Cap-Haitien
er í Département du Nord á norðurströndinni við Atlantshafið.
Íbúafjöldinn er 84.000.
Beinar
flugsamgöngur eru við Port-au-Prince, Fort Lauderdale og Miami.
Skemmtiferðaskip koma þar við á leið til og frá Miami.
Bátaferðir til Labadie.
Cap-Haitien
er önnur stærsta borg landsins, héraðshöfuðborg og viðskiptamiðstöð
norður-landsundirlendisins. Landsmenn
kalla hana Le Cap. Margt er
þar skoðunarvert, enda er hún álitin fegursta borg landsins,
og einkenni hennar hafa varðveitzt í gegnum tíðina.
Tæpast
er hægt að segja að nokkur iðnaður hafi byggzt upp í borginni.
Þar er sykurverk-smiðja, rommverksmiðja og nokkur fyrirtæki,
sem vinna úr landbúnaðarafurðum. Þróunaráætlanir yfirvalda stefna að mikilli uppbyggingu
í framtíðinni. Auðvelt
er að stækka höfnina í þeim tilgangi, en hún og höfnin í
Port-au-Prince eru einu hafskipahafnir landsins.
Á Norðurlandsundirlendinu, sem er á milli Cap-Haitien og
Fort-Liberté, er einkum ræktaður sykurreyr og sísalhampur.
Í hæðunum umhverfis borgina er mikið um mangólundi og hærra
til fjalla er ræktað kaffi.
Sagan.
Franskir
sjóræningjar, sem komu frá Skjaldbökueyju árið 1670, stofnuðu
borgina. Á nýlendutímanum
hét hún Cap-Français. Hún
var kölluð París Antilleyja og var ríkasta og fegursta borgin í
Vesturheimi. Hún var lengi
höfuðborg nýlendunnar San Domingue.
Ógnaröld sjálfstæðisbaráttunnar setti mark sitt á hana.
Hún brann 22. nóvember 1791, var rænd í júní 1793 og í janúar
1802 varð aftur mikill eldsvoði.
Um tíma ríkti franskt hirðlíf og hirðsiðir í bænum, þegar
Pauline Bonaparte, systir Napóleons og eiginkona Leclerc hershöfðingja,
sem var yfirmaður franska herleiðangursins (1801) í borginni, dvaldi
þar um hríð. Þetta
stutta tímabil, þar til Frakkar voru að velli lagðir, er talið hið
glæsilegasta í sögu borgarinnar.
Þegar
gæfuhjólið fór að snúast með svörtu uppreisnarmönnunum og múlöttunum,
var Frökkum ekki lengur sætt í Cap-Haitien.
Rochambeau hersöfðingi var til varnar í borginni með leifum
liðs síns, þegar Dessalines réðist á hana 10. nóvember 1803. Eftir blóðuga og heiftarlega bardaga til 29. nóvember sama
árs, urðu Frakkar að láta undan síga.
Á stjórnarárum Henrys I hét borgin um tíma Cap-Henry og var
stjórnarmiðstöð norður-haitíska konungsríkisins.
Bústaður konungs var þó utan borgarmarkanna í grennd við
Milot. Eftir að konungdæmið
leið undir lok féll Cap-Haitien stöðugt meira í skuggann fyrir
Port-au-Prince.
Geysiöflugur
jarðskjálfti, sem reið yfir norðurhluta landsins árið 1842, olli
miklu tjóni í borginni. Mörg
hinna frönsku nýlenduhúsa, sem enn þá standa endurbyggð, hrundu í
náttúruhamförunum.
Skoðunarverðir
staðir
*Borgarmyndin
með mjóum stígum, pastellitum húsum með járnsvölum, fjölda
brunna og miklum virkisveggjum hefur enn þá á sér blæ franska nýlendutímans.
Dómkirkjan
minnir á byggingarlist Evrópu á 18. og 19.öld.
Hún varð illa úti í jarðskjálftanum 1842 en var endurreist
í upphaflegri mynd 100 árum síðar.
Brunnurinn á Place d'Armes, á milli kirkjunnar og ráðhússins,
er frá nýlendutímanum.
Hafskipabryggjan
er viðlegustaður skemmtiferðaskipa. Hún er frá frönskum tíma eins
og spítalinn í vesturjaðri borgarinnar.
Við suðurjaðarinn er vinnustofa Philomé Obins, merkasta núlifandi
listmálara Haiti, sem stofnaði listaskóla Cap-Haitien.
Barriére Boutelle.
Skammt sunnan Barriére Boutelle er gamalt, þríhyrnt borgarhlið.
