landsins.

Íbúarnir.  Miðað við náttúru landsins er það mjög þéttbýlt, nálægt 400 íbúar á km².  Þéttbýlast er í strandhéruðunum, þar sem afkomumöguleikar eru beztir, s.s. á Plaine du Nord, Plaine de Léogâne og á Les Cayesláglendinu.  Jafnvel í fjallahéruðum nær þéttbýlið allt að 300 íbúum á km².  Þetta er gífurlegt vandamál, þar eð engir möguleikar eru lengur til stækkunar landbúnaðarsvæða í þessu fjallalandi.  Offjölgunin hefur leitt til stöðugs landflótta fólks í atvinnuleit til nágrannaríkjanna bæði fyrr og nú.  A.m.k. rúmlega milljón manns af haitískum uppruna býr utanlands.  Fyrrum streymdi fólk helzt til Kúbu og Dóminikanska lýðveldisins og þar búa nú hundruðir þúsunda Haita.  Yfir 30.000 manns fara ár hvert yfir landamærin til að vinna við sykuruppskeruna sem farandverkafólk og uppsker sultarlaun fyrir, svo ekki sé minnst á annan aðbúnað, sem líkist mest meðferðinni á þrælum á nýlendutímanum.

Á síðustu tímum reynir fólk að komast sem ólöglegir innflytjendur til Bandaríkjanna, Kanada, Bahamaeyja eða til frönsku eyjanna.  Opinberlega er áætlað, að 25.000 manns flytji úr landi á ári en nær mun láta, að talan sé 50.000.  Þúsundir stofna lífi og limum í hættu með því að sigla á yfirhlöðnum bátum til fyrirheitna landsins.  Sem dæmi má nefna, að 250 manns fóru af stað í 10 m löngum báti, „Jesula", og 160 náðu til Bandaríkjanna.  Talið er að 300.000 Haitar búi í New York einni.

Auk hins mikla landflótta er ungbarnadauði mikill.  Lífslíkur voru 54 ár árið 1983, sem má rekja til lélegrar heilsugæzlu og vannæringar.  Þessir þættir valda því, að fólksfjölgunin er ekki mikil, 1,7% á ári.  Í flestum öðrum ríkjum Latnesku-Ameríku er fjölgunin meiri.

Árið 1985 var ólæsi meðal fólks eldra en 15 ára 65%, en það er hæsta hlutfallið í Latnesku-Ameríku.

Haitibúar eru afkomendur negraþræla og hvítra plantekrueigenda og starfsmanna.  85% eru negrar.  Múlattar og aðrir íbúar búa flestir í þéttbýlinu, einkum í höfuðborginni, og eru hin raunverulega yfirstétt.  Mjög fáir íbúanna eru hvítir, aðeins nokkur þúsund.


Vúdúmenningin.  Franska er opinbert tungumál íbúanna og róversk-katólsk trú líka.  Samt sem áður eru 85% íbúanna áhangendur vúdútrúarbragðanna.  „Voodoo” (vaudou, wodu, voudou) er ekki til á prenti og er stundað á misjafnan hátt á hverjum stað.  Auk aðalguðanna, sem eru dýrkaðir um allt land, eru persónulegir verndarandar, húsandar og náttúruandar.  Ný goð og andar verða til við yfirnáttúrulega lífsreynslu, táknrænar draumfarir o.fl.  Vúdútrúin er því ekki stöðug, heldur tekur stöðugum breytingum.  Hún á rætur að rekja til fornra trúarbragða í Afríku.  Nafnið er komið úr tungu fonkynstofnsins (Benin; áður Dahomey) og þýðir guð eða andi.

Vesturafrísku trúarbrögðin mættu hinum kristnu í frönsku nýlendunni.  Nýlenduherrarnir réttlættu þrælahaldið með því að skíra þrælana til kristinnar trúar, þeim til sáluhjálpar, en vanræktu fræðslu um trúna, sem þeir neyddu upp á þrælana.  Þrælarnir voru ekki reiðubúnir til að segja skilið við trúararf sinn.  Þess vegna urðu þessi tvenn trúarbrögð að nokkurs konar samsuðu.

Í vúdútrúnni er fjöldi mismikilvægra  guða og anda, sem nefnir eru Loas (eint. Loa).  Margir þeirra bera afrísk nöfn, s.s. Papa Legba, guð vegamóta, sem heldur leiðinni til himins opinni og ákalla verður í upphafi allra trúarathafna; Ogoun, stríðsguðinn; Agoué Taroyo, sjávarguðinn; Erzulie Fréda, daðrandi ástargyðjan.  Aðrir guðir og andar bera frönsk nöfn.  Guð dauðans, sem er hinn sami og djöfullinn í kristinni trú, heitir Baron Samedi.  Ógnarforsetinn François Devalier var kallaður þessu nafni.  Margir guðir voodoo trúarinnar eru sambærilegir mörgum kristnum dýrlingum.  Erzulie Fréda líkist Maríu guðsmóður og er táknuð með gegnumboruðu hjarta.  Ogoun  líkist hl. Jakobi, Agoué Taroyo hl. Úlrik; þeir eru hlutgervðir í einhverju, s.s. fiski. 