Í norðurjaðri borgarinnar er Séminaire, mikilvæg
menntastofnun.
Carenage
er úthverfi í norðanverðri borginni, þar sem er að finna rústir
Magny- og St-Josephvirkjanna (18.öld) og fyrrum höll Pauline
Bonaparte, þar sem hún og eiginmaður hennar, Leclerc hershöfðingi,
bjuggu.
Rival Beach; Fort Picoulet.
Norðar er baðströndin Rival Beach og rústir franska virkisins
Picoulet (18.öld).
Umhverfi
Cap-Haitien
*Cormier-
og Coco
strendurnar.
Hin fyrrnefnda
er 6 km norðan borgarinnar við Atlantshafið.
Frábær strönd með hótelum.
Lengra til vesturs er hin síðarnefnda - ákaflega falleg strönd.
*Baie
de Labadie
er 9 km norðvestan borgarinnar. Þar
er baðstaður í stórfenglegu hitabeltislandslagi og lítið þorp,
sem aðeins er hægt að komast að með bát.
Þar í grennd eru virkisrústir.
Milot
er
lítið þorp 19 km sunnan Cap-Haitien, þar sem Henry I konungur lét
reisa sér skrautlegan bústað, Sans-Souci.
Hann eyðilagðist í skjálftanum 1842 og er nú rústir einar.
*Sans-Souce-höllin
ber ekki bara sama nafn og höll Friðriks II (mikla) prússakonungs,
heldur er byggingarstíllinn hinn sami.
Henry I hélt uppi ströngum hirðsiðum og hafði mikið
umleikis á meðan hann var við völd, þannig að hirðlífið gaf evrópsku
fyrirmyndunum ekkert eftir. Ekkert var til sparað við byggingu hallarinnar á tímum viðskiptakreppu
og örbirgðar. Keyptar
voru kristalljósakrónur, eðalviður í gólf, veggi og loft, franskur
glitvefnaður, ítalskur marmari o.fl. Vatni
úr fjallalæk var veitt í leiðslum undir gólf hallarinnar til kælingar. Breiðar tröppur með varðskýlum á báða bóga lágu upp
að höllinni. Hvelfing
hallarkirkjunnar er velvarðveitt.
Inni í kirkjunni er samtímaaltari úr marmara.
Bronzljónin, sem gættu dyra hallarinnar eru nú í dómsmálaráðuneytinu
í Port-au-Prince. Framan
við aðalinnganginn voru miklir brunnar, en bak við höllina eru rústir
íbúað þjónustuliðsins og sumarskála lénsherranna.
**La
Ferrière-virkið
stendur sunnan Sans-Souci í 900 m hæð á fjallinu Bonnet-de-l'Evêque
(Mítur), sem er mjög erfitt að komast upp á akandi, gangandi
eða ríðandi. Bygging þess
hófst árið 1804, þegar Dessalines var við völd og lauk 1817
undir stjórn Henry Christophe. Þetta
mikla virki þjónaði þeim tilgangi, að sýna fram á völd og styrk
konungs og að verjast Frökkum, ef þeim kynni að detta í hug að
gera innrás, en þá flytti konungur með hirð sína
þangað. Í virkinu
voru vistir til eins árs og hægt að verjast á þremur varnarlínum
með 365 fallbyssum. Varnirnar byggðust á 5.000-15.000 manna herliði í
virkinu. Stórar vatnsþrær
á þakinu söfnuðu neyzluvatni. Fjöldi
fallbyssukúlna, sem enn þá er að finna bæði innan virkis og utan,
var áætlaður 45.000.
Herstyrkur
Haiti á fyrri hluta 19. aldar miðaðist alltaf við óttann um innrás
frá stöðum, þar sem þrælahald var enn við lýði.
Sagan segir, að Henry Christophe
hafi sýnt enskum sendimanni óttaleysi herja sinna í virkinu með því
að skipa einni herdeildinni
að ganga í dauðann fram af hápalli virkisins.
Sagt er að enginn hermannanna hafi hikað við að hlíða
skipuninni. Virkið stendur
tiltölulega lítið nagað af tímans tönn í upprunalegri mynd.
Við byggingu þess störfuðu u.þ.b. 200.000 manns og talið er
að 20.000 hafi látið lífið við framkvæmdirnar en enginn í bardögum,
því að aldrei sat óvinaher um það.
Flatarmál virkisins er u.þ.b. 9000 m².
Það hefur nokkurs konar skipslögun með miklu hornvígi í norðurátt.
Tvö önnur hornvígi teygjast út á fjallsöxlina og af þeim
öllum efstu pöllunum er geysigott útsýni að morgni dags yfir norðurhálendið
og Cap-Haitienláglendið, áður en hitamistrið myndast.
Virkisveggirnir eru allt að 43 m háir og 4 m þykkir.
Aðalinngangurinn
er um járnslegið hlið. Inni
í virkinu eru dimm kjallaraherbergi
og íverustaðir fyrir varnarliðið en allur útbúnaður er horfinn.
Á skotpöllunum standa enn þá u.þ.b. 150 fallstykki á harðviðarundirstöðum,
sem voru teknar herskildi í bardögum við Spánverja, Englendinga og
Frakka. Í inngarði
virkisins liggur harðstjórinn, sem lét byggja það, grafinn.
Á gröfinni, sem er pýramídalöguð, er bronzplata með áletruninni:
„Hér hvílir Henry Christophe, fæddur 6. oktober 1767, dáinn 20.
oktober 1820”.
Einkennisorð hans voru: „Ég mun rísa úr ösku
minni". Unnið
hefur verið alllengi að endurbyggingu virkisins.
Henry
I Christophe
er ásamt haitíska keisaranum Faustin I og Papa Doc einn umdeildasti maðurinn
í sögu landsins. Hann fæddist
sem þræll á brezku
eyjunni St. Christoper árið 1767 en aðrar heimildir segja hann son
frjálsra negra. Hann lærði
matreiðslu í St-Dominigue og rak veitingahús í Cap-Français. Vegna
hernaðargáfu sinnar og hughreysti reis frægðarsól hans æ hærra í
frelsisbaráttunni, þar til hann varð æðsti hershöfðingi og leiðtogi
uppreisnarmannanna.
Eftir
morð Dessalines 1086, þegar landið klofnaði í tvö ríki, varð
hann forseti norðurríkisins.
Í suðurríkinu ríkti Alexandre Pétion forseti, sem studdi Simón
Bolivar í sjálfstæðisbaráttunni.
Henry I var tilnefndur forseti ævilangt 17. febrúar 1807 og 26
marz 1811 lét hann gera sig að konungi.
Hann var góður skipuleggjandi og virkur stjórnandi í upphafi
stjórnartíðar sinnar og lagði mikla áherzlu á vinnusemi, reglusemi
og aga. Margar ákvarðanir
hans á sviði efnahags- og félagsmála voru skynsamlegar og haldgóðar.
Ekkert konungsdæmi gat verið án hirðar, þannig að nýr haitískur
aðall varð til og titlarnir voru hinir furðulegustu: „Hertoginn af
Marmelaði, greifinn af Límonaði”, o.þ.h.
Kóngurinn
úthlutaði aðalsmönnunum löndum að léni líkt og gerðist í Evrópu
á miðöldum. Henry I lét
reisa níu hallir og bústaði í ríkinu.
Flest húsin eru hrunin eða óaðgengileg miðað við núverandi
vegakerfi. Næstkunnasta höllin er Höll hinna 365 hliða við Petite
Rivière de l'Artibonite. Konungur
var talinn valdasjúkur og haldinn ofsóknarbrjálæði.
Samtímasagnir segja, að hann hafi talið sig vera fulltrúa guðs
á jörðinni. Hann er sagður
hafa látið skjóta af fallbyssum í þrumuveðrum til að sýna fram
á, að hann stæði ekki náttúruöflunum að baki. Hinn 15. ágúst
1820 fékk þessi óvinsæli konungur slag við messu í Limonade og var
eftirleiðis lamaður að hluta. Tveimur
mánuðum síðar veiktist hann við hersýningu og var fluttur heim í
Sans-Sousihöllina. Þar
voru honum sögð þau tíðindi, að lífvörður hans hefði gengið
í lið með uppreisnarmönnum. Hann
sá enga aðra leið færa en að taka líf sitt og til
þess notaði hann silfurpístólu og gullkúlu.
Hann dó 20. oktober 1820.
Dondon.
U.þ.b. 30 km sunnan Cap-Haitien við Dondon í fjöllunum
norðanverðum er að finna athyglisverða hella með mannvistarleifum
frá forkólumbískum tíma.
Skoðunarferð
frá Cap-Haitien ti Port-au-Prince
er tímans virði. Vegalengdin
er 275 km og tekur 5 klst með leigubíl en 10 klst með rútu.
Ekið er um Plaine de Nord, Chaine de Belance, Plaine des
Gonaives og Atribonitedalinn. Síðan er ekið með ströndinni til Port-au-Prince.
Andstæður gróinna fjalla og láglendis og sandstranda og
fenjatrjáabeltis meðfram ströndinni skapa skemmtilega stemmningu. |