Aðalguðunum er skipt í fjóra flokka:  Guði eða anda vatnsins, loftsins, eldsins og jarðarinnar.  Margir þeirra eru hús-, verndar- og náttúruguðir eða andar, sem búa í trjám og steinum.  Vúdúguðirnir eru ekki yfirskilvitlegir.  Þeir eru ákaflega mannlegir í eðli og útliti, kunna vel að meta góðan mat og drykk, verða ástfangnir, deila innbyrðis, eru metnaðargjarnir og sækjast eftir áhrifum og valdi o.fl. 

Karl- og kvenprestar (Houngan og Mambo) annast trúarathafnirnar með aðstoð fjölda meðhjálpara: trumbuslagara, siðameistara, sérvígðum áhangendum auk manna og kvenna, sem hafa oft komizt í yfirnáttúrulegt ástand (Cheval) og virkað sem miðlar einhvers guðsins.  Kjarni trúarathafnanna er dýrafórn og særingar.

Athafnirnar fara fram í kofum, sem útbúnir eru sem hof (Hounfort).  Þær eiga sér aðallega stað aðfararnætur sunnudaga.  Það er dansað og sungið við takt heilagra trumbanna, sem tákna púls lífsins.  Mikið er hrópað og kallað og bænasögl hljómar um allt.  Dýrafórnirnar fara eftir eðli athafnanna, hanar, geitur, svín eða naut.  Fórnardýrin eru færð guðunum á galdrateikningum (Vévé). Prestarnir teikna þessi dularfullu tákn með mjöli, ösku eða ryki að gólf hofsins.  Þau tákna nærveru  guðanna.  Táknin og dýrafórnin eru ákall til guðsins um að opinbera sig.  Taki guðinn á móti fórninni með velþóknun slæst hann í hóp safnaðarins með því að setjast í líkama einhvers.  Miðillinn (Cheval) fær alls konar kippi og krampaköst á meðan á trúardansinum stendur og hann eða hún grettir sig ógurlega og fettir.  Þessar fettur og brettur eru tákn frá guðinum, sem lesa verður úr.  Hægt er að leita ráða hjá guðinum á meðan hann er líkamnaður og biðja hann um spásagnir um framtíðina.  Oft kemur guðinn ekki einn fram, heldur guðlegir keppinautar hans, sem setjast þá að í öðrum skrokkum safnaðarins samtímis.

Auk kven- og karlpresta eru líka töframenn (Bocor eða Gangan).  þeir iðka svartagaldur.  Útbreiddasta galdratrúin byggist á Loup-Garou og Zombi.  Loup-Garou er maður, sem getur yfirgefið líkama sinn á nóttunni og sýgur blóð úr öðru fólki, einkum börnum.  Töframenn með sérstakar gáfur geta komið fólki í dauðadá.  Eftir að töframaðurinn hefur grafið viðkomandi, er hann grafinn upp aftur.  Töframaðurinn gefur honum líf aftur en ekki viljann og skilninginn á ástandi sínu og notar hann sem þjón sinn við galdraathafnir eftirleiðis.

Þrátt fyrir baráttu katólsku kirkjunnar og annarra kristinna trúarhópa gegn voodoo, hefur það engin áhrif haft á áhangendurna.  Þeir eru ómenntaðir og fá þar skiljanlegar skýringar á ýmsum atburðum, sem gerast í þröngu lífsrými þeirra.  Hver einstaklingur hefur sinn persónulega verndaranda, sem hann reynir af fremsta megni að halda í með fórnum.  Verði hann fyrir einhverju óhappi, reynir hann ekki að leita eðlilegra skýringa, heldur álítur hann sig hafa vanrækt samband sitt við verndarandann, sem hefur reiðst eða móðgast.  Einnig er mögulegt, að guðinn eða andinn hafi verið upptekinn við eitthvað annað.  Þessi örlagatrú hefur á margan hátt neikvæð áhrif á eflingu atvinnulífsins.  Fátækir, trúaðir bændur líta á erfið lífsskilyrði sín sem verk óhagstæðra guða og anda.  Þeir reiða sig á að geta stýrt lífshlaupi sínu með trúarathöfnum og fórnum fremur en að beita heilbrigðri skynsemi og nota betri aðferðir við landbúnaðinn

Eftir að landið varð sjálfstætt fluttu margir negrar aftur til Afríku og höfðu með sér trúarbrögðin, sem voru orðin fyrnd þar.  Nú eru þar margir vúdútrúarhópar, t.d. eru í Togo 250.000 áhangendur (heildaríbúafjöldinn er u.þ.b. 3 milljónir).

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